18.05.1979
Sameinað þing: 98. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5038 í B-deild Alþingistíðinda. (4361)

16. mál, beinar greiðslur til bænda

Frsm. minni hl. (Páll Pétursson) [frh]:

Herra forseti. Mér þykir fyrir því hvað vantar marga sjálfstæðismenn í salinn, því að ég hafði hugsað mér að eiga orðastað við örfáa þeirra, og m. a. s. vantar menn úr hv. allshn. Sþ. En einkum er það formaður Sjálfstfl. sem ég sakna héðan. (Gripið fram í: Á að reyna að leita hann uppi?) Ég ímynda mér að ég verði þrátt fyrir allt að láta mér nægja að snúa mér til hv. 5. þm. Norðurl. v., Eyjólfs K. Jónssonar, sem er skjólstæðingur formanns Sjálfstfl., hv. 4. þm. Reykv., og biðja hann að bera formanninum þau orð sem ég kem til með að láta falla. — Mér þykir þetta ótrúleg taugaveiklun hjá hv. sjálfstæðismönnum. Ég er að vísu ekki óvanur geðshræringum hjá hv. 5. þm. Norðurl. v. og kippi mér ekkert upp við þær, en það tekur alveg steininn úr þegar hv. 4. þm. Reykv. kemur í ræðustól utan dagskrár m. a. til þess að hafa í hótunum við ríkisstj. til þess að knýja á um — Ég býð hv. 4. þm. Reykv. velkomna í salinn. Þá getum við ræðst við milliliðalaust. Ég var að segja að ég væri ekki óvanur geðshræringum hjá hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni, en mér finnst ótrúleg taugaveiklun hafa gripið sjálfstæðismenn þegar formaður flokksins kemur í ræðustól utan dagskrár m. a. í því skyni að hafa í hótunum við ríkisstj. út af því að ég hafi talað hér í 50 mínútur eða eitthvað þar um bil um till. sem varðar ákaflega miklu eina stétt í landinu og kemur til með að koma mjög harkalega niður á henni. Það er hinn rósami, gæflyndi og kurteisi formaður sem lætur sér þessar hótanir um munn fara. Svo er hv. 1. þm. Reykv., Albert Guðmundsson, að segja að hv. 4. þm. sé allt of meinlaus til að vera flokksforingi! Þetta finnst mér aldeilis útilokað. Mér finnst að hv. 4. þm. Reykv. megi ekki grimmari vera. Okkur Húnvetningum a. m. k. ofbýður svona nokkuð, og mér fannst þetta vera óþarfa afskiptasemi og taugaveiklun. Mér finnst nefnilega að Sjálfstfl. megi vel við una, og það langaði mig til að rifja upp fyrir hv. 4, þm. Reykv. og formanni Sjálfstfl., að stjórnarflokkarnir, stuðningsmenn ríkisstj., hafa ekki staðið í vegi fyrir afgreiðslu mála stjórnarandstöðunnar. Mér er sagt, ég veit það ekki af eigin reynslu, að á viðreisnartímanum hafi ekki komið fyrir eða naumast komið fyrir að mál frá stjórnarandstöðunni hafi gengið í gegnum þingið. Þegar stjórnarandstaðan flutti sín alsjálfsögðustu mál tók viðreisnarstjórnin þau upp í stjfrv., en hún unni ekki þáverandi stjórnarandstæðingum að koma málum fram. Þessi tíð er af, sem betur fer.

