18.05.1979
Sameinað þing: 98. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5032 í B-deild Alþingistíðinda. (4355)

51. mál, verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það ber að fagna því sérstaklega, að meiri hl. hefur myndast í hv. utanrmn. um að mæla með því við Sþ. að þessi till. verði samþ. Það er því miður staðreynd að fulltrúar Framsfl. og Sjálfstfl. í þessari n. hafa tekið höndum saman og lagst gegn till., að mínum dómi án nokkurra gildra raka.

Ég vil aðeins víkja nokkrum orðum að þeim ræðum sem hv. alþm. Einar Ágústsson og Friðrik Sophusson fluttu til að andmæla þessari till., en áður en ég geri það vil ég lýsa alveg sérstökum stuðningi við Alþb. við að þessi till. fái framgang. Og ég held að það boði aukinn stuðning við breytt vinnubrögð, bæði hér á þinginu og í þjóðfélaginu, og það lýsi mjög sterkri samstöðu um nauðsynlega gagnrýni og aðhald í þjóðfélaginu að þessir tveir stóru flokkar skuli á Alþ. ná samstöðu um þetta mál. (FrS: Tveir jafnstóru flokkar.) Þeir stóru flokkar, sagði ég, hv. þm. Friðrik Sophusson. Það er vissulega að harma að ungir þm. Sjálfstfl. sérstaklega skuli ætla að feta í fótspor fyrirrennara sinna á hv. Alþ. og gerast sérstakir verndarar þeirra viðskiptahagsmuna Framsfl. og Sjálfstfl. sem þetta fyrirtæki er tákn um frá hinu fræga helmingaskiptastjórnartímabili þessara tveggja flokka. Svo glæsilegur minnisvarði eru Íslenskir aðalverktakar um það helmingaskiptatímabil að tveir núv. formenn beggja þessara flokka munu báðir hafa verið starfsmenn þessa fyrirtækis, ef ég man rétt.

Hv. þm. Einar Ágústsson vildi að till. um umboðsmann Alþingis kæmi í staðinn fyrir þá hugmynd um könnunar- og úttektarstarf Alþingis sjálfs sem er kjarni þessarar till. Ég hef heyrt þessa skoðun áður. Ég vil aðeins taka það fram að gefnu tilefni, að ég tel þetta sjónarmið vera byggt á misskilningi. Lög og hugmyndir um umboðsmannskerfið eða „ombudsmands“ — kerfið, eins og það er kallað á erlendum málum, eru af allt öðru tagi. Sú stofnun „ombudsmands“-stofnunin, sem hefur verið sett á fót í nokkrum nágrannalöndum okkar, í Svíþjóð, Danmörku, Bretlandi og í nokkrum öðrum löndum einnig, er tæki einstaklinganna í þjóðfélaginu til þess að láta ganga úr skugga um hvort stjórnsýslulegar ákvarðanir embættismanna séu réttar eða sanngjarnar. „Ombuðsmands“-stofnuninni er ætlað að vera aðhaldstæki einstaklinganna gagnvart stjórnsýslukerfinu til að ganga úr skugga um hvort mismunun hafi átt sér stað eða annars konar misferli í meðferð opinberra mála, án þess að þar séu beinlínis sakamál á ferðinni. „Ombudsmands“-kerfið er á engan hátt þannig vaxið að því sé ætlað að taka fyrir almennar rannsóknir á stofnunum, fyrirtækjum eða öðrum þeim aðilum sem hér í vetur hafa verið gerðar till. um að væru teknir til meðferðar. Og það að rugla þessu saman er — ég vona að mér verði fyrirgefið þótt ég segi það — alger misskilningur á eðli þeirrar stofnunar sem á íslensku hefur verið kölluð umboðsmaður Alþingis, og þessi misskilningur kann að stafa af því, að heitið umboðsmaður Alþingis, sérstaklega nafn Alþingis, hefur verið tengt við íslenskun á þessari erlendu stofnun sem á flestum málum ber hið upprunalega heiti umboðsmaður. Það kann að villa um fyrir mönnum og þeir að telja að hann sé einhver sérstakur fulltrúi Alþingis gagnvart stjórninni. Svo er alls ekki, þvert á móti. Umboðsmanninum er ætlað að vera algerlega óháður Alþ. á allan hátt. Ég vil undirstrika það, um leið og ég tel að þetta sé á algerum misskilningi byggt um eðli hugmyndanna um umboðsmannskerfið, að ég lýsi sérstökum stuðningi við að þær hugmyndir nái fram að ganga, en það er bara allt annað mál. Ég er hins vegar fylgjandi því að það nái fram að ganga. Ég held því, að ábendingar hv. þm. Einars Ágústssonar um hvaða aðili gæti sinnt þessu séu einfaldlega byggðar á misskilningi.

