18.05.1979
Sameinað þing: 98. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5027 í B-deild Alþingistíðinda. (4354)

51. mál, verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Hér er verið að ræða þáltill. sem hefur fengið afgreiðstu í n., og n. er klofin í málinu eins og hv. frsm. hafa gert grein fyrir. Ég vil ekki láta hjá líða að taka til máls um þetta efni og lýsa skoðunum mínum á einum þætti þessara mála sem varðar verktakaiðnaðinn á Keflavíkurflugvelli. Fyrst af öllu er þó rétt að taka það fram, að ég styð till. minni hl. hv. utanrmn., enda er verið að vinna að þessum málum um þessar mundir. Það hefur starfað nefnd á vegum utanrrn., sem hefur ekki endanlega lokið störfum og er að kanna verktakaiðnaðinn á Keflavíkurflugvelli og athuga með hverjum hætti hentugast sé að koma honum fyrir. Þessari nefnd er ætlað að ljúka störfum nú í sumar, en seinni hluti starfsins felst í að meta þann árangur sem orðið hefur í vetur, og vera má að sú úttekt komi til með að ýta enn frekar á þetta mál en hefur verið að undanförnu.

Um rannsóknarhlutverk utanrmn, og um nefndastörf í þeim anda almennt hér á þingi ætla ég ekki að vera margorður að sinni. Ég hef í umr. um Eimskipafélag Íslands og Flugleiðir skýrt frá skoðun minni í því sambandi, og ég er flm.þáltill. um að stjórnvöld leggi þegar í stað fram frv. um umboðsmann Alþingis, sem hv. frsm. minni hl. gat um áðan, og tel það til stórra bóta ef Alþ. tæki að sér meiri þátt í slíkum störfum en það hefur gert hingað til.

Það mál, sem hér er um að ræða, er hins vegar á nokkurn hátt viðkvæmt mál og á sér langa sögu — sögu frá þeim tíma þegar verktakastarfsemin var að slíta barnsskónum hér á landi og þegar verktakastarfsemin á Keflavíkurflugvelli var í höndum erlendra aðila og tilraun varð gerð af Íslendinga hálfu til að taka þann iðnað yfir. Þá var stofnað til Sameinaðra verktaka, en ætlunin með þeirri stofnun var að sameina íslenska verktaka í því skyni að þeir gætu haft bolmagn til þess að taka að sér verk á Keflavíkurflugvelli og verða þannig arftakar erlendra verktaka. Af sérstökum ástæðum, einkum þó skattalegum og ég vil segja skattalegri þröngsýni yfirvalda hér á landi, sem jafnan hefur einkennt stjórnvöld, varð að loka félaginu í stað þess að félagið væri opið og aðilar að því væru einungis þeir sem tækju að sér verk hverju sinni. Síðar meir, tveimur árum seinna eða svo, var stofnað nýtt félag, Aðalverktakar, sem sá um yfirstjórn þessara verka. Sá aðili vinnur ekki sjálfur verkin, heldur býður þau út til annarra verktaka, þ. á. m. Sameinaðra verktaka og tveggja verktaka annarra sem eru á Suðurnesjum, Suðurnesjaverktaka og Keflavíkurverktaka. Þetta mál á þess vegna langa sögu. Því má ekki heldur gleyma, að aðilar að Aðalverktökum eru auk Sameinaðra verktaka Reginn hf., sem var stofnað, að mig minnir, á stríðsárunum, og hins vegar ríkið, og það er utanrrh. sem skipar mann í stjórn þessa fyrirtækis.

Nú þegar talsverður tími er liðinn frá því að Íslendingar stofnuðu eigin verktakafyrirtæki þarf að kanna hvort ekki sé kominn tími til að breyting verði á þeim málum í viðskiptum við varnarliðið. Að því leytinu til er full ástæða til að ræða þetta mál. Með því er engin afstaða tekin til þess, sem gert er í nál. meiri hl., að það þurfi einhverja sérstaka rannsókn á þessu fyrirtæki umfram önnur fyrirtæki í landinu eða einhverjar sérstakar heimildir til þess að rannsaka þetta fyrirtæki umfram þær heimildir sem eru fyrir í íslenskum lögum um það, hvernig stjórnvöld geta rannsakað rekstur íslenskra fyrirtækja. Á þessu vil ég gera skýran greinarmun og sný mér miklu frekar að þeim þætti málsins, sem er miklum mun merkilegri, ef einhver áhugi er á því í þessari hv. stofnun að hugsa um framtíð íslenskra atvinnuvega.