Ég aflaði mér gagna í dag frá skrifstofu þingsins um afgreiðslu þingmála. Í gærkvöld var búið að afgreiða 46 stjfrv. og örfáar þáltill. frá ríkisstj. Ég tek það fram, að það var ég sem taldi á þessum lista svo það kann að vera mistalið; en þá eru það skyssur mínar. — Það var búið að afgreiða 18 mál í gærkvöld frá stjórnarandstöðunni, þáltill. og frv., sum veigamikil og nokkur mjög veigamikil, en það var ekki búið að afgreiða frá okkur þessum 40 stjórnarliðum nema 9 mál. Fsp., rökstuddar dagskrár og því um líkt er ekki í þessari upptalningu. Ég er að tala um raunveruleg þingmál, þmfrv., stjfrv. og þáltill. (AG: Þetta eru góð mál.) Já, margt af þessu eru góð mál, og það er okkur til hróss, stjórnarsinnum, að taka svo vel undir þau. Ég hef sem nefndarformaður getað greitt fyrir nokkrum þáltill. frá sjálfstæðismönnum og mælt fyrir þeim m. a. s. sumum úr þessum ræðustól eða nál. um þau og lagt til að þær verði samþykktar. Þess vegna finnst mér það fyrir neðan allar hellur að láta svona þó að ég tali í 50 mínútur um mikilsvert mál, ekki síst vegna þess að hér sitja menn sem helst ekki fara í ræðustól fyrir minna en hálfan annan klukkutíma. Þeir hafa gjarnan verið kennarar fyrr meir og vita ekkert af því fyrr en þrjú korterin eru liðin.

Það má hins vegar deila á mig fyrir eitt, og ég tek skýrt fram að ég er ekkert að biðjast afsökunar, en það er ekki óeðlilegt að deila á mig fyrir einn hlut. Það er að kafli í ræðu minni, sem ég flutti í fyrradag, var leiðinlegur og leiðinlegar ræður eiga menn ekki að flyt a. Það er illfyrirgefanlegt að flytja leiðinlegar ræður. Ég hef þá afsökun, að ég las þarna upp gögn frá Seðlabankanum og það var leiðindalestur. Ég hlífði að vísu þingheimi við versta kaflanum, en þetta er sem sagt staðreyndin. Ég hef þó nokkrar málsbætur, því að ég hef m. a. s. hlustað á hv. 4. þm. Reykv. flytja leiðinlegar ræður úr þessum ræðustól og það fleiri en eina og fleiri en tvær. (GH: Það er afar ólíklegt.) Aðeins hefur það hent.

Ég lýsti því yfir m. a. s. við upphafsumr. málsins, að ég teldi að það mundi vera kominn þingmeirihl. fyrir málinu. Mér dettur ekki í hug að standa á móti þeim þingmeirihl. Ég hlýt að beygja mig fyrir honum. En mér dettur hins vegar ekki í hug að sleppa þingheimi við að kynna fyrir honum gögn í málinu, sem eru grundvallarplögg, og þessar upplýsingar skulu í þingheim, ef ekki með góðu, þá með illu. Og þegar fátækir bændur fyrir norðan fá ekki út og eru komnir í greiðsluþrot, komnir svona 100 ár aftur í tímann í verslunarháttum og búnir að eyða beinu greiðslunum og hafa ekki upp í veðin sín, þá geta þeir farið heim til sín, lesið Alþingistíðindin og séð hverjum ástandið er að kenna. Og þá kemur mergurinn málsins. Þá koma þeir til með að sjá að það er hv. þm. Eyjólfur K. Jónssyni og Lúðvík Jósepssyni að kenna að svo er komið fyrir þeim, en ekki mér að kenna. Og þá hugsa þeir hlýlega til mín, en kuldalega til þessara tveggja kapítalista ellegar þá til hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar samvinnufrömuðar. Þá koma Alþb.-bændurnir til þess að krefja hann reikningsskila og láta hann standa fyrir máli sínu, því að þá verður væntanlega hans ríkið, mátturinn og dýrðin, því að hv. þm. Lúðvík verður orðinn gamall og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sennilega búinn að taka við af formanni Alþb. (Gripið fram í: Er svona langt í þetta?) Ég á ekki von á að það verði mjög langt í það. Ég vona að bændur þoli fáein ár, en fljótlega sígur á ógæfuhlið bæði fyrir þeim og Alþb. En þeir eiga það sameiginlegt Lúðvík og Ólafur, að þeir hafa báðir fremur litla þekkingu á landbúnaði og er skítsama um bændur nema um kosningar. En þeir hafa báðir löngun til að ráða og löngun til að vera í fremstu röð.