Ræða hv. þm. Friðriks Sophussonar var náttúrlega staðfesting á nauðsyn rannsóknar eða athugunar af þessu tagi, því að öll sú nákvæma lýsing, sem hann flutti hér með dagsetningum, nafngiftum og öllu öðru sem fylgdi upplestri hv. þm., sýndi náttúrlega hvers konar vettlingatök, hvers konar seinagangur og hvers konar erfiðleikar eru tengdir þeirri athugun sem hann vill byggja allt sitt á. Ég ætlaði mér, áður en hv. þm. tók til máls, að lýsa því sérstaklega yfir, að ég vantreysti þeirri athugun sem rn. er að vinna að og vísað er til í hinni rökstuddu dagskrá. Og ég þakka hv. þm. Friðrik Sophussyni alveg sérstaklega fyrir að hafa flutt hina nákvæmu lýsingu sem að mínum dómi staðfestir algerlega það vantraust. Þau vinnubrögð, sem þarna eru á ferðinni, og það starf snertir á engan hátt við því vandamáli sem þessi till. snýst um ekki á nokkurn hátt. (FrS: Nei, það snýst um kjarna málsins.) Það er svo allt annað mál. Ef hv. þm. telur að það snúist um einhvern annan kjarna en kjarnann í þessari till. ber honum að flytja till. um þann kjarna. En það snertir ekki kjarnann í þessari till. og það er þess vegna algerlega út í hött að ætla sér að vísa henni frá með tilvísun til þessa nefndarstarfs, sem er af allt öðru tagi. Ég hafði vænst þess, að hv. þm. Friðrik Sophusson gæti fundið frumlegri og betri afsökun fyrir því að vera ekki með þessari till. en þá sem hann flutti hér.

Staðreyndin er sú, að fyrirtækið Íslenskir aðalverktakar liggur undir grunsemdum um margvíslega gróðaöflun, um vafasama ráðstöfun fjármuna, um hagsmunagæslu, sem á ýmsan hátt er óeðlileg, og margt fleira. Það leika grunsemdir á að í kringum þetta fyrirtæki hafi þróast netstarfsemi sem sé ekki eðlileg í þjóðfélagi okkar, og þær grunsemdir eru í raun og veru algerlega óháðar því hver á að vera þróun verktakastarfseminnar í landinu. Það er hins vegar almennara og stærra mál, sem hér er kannske sjálfsagt að ræða, en það er bara verið að drepa kjarna þessa máls, sem hér liggur fyrir í tillöguformi, á dreif með þeirri umr. sem hv. þm. Friðrik Sophusson beitti sér fyrir. Ég vil þess vegna beina því til hv. þm., sem treysta sér e. t. v. ekki til þess að vera með þessari till., að það komi fram skýrari og afdráttarlausari rök en þau sem tveir síðustu ræðumenn, sem töluðu á móti málinu, hafa flutt. Rök annars byggðust á misskilningi, rök hins voru um efnisatriði sem alls ekki koma þessu máli við.