Hér er nú risinn upp verktakaiðnaður og samtök hans eru orðin 10 ára gömul. Það er kannske kominn tími til þess vegna að íhuga hvort ekki eigi að verða breytingar í þessum málum, ekki einungis að því er varðar viðskipti við varnarliðið, heldur enn fremur á aðstöðu verktakanna gagnvart fjölmörgum ríkisfyrirtækjum í landinu: Ég vil rifja það upp hér, að hv. þm. Ellert B. Schram flutti í vetur mjög merkilega þáltill. þar sem lagt var til að stjórnvöld létu vinna frumvinnuna sem gæti orðið grundvöllur fyrir því að verktakastarfsemin í landinu, hin almenna verktakastarfsemi, verktakaiðnaðurinn, tæki að sér ýmis verk sem nú eru í höndum opinberra aðila, einkum og sér í lagi þó Vegagerðarinnar annars vegar og Vita- og hafnamálaskrifstofunnar hins vegar. Þetta er sá háttur sem hafður er á víðast hvar annars staðar, þar sem einhver verktakaiðnaður er starfandi og hefur ótvíræða kosti. Þetta hefur m. a. þann kost við hagstjórn, að hægt er að draga saman og þenja út framkvæmdir með allt öðrum og betri hætti en tíðkast þegar opinberar stofnanir eiga og reka öll tæki sín. Ég skal ekki verða langorður um þann þátt, svo augljós sem hann er, en því miður höfum við Íslendingar ekki borið gæfu til að nýta okkur þá starfshætti sem víðast hvar eru tíðkaðir í vestrænum ríkjum. Verktakaiðnaður hér á landi á við erfiðleika að stríða, þar sem hann er ekki nægilega stór og öflugur til þess að þola þær miklu sveiflur sem verða hér á landi í ýmsum framkvæmdum, bæði framkvæmdum opinberra aðila og framkvæmdum einkaaðila, sem háttar þannig um að eðlilegt er að boðnar séu út og verktakar taki að sér.

Ég vil enn fremur minna á það í þessu máli, að í samningum við Bandaríkin er tekið skýrt fram að við framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli eigi að taka tillit til atvinnuástands hér á landi. Ég sé ekki ástæðu til annars en skýra það svo, að þegar um er að ræða samdrátt í vissum greinum hér á landi, t. d. opinberum framkvæmdum, sé opin leið til þess að örva framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli — nauðsynlegar framkvæmdir — sem varnarliðið og íslensk stjórnvöld hafa komið sér saman um að þar eigi sér stað. Á þetta vil ég minna, því að ég hygg að kunni að hafa orðið nokkur misbrestur á framkvæmd þessa ákvæðis. Um þetta vita að sjálfsögðu miklu betur en ég utanrrh., og ég vænti þess að fyrrv. hæstv. utanrrh., Einar Ágústsson, skýri þingheimi frá þessari klásúlu, ef efni standa til, síðar í umr. hér á þinginu.

Einn er sá þáttur þessa máls enn fremur sem veldur erfiðleikum, og það er það tollfrelsi sem Aðalverktakar njóta í starfseminni á Keflavíkurflugvelli og gerir að verkum að það er erfiðleikum bundið fyrir önnur fyrirtæki að starfa á varnarsvæðinu og eins fyrir Aðalverktaka, eða þá sem stunda vinnu innan svæðisins, að nota tæki sín utan vallarsvæðisins. Á þessu hafa að vísu verið gerðar mikilvægar undantekningar og sú stærsta og mikilvægasta er sú þegar lagður var fullkominn vegur með nútímalegum hætti frá Keflavík til Reykjavíkur.