Ég ímynda mér að hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson — ég reyndar ímynda mér ekki, ég veit að hann er hugsjónamaður. Hann er mikill hugsjónamaður, en hann er ofurlítið viðkvæmur og kemst öðru hverju í geðshræringu. Hann má alls ekki taka það nærri sér þó að umr. verði um till. sem hann hefur flutt af snilld sinni, manngæsku og drengskap. Þessar umr. eru bara af því sprottnar, að þessi till. er ofurlítið vanhugsuð. Hv. þm. hefur komið mörgum málum í gegn á þessu þingi og sumum með aðstoð minni og ég held öllum með atkv. mínu. Það er að vísu eitt sem ég held að við eigum eftir að afgreiða hér. Ég er að velta vöngum yfir þessu með skattfrelsi Fjárfestingarfélagsins, en ég er hálfhræddur um að það fólk, sem hann vildi í Morgunblaðinu kalla dýr merkurinnar, þ. e. a. s. verðbólgubraskarar, standi að félaginu. Ef svo er ekki kem ég til með að standa að því eins og flestu öðru sem frá hv. þm. kemur, en ég lofa engu strax. Ég veit að hann hugsar stundum áður en hann framkvæmir og þess vegna kemur ýmislegt gott frá honum: Hann er hreinskiptinn maður og alltaf að batna og ég verð að gera þá játningu, að raunar er hann uppáhaldsstjórnmálamaður minn og þó ekki í hinni ensku merkingu um „statesman“. En þetta er sem sagt hreinskiptinn og geðríkur heillakarl, fyrir mig a. m. k., — ekki sem bónda, heldur sem þm., því ef þessi till. nær fram að ganga, sem ég á von á, reynist hann ekki heillakarl bændum.

Ég vil gera langa sögu stutta. Ég vísa til þskj. 497. Það er ítarlegt nál. frá minni hl. allshn. og ég vona að menn treysti sér til þess að lesa það. Þó að nokkuð af því væru frekar leiðinlegar umsagnir reyndi ég að setja þetta upp á þann hátt að menn entust til að lesa það, og ég treysti því að menn sjái sóma sinn í að lesa það.

Ég verð aðeins að fara með örstuttan kafla, með leyfi forseta, úr niðurlagi nál. Ég tel þar upp kafla úr öllum umsögnum sem um málið höfðu borist og þær voru allar neikvæðar. Hver einasta umsögn sem um málið barst var neikvæð!

Hv. þm. Eyjólfur Konráð hefur, eins og menn vita, fengið hugljómun um að greiða bændum beint hluta niðurgreiðslna og útflutningsbóta eins og niðurgreiðslur eða útflutningsbætur væru eign bænda. Stéttarsambandið hefur látið athuga þessa hugmynd hv. þm. Fjármagnið nýtist verr en með öðrum hætti. Hins vegar opnast þarna mjög kröftug leið til þess að draga úr framleiðslu og stærri bændur fengju aðeins 70–80% grundvallarverðs fyrir afurðir sínar og yrðu þá væntanlega gjaldþrota. Þetta er nefnilega, eins og ég hef margtekið fram, harðvítugasta kommúnistatillaga sem hingað til hefur komið fram um landbúnaðarmál á Íslandi.

Ég vil lesa hér, eins og ég sagði áðan, úr niðurlagi nál. og hef þá lesturinn, með leyfi forseta:

