09.11.1978
Sameinað þing: 17. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (437)

28. mál, niðurfelling gjalda af efni til hitaveitna

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Till. sú til þál., sem ég mæli hér fyrir, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum, svo að niður falli aðflutningsgjöld, vörugjald og söluskattur af efni og búnaði til stofnframkvæmda hitaveitna (þ.e. framkvæmda að dreifikerfi).“

Þessi þáltill. hefur verið tvívegis flutt áður, en ekki fengist fullnaðarafgreiðsla á henni. Ástæðan fyrir því, að ég flutti hana í fyrsta sinn, var m.a. sú, að þá voru í gangi allmargar athuganir á hugsanlegum hitaveitum, svo sem á Akureyri, frá Svartsengi, á Suðureyri við Súgandafjörð, Siglufirði og ein sveitahitaveita, þ.e.a.s. norður í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu. Síðan hafa þau gleðilegu tíðindi gerst, að margt af þessu hefur komist í framkvæmd. Má í því tilefni minna á gamla orðskviðinn: „fátt er svo með öllu illt að ekki fylgi nokkuð gott“, því að segja má að það hafi orðið afleiðing orkukreppunnar, sem svo var nefnd, að við Íslendingar höfum tekið allhraustlega á því máli að taka okkar innlendu orku — jarðvarmann — til mjög aukinna nota.

Það hefur verið venja, eftir því sem ég veit best, að þegar framkvæmdir við raforkuver eru í gangi, sem venjulega eru við ekki nema eitt eða í mesta máta tvö í einu, þá hefur verið farin svokölluð heimildarleið á fjárlögum, að ýmsar álögur ríkisins á búnað til þeirra hafa verið felldar niður, þ.e.a.s. það hefur verið heimild á fjárlögum til að fella álögur niður. Hins vegar er svo háttað með jarðvarmaveitur, að þær geta verið margar á framkvæmdastigi á hverju ári og heimildir á fjárlögum því þyngri í vöfum. Þó er það sérstaklega ástæðan fyrir því, að ég hef flutt þessa till., að ýmsar þær jarðvarmaveitur, sem eru í athugun, eru þannig staddar, að kannske eru þær ekki hagkvæmar ef þessi gjöld eru lögð á, en á takmörkum þess að vera hagkvæmar eða kannske aðeins hagkvæmar séu þau felld niður. Þess vegna held ég að það sé mikilsvert fyrir þá, sem eru með þessar athuganir í gangi, að vita í eitt skipti fyrir öll að það yrði að reglu hjá íslenska ríkinu að gefa þessi gjöld eftir. Það er aðaltilgangurinn með þessum flutningi að svo verði gert.

Mig langar, þó ég viti að öllum hv. þingheimi eru þessi mál jafnljós og mér, til að minna á það hér, að nú er í athugun t.d. hitaveita til Þorlákshafnar, til Borgarness, til Akraness og enn, svo ég haldi mig við Norðurlandið, er nú verið að koma hitaveitu til Akureyrar, sem er á margan hátt erfið í framkvæmd vegna þess að borkostnaður eftir heita vatninu hefur reynst erfiðari en við var búist á tímabili. Í sambandi við það hafa verið gerðir samningar við heilt sveitarfélag að leggja þangað hitaveitu í leiðinni, þ.e. Öngulstaðahrepp, og hlýtur sú stofnlögn að verða allmikil og kostnaðarsöm í framkvæmd. Hef ég það m.a. í huga í sambandi við þennan tillöguflutning. En svo ég komi aftur að t.d. Borgarnesi og Akranesi, þá vitum við öll að þar er einmitt verið að athuga með mikla og merkilega framkvæmd, þ.e.a.s. að koma á hitaveitu fyrir báða þessa staði í einu með lögn frá t.d. Deildartunguhver eða borholum í bæjarsveit. Einmitt afgreiðsla þessa máls gæti valdið því, að hagkvæm niðurstaða yrði um athugun á þessu máli og vafalaust Þorlákshöfn líka.

Ég ætla ekki að fjölyrða lengur um þetta mál, þykist vita að öllum sé málið mjög vel ljóst og vænti þess að nú verði tekið þannig á málinu að það fáist samþykkt. Ég óska eftir að málinu verði að lokinni umr. vísað til allshn.