Til þess að koma til móts við hin nýju sjónarmið er hægt að fara ýmsar leiðir. Það átti einmitt sú nefnd að kanna sem hefur verið starfandi um hríð. Einkum koma þrjár leiðir til greina: Að Aðalverktakar haldi áfram að vera aðalverktakar, en fleiri taki verk af þeim. Í öðru lagi, að fyrirtækið Aðalverktakar verði opnað og miklu fleiri aðilum gefinn kostur á að gerast hluthafar í því. Og í þriðja lagi er hægt að hugsa sér að opinberir aðilar kæmu þarna inn á milli og gerðust eins konar milliliðir í þessu máli, rétt eins og væri verið að fara með opinberar framkvæmdir. Það væri gert vegna þess að ef um óhefta samkeppni íslenskra aðila væri að ræða mætti búast við svipaðri niðurstöðu og varð þegar Bifröst og Eimskipafélag Íslands áttust við um flutningana fyrir varnarliðið frá Bandaríkjunum til Keflavíkur. Það er að vísu e. t. v. eðlilegasta leiðin þegar litið er á málið frá beinhörðu viðskiptasjónarmiði, en þegar við höfum hagsmuni Íslendinga til hliðsjónar til langs tíma gæti verið eðlilegt að milliliðir af Íslands hálfu væru í þessum samningum. Hér skal ég ekki leggja dóm á, hvaða leið sé heppilegust, né heldur á það, hvort aðrar finnist sem haldbærari eru, en þetta eru þó aðalatriði málsins. Það er hins vegar hégómamál, sem við erum að ræða í þessari þáltill. og er hluti af þeirri „rannsóknastarfsemi“ sem hér hefur riðið hásum í vetur og er núna aðeins broslegt gamanmál sem maður les um við og við í blöðum bæjarins. Ég er þó ekki með þessu að segja að tilgangurinn hafi verið „billegur“ hjá flm. Þar var öðrum þræði verið að kanna hvort formlega væri hægt að fela þn. slíkt mál. Sá tilgangur er út af fyrir sig góðra gjalda verður, en þarf ekki endilega að bitna á viðkomandi málefni þegar nokkuð skýrt liggur fyrir hjá þeim, sem nenna að kynna sér málavöxtu, um hvað málið raunverulega snýst.

Ég hef undir höndum bréf sem fóru milli hæstv. utanrrh. og Íslenska verktakasambandsins, og þar kemur fram m. a., sem ég held að sé til upplýsinga fyrir hv. þingheim, að hæstv. utanrrh. er þeirrar skoðunar, að í stofnsamningi Íslenskra aðalverktaka felist engin skuldbinding um að þeir skuli hafa einkarétt á verkunum, heldur getur hæstv. utanrrh. gert um það frá ári til árs. Þetta er mikilvæg staðreynd sem við verðum að hafa í huga.

Mig langar til, herra forseti, að fá leyfi til að lesa upp grg. um verktöku fyrir varnarliðið, því að í þeirri grg. koma fram þau viðhorf sem voru uppi í því nefndarstarfi sem vísað er til í till. minni hl. utanrmn. og er aðaluppistaðan í rökstuðningi hans. Og hef ég þá lesturinn, með leyfi forseta:

„Greinargerð um verktöku fyrir varnarliðið.

Hinn 3. ágúst 1978 skipaði þáv. utanrrh., Einar Ágústsson, þriggja manna nefnd til þess að taka til athugunar mál sem snerta verktöku fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli. Formaður nefndarinnar var skipaður Páll Ásgeir Tryggvason sendiherra, en aðrir nm. Gunnar Gunnarsson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Íslenskum aðalverktökum sf., og Ármann Örn Ármannsson tilnefndur af Verktakasambandi Ístands, en hann er formaður þess. Undir lok ágústmánaðar ákvað ráðh. að bæta tveim mönnum í nefndina og voru það þeir Jón H. Jónsson, framkvæmdastjóri Keflavíkurverktaka, og Jón B. Kristinsson, formaður Suðurnesjaverktaka, og voru þeir tilnefndir af fyrirtækjum sínum.

Nefndin kom fyrst saman til fundar 22. ágúst s. l., en hefur alls haldið sex fundi. Vegna sumarleyfa og annarra fjarvista reyndist oft nokkuð erfitt að ná öllum nm. saman, en annars fór töluverður tími í alls konar gagnaöflun.

