09.11.1978
Sameinað þing: 17. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

28. mál, niðurfelling gjalda af efni til hitaveitna

Jósef H. Þorgeirsson:

Herra forseti. Mig langar til þess að styðja þetta mál með örfáum orðum.

Það er að vísu svo, að í lögum eru heimildir fyrir því, að niður séu felld þessi gjöld af hitaveituframkvæmdum, og þær heimildir er að finna í 56. tölulið 3. gr. laga nr. 120 frá 1976, um tollskrá o.fl. Þær heimildir hafa verið notaðar á undanförnum árum, en þó ekki alltaf með sama hætti. Þannig var ákveðið að lána þessi gjöld af framkvæmdum við hitaveitu frá Svartsengi, en hins vegar ákvað fjmrn., þegar leitað var eftirgjafar á þessum gjöldum vegna hitaveitu frá Deildartunguhver bæði til Akraness, Hvanneyrar og Borgarness, að fella þessi gjöld niður að undanteknum 15 km, en eins og kunnugt er er það sérstakt við þessa hitaveitu, að aðveituæðin er óvenjulega löng, eða rúmlega 60 km á milli Deildartunguhvers og Akraness. Rn. féllst á þau rök, að þessi sérstaða framkvæmdarinnar leiddi til þess, að eðlilegt og sanngjarnt væri að fella gjöldin niður að öllu öðru leyti en því, að þau verða greidd af sem svarar 15 km aðveituæð, og gjöldin af þessum 15 km verða lánuð til nokkuð langs tíma með hagkvæmum kjörum.

Eins og fram kemur í grg. þessarar till., byggist þessi framkvæmd á því, að heimild er fyrir því í áðurgreindum lögum að fella þessi gjöld niður. Mér finnst og mörgum öðrum — og tek undir með flm. að því leyti — að það sé eðlilegt og sjálfsagt að þessi gjöld séu í framtíðinni undantekningarlaust felld niður. Ég styð þetta sjónarmið þeim rökum fyrst og fremst, að það er ákaflega misjafnt, eftir því hvar menn búa í þessu landi, hver upphitunarkostnaður húsnæðis er. Það er eðlilegt og sjálfsagt að ríkisvaldið beiti sér fyrir því að jafna þennan aðstöðumun. Það verður best gert með því að fella niður umrædd gjöld af framkvæmdum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að lengi hefur tíðkast að fella sambærileg gjöld niður af raforkuvirkjunum og einnig af megindreifilínum fyrir raforku.

Það er ákaflega misjafnt hverjar eru horfurnar á rekstri hitaveitna sem fyrirhugaðar eru og eru í byggingu, en eitt er öldungis víst, að í fjölmörgum tilfellum ræður það úrslitum um rekstrarmöguleika hitaveitna hvort þessi gjöld eru felld niður eða ekki. Þessi gjöld eru mjög verulegur hluti af kostnaðinum við lagningu hitaveitna, og skiptir meginmáli hvort þau fást felld niður eða ekki. Og enn má gera ráð fyrir því, að á næstu árum verði teknir til virkjunarstaðir sem eru mun óhagkvæmari en fyrri virkjunarstaðir, og þar af leiðandi er enn þá brýnna að taka um það fullnaðarákvörðun, að þessi gjöld í ríkissjóð verði eftirleiðis ekki innheimt af slíkum framkvæmdum sem hér um ræðir.

Ég ítreka, að mér finnst að það eigi að samþ. þessa till. og að framkvæmd þessara mála eigi að vera með þeim hætti sem till. gerir ráð fyrir. Ég tel að hér sé fyrst og fremst um að ræða sanngirnismál þeirra manna sem búa við hærri upphitunarkostnað húsnæðis en annars staðar er í landinu.