„Þótt vandlega sé leitað í samþykktum bændafunda undanfarinna þriggja ára finnast þess ekki nokkur dæmi að bændur hafi tekið undir hugmynd till. Hugmyndin er ekki frá bændum sjálfum komin og þeir óska ekki eftir þeirri tilhögun sem hún gerir ráð fyrir. Hugmynd Eyjólfs leiðir til aukins kostnaðar og framleiðslukostnaður vex ef hún verður að veruleika. Nær væri að nýta betur það fjármagn, sem fer til þessara mála. Árið 1978 voru t. d. stimpilgjöld til ríkisins af afurðalánum 170 millj., og hver einn þáttur sem sparast skilar sér í lægra afurðaverði. Því verður ekki trúað að flm. og þeir, sem gerast þeirra ábekingar, vilji vinna bændum tjón, heldur vaki fyrir þeim að klekkja á samtökum þeirra (sjá grg. till. og framsöguræður), en með því að reiða til höggs að sölusamtökum bænda lendir höggið að sjálfsögðu beint á bændunum og síðan á neytendum í landinu.“

Ég vildi sefa hv. flm. og ábekinga hans og gleðja þá og ég lagði til í n. að smávægilegar breytingar yrðu gerðar á till., bæði á fyrirsögn og tillgr. Ég hélt satt að segja að um þessa till. hefði orðið samkomulag milli okkar hv. þm. Eyjólfs K. Jónssonar, við slökuðum þar báðir nokkuð til af ítrustu kröfum, og þarna væri komið orðalag sem við gætum þokkalega við unað. En þá varð hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson fyrir einhverjum geðhrifum, e. t. v. vegna hv. þm. Stefáns Valgeirssonar eða hæstv. landbrh., ég ber ekkert ábyrgð á þeim geðhrifum, og þá fékk hann hv. þm. Ellert B. Schram til þess að búa til nál. sem dags. var 15. mars. Fundurinn, þegar málið var afgreitt í allshn., var 20. mars! Svona á ekki að vinna á Alþ. Það var gamansaga til um oddvita norður í landi, sem sagt var að hefði samið fundargerðir hreppsnefndarfundanna áður en fundir voru haldnir og þótti ekki til fyrirmyndar.

Ég held að ef hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson hefði ekki narrað hv. þm. Ellert B. Schram til að hlaupa af stað með þetta nál. hefði hann ekki lent í þessari „krísu“, sem fékk hann til þess að bregðast þarna trausti mínu, og við hefðum, eins og hér um bil alltaf fyrr og síðar, getað rétt hér upp bróðurhendur okkar. En hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson varð sér úti um þetta sjálfur að hlusta á mig hér í ræðustólnum, og þess vegna hef ég orðið að neyðast til þess að koma til skila nauðsynlegum staðreyndum í málinu áður en menn samþykkja þessa till. af vinarhug við hv. þm. Eyjólf K. Jónsson og áhrifagirni og oftrausti á vitsmuni hans og góðsemi í garð bænda. En það er því miður eitt líkt með hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni og Njáli heitnum á Bergþórshvoli, að þeir eru misvitrir. Tillgr. sem við vorum einu sinni sammála um — eða ég taldi að við værum einu sinni sammála um — hljóðar svo, og það er sú till. sem ég legg til að verði samþ., hún er svona:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að settar verði reglur um að rekstrar- og afurðalánum verði breytt þannig, að bændur geti fengið laun sín greidd og óhjákvæmilegan rekstrarkostnað svipað og aðrir aðilar fá nú.

Jafnframt láti ríkisstj. fara fram athugun á því, hvernig heppilegast sé að koma við breytingum á greiðslum útflutningsbóta og niðurgreiðslna, þannig að þær nýtist betur.“

Og fyrirsögn till. verði:

Till. til þál. um greiðslur til bænda.“

Þegar menn athuga þetta mál í rólegheitum hygg ég að þeir komist að þeirri niðurstöðu, ef þeir á annað borð fást til þess að hugsa, ef þeir á annað borð fást til þess að kynna sér umsagnir, ef þeir á annað borð fást til þess að íhuga þetta mál, að það sé skynsamlegra orðalag á till. minni en þeirri till. sem meiri hl. n. lagði til að yrði samþ., og þegar málið kemur hér til atkv. innan skamms muni þeir treysta sér til að greiða till. minni atkv. sitt, en. ekki till. hv. þm. Eyjólfs K. Jónssonar. Hún á það alls ekki skilið því að það er ekki hægt að framkvæma hana.