Upphaflegt sjónarmið Verktakasambands Íslands kemur fram í bréfi, sem ritað var utanrrh. 6. mars 1978, og fylgir það grg. þessari sem fskj. nr. 1. Till. þessum var svo fylgt úr hlaði á fyrsta og öðrum fundi nefndarinnar. Um þetta segir svo m. a. í fundargerð annars fundar:

„Formaður setti fundinn og bauð sérstaklega velkomna þá Jón B. Kristinsson og Jón H. Jónsson, sem skipaðir höfðu verið í nefndina til viðbótar þeim er fyrir voru eftir fyrsta fund hennar. Hann sagði stuttlega frá fyrsta fundi nefndarinnar, sem hefði verið óformlegur, og gat þess að Ármanni Erni hefði verið boðið að heimsækja Íslenska aðalverktaka sf. á Keflavíkurflugvelli til þess að kynna sér starfsemina þar.

Ármann Örn skýrði frá því að hann hefði kynnt fyrir nm. till. þær um breytingar á verktakastarfsemi á Keflavíkurflugvelli sem Verktakasamband Íslands hefði sent utanrrh. í mars s. l. Og þar sem hann gerði ekki ráð fyrir því, að nýju nm. þekktu þessar till., þá óskaði hann þess, að þeir kynntu sér þær, og fékk þeim afrit til aflestrar. Nokkrar umr. urðu um þessar till. Verktakasambandsins, en nýju nm. töldu sig þurfa nokkurn tíma til þess að kynna sér þær.

Jón B. Kristinsson lýsti stofnun og uppbyggingu Suðurnesjaverktaka hf. og skýrði stuttlega frá viðskiptum þeirra við Íslenska aðalverktaka og undirverktaka þeirra að undanförnu og óskum um frekari verkefni við varnarliðsframkvæmdir.

Jón H. Jónsson gerði grein fyrir störfum Keflavíkurverktaka hf. eða þeim 4 félögum sem að þeim stóðu. Hann gat þess sérstaklega, að félögin stæðu opin öllum iðnaðarmönnum á Suðurnesjum og gætu þeir fengið keypta hluti í viðkomandi félögum ef óskað væri eftir því.

Gunnar Þ. Gunnarsson skýrði frá starfsemi Íslenskra aðalverktaka sf. og gat þess m. a., hve mikill hluti framkvæmda væri unninn af undirverktökum. Hann upplýsti að verkkaupi, þ. e. varnarliðið, legði mikið upp úr því að hafa ávallt hæfan verktaka reiðubúinn til þess að taka að sér framkvæmdir án mikils fyrirvara. Hann sagði skoðun sína byggða á langri reynslu, að nauðsynlegt væri að einn traustur og öflugur aðalverktaki hefði með höndum samningagerð við verkkaupa. Kanna mætti hvort ekki væri hægt að gefa fleiri aðilum kost á undirverktöku í einstökum greinum, svo sem t. d. málningu, trésmíði, pípulögnum og rafvirkjun. Gunnar Gunnarsson lagði fram minnisblað um varnarliðsframkvæmdir almennt og er það merkt sem fskj. nr. 2.“

Það skal tekið fram sem innskot, að ég hef þessi fskj. hér ef hv. þm. kæra sig um að lesa þau frekar og kynna sér hvernig þessi mál standa, í stað þess að skemmta sér við þá iðju að hugsa til þeirrar framtíðar að þeir geti setið hér í forsæti í rannsóknarrétti og kallað til sín menn eftir eigin hentugleikum. Heldur þá lesturinn áfram:

„Á þriðja fundi lagði svo Gunnar Gunnarsson fram umsögn um framkvæmd verksamninga við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli og er hún merkt sem fskj. nr. 3.

Ármann Örn Ármannsson lagði svo fram spurningar vegna Íslenskra aðalverktaka sf., sem lögð var fram á fundi 28. 9. 1978. Var öllum þessum spurningum svarað á fjórða fundi nema spurningu 17, þar sem spurt er um verð í íslenskum krónum á steypu frá steypustöð kominni á vinnustað pr. kúbikyard og malbik pr. tonn af stöð.“ — Ég vil gefa hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni tækifæri til að hlæja smástund ef hann vill. (ÓRG: Alveg sjálfsagt.) Hv. þm. hefur lokið hlátri sínum og þá held ég áfram lestrinum.