Ég ætla hins vegar ekki — ég hef gert það áður í vetur — að taka til ítarlegrar umr. hugmyndir margra þm. um nauðsynlegar athugunar- og könnunarnefndir, en hv. þm. Friðrik Sophusson sagði að sú umr. væri nú eingöngu broslegt gamanmál í bænum. Ég get fullvissað hv. þm. um, að ef eitthvað er orðið gamanmál í þeirri umræðu er það sú ræða sem hv. þm. flutti sjálfur fyrr í vetur þegar málefni fyrirtækjanna Flugleiða og Eimskips komu til umr. á þingi. Atburðarásin hefur leikið þá ræðu svo grátt að ég ætla að hlífa hv. þm. við að rifja hana sérstaklega upp. Hv. þm. Friðrik Sophusson sagði, að mjög auðvelt væri að fá upplýsingar um Íslenska aðalverktaka. Það vill nú svo til að ég hef reynt það. Ég hafði samband við háttsettan stjórnarmann í Íslenskum aðalverktökum fyrir nokkrum árum og óskaði tiltölulega einfaldra upplýsinga um fyrirtækið. Ég fékk þau svör, að hann gæti að vísu sagt mér persónulega ýmsa hluti, en slíkt væri alls ekki til birtingar, alls ekki til þess að ég mætti fara með það á opinberum vettvangi. Og það var víðs fjarri að hinn háttsetti stjórnarmaður fyrirtækisins teldi að það væri eitthvað sjálfsagt og eðlilegt mál að gefa opinberar upplýsingar um starfsemi þess. Hér tala ég af eigin reynslu, þannig að hv. þm. þarf ekkert að segja mér hvað er auðvelt að fá þarna upplýsingar. Staðreyndin er nefnilega sú, að í þessu máli sem og mörgum öðrum hafa þróast og eflst í þjóðfélaginu aðilar sem hafa feikileg umsvif á ýmsum sviðum. Ég efast t. d. um að mörg fyrirtæki í þessu landi hafi haft önnur eins fjárfestingarumsvif á síðari árum og það fyrirtæki sem hér er til umr., og það er nauðsynlegur þáttur í því aðhalds- og gagnrýnishlutverki, sem Alþ. er ætlað að sinna, að það taki sjálft frumkvæði í upplýsingaöflun um þessi fyrirtæki. Það er líka rangt að segja að við höfum ekki formleg vald til þess að gera það, vegna þess að í nefndum Alþ. erum við dag eftir dag eftir dag að kalla til okkar embættismenn, fulltrúa fyrirtækja, hagsmunasamtaka, einstaklinga, sérfræðinga og fjölmennan hóp aðila í þjóðfélaginu, sem eru marserandi inn og út úr húsakynnum þingsins, til þess að gefa upplýsingar og svara fsp. okkar. Það er hins vegar, alveg rétt, að við höfum ekkert lögbundið vald til að beita þessa einstaklinga einhverjum refsingum ef þeir neita að gefa okkur upplýsingar eða gefa okkur rangar upplýsingar. En þessi till. snýst ekki heldur um að það eigi að beita þá slíkum refsingum. Hún gerir það á engan hátt. Og ég verð að segja og hef sagt það áður, að ég sé engan eðlismun á því, að hv. utanrmn. eða aðrar n. þessa þings kalla hingað til sín viku eftir viku og dag eftir dag fjölda sérfræðinga og fulltrúa alls konar aðila í þessu. þjóðfélagi til að óska eftir upplýsingum og að gera það á nákvæmlega sama hátt gagnvart þessu sérstaka fyrirtæki. Það er enginn eðlismunur á því. Það er hreinn fyrirsláttur að segja að við höfum ekki vald eða möguleika til þess að gera það. Og ég beini þeim tilmælum til hv. alþm., að fyrst meiri hl. hefur myndast í hv. utanrmn. fyrir því að þessi till. verði samþ. láti þeir þá, sem eru meiri hl. n. og vilja vinna að þessu verki, njóta þess að geta sýnt fram á, að þetta sé raunhæft, frekar en fara að vantreysta þeim fyrir fram. Það er meiri hl. þessarar n. sem hefur lýst sig reiðubúinn til að vinna þetta verk. Ég hefði talið eðlilegra í alla staði að láta reyna á það í verki hvort þetta væri hægt eða ekki hægt. Og ég held að við það eitt mundi fást mjög dýrmæt reynsla fyrir þingið til þess að meta stöðu mála af þessu tagi í framtíðinni.

Ég ítreka þá beiðni til hv. alþm. að veita þeim, sem vilja taka upp þessi vinnubrögð, möguleika til að láta reyna á hvort þetta er hægt.