„Á fimmta fundi lagði svo Ármann Örn Ármannsson fram bréfaskipti, er fram höfðu farið milli Verktakasambands Íslands og utanrrh., en það eru bréf til utanrrh., dags. 20. okt. s. l., svarbréf ráðh. 8. nóv, og bréf frá Verktakasambandinu, dags. 11. s. m. Í ofangreindu svarbréfi ráðh. kemur fram, að hann mun óska eftir að Íslenskir aðalverktakar sendi utanrrn. till. um hvernig hægt sé að skipta þeim verkum, sem vinna á næsta ár, til undirverktaka að sem allra mestu leyti. Það upplýstist á þessum nefndarfundi, að fundur var fyrirhugaður daginn eftir milli Verktakasambandsins og Aðalverktaka.

Á fjórða fundi hafði verið samþykkt að hver verktakafulltrúi í nefndinni kæmi með drög að till. á næsta fund, sem síðan yrði reynt að samræma sem till. til ráðh. En þessar till. voru svo lagðar fram á fimmta fundi. Tillaga Verktakasambandsins hefur sérstöðu að því leyti, að hún leggur til að afgreiðslu málsins verði frestað og endanleg leið verði valin eigi síðar en 1.7.1979 á grundvelli þeirrar reynslu sem fæst af væntanlegu samstarfi Verktakasambandsins og Aðalverktaka fram að þeim tíma. Voru allir nm. sammála um þá málsmeðferð að láta reynsluna skera úr. Er það því lagt til að ráðh. fresti endanlegri ákvörðun meðan samningaleiðin er reynd. Tillögur Íslenskra aðalverktaka, Keflavíkurverktaka og Suðurnesjaverktaka eru efnislega afar líkar, nánast eins að því er tillögur Íslenskra aðalverktaka og Keflavíkurverktaka varðar.“

Ég læt hér lestri úr þessu bréfi lokið, en í því kemur glöggt fram, eins og ég sagði áður, að starfað hefur nefnd um þessi mál. Á grundvelli niðurstöðu nefndarinnar er nú beðið til 1. júlí á þessu ári, en á þeim tíma skal nefndin kölluð saman aftur og á þá að gefa skýrslu til ráðh. um hver reynsla hafi verið af hinu nýja starfsfyrirkomulagi.

Ég hef ekki flutt þessa ræðu í málþófstilgangi og sýnir það hvern innri mann sá hefur að geyma er fram í kallaði þegar hann taldi það vera. Ég flyt þetta mál til þess að sýna fram á, að það er út í bláinn að samþykkja þessa þáltill. á þessu þingi. Það verður að sjálfsögðu að bíða eftir niðurstöðu nefndar þeirrar sem þarna starfar, kanna að því starfi loknu hvernig reynslan hefur verið og kynna sér rækilega hvort ekki sé kominn tími til að breyta ástandinu í þá átt að fleiri geti verið þátttakendur í verktöku á Keflavíkurflugvelli. Um það á þetta mál að sjálfsögðu að snúast. Um það hins vegar, hvort ástæða sé til þess að setja rannsóknarrétt yfir þessu fyrirtæki, hef ég ekki fjallað í ræðu minni, ég hef gert það áður í ræðum mínum á hv. Alþ., en ég bendi mönnum á að einn hluthafinn í þessu fyrirtæki er íslenska ríkið og aðgang að öllum upplýsingum er afskaplega auðvelt að hafa, því að það er utanrrh. sem fer með þessi mál. Til glöggvunar fyrir hv. flm. vil ég geta þess, að hæstv. utanrrh. hefur nýlega skipað stjórnarmann í þetta fyrirtæki, þannig að það ættu að vera hæg heimatökin á því flokksheimili. Ef umr. um þetta mál eiga aftur á móti að snúast um rannsóknaratriðin er ég tilbúinn að endurtaka þá ræðu sem ég hef haldið hér á Alþ. fyrr um þau mál. En ég taldi kannske að bæði hv. flm. og fleiri hv. þm., sem sýna þessu máli áhuga og hafa skráð sig á mælendaskrá, hefðu í raun og veru áhuga á að kynna sér þetta mál í því skyni að kanna hvort við getum gert ungum og vaxandi verktakaiðnaði í landinu nokkurt gagn með breyttu fyrirkomulagi í framtíðinni.