19.05.1979
Neðri deild: 93. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5069 í B-deild Alþingistíðinda. (4418)

263. mál, eftirlaun aldraðra

Einar Ágústsson:

Ég sé sérstaka ástæðu, herra forseti, til að þakka það að ég skuli fá að taka hér til máls. Mér finnst það alveg sérstök greiðasemi að formaður í þeirri n., sem þetta mál á að fá, fái að segja hér örfá orð um málið sjálft. Og ég skal þá virða það að tala stutt, einkum þar sem ég veit að orðið verður tekið af mér ef ég fer að beita því sem hér hefur verið kallað málþóf og ég hef verið sérstaklega varaður við, — af hvaða ástæðu það er veit ég ekki. (Gripið fram í.) Ég hef ekki tamið mér málþóf hér í vetur og ætla mér ekki heldur að gera það hér og ætlaði ekki, en kannske væri það þó aldrei meira freistandi en einmitt nú.

En það, sem ég ætlaði að finna að í sambandi við þetta mál, er hversu seint það er lagt fram. Málið er lagt fram á allra síðustu dögum þingsins. Hér er um stórmál að ræða, 1300 millj. kr. útgjöld sem á að bæta við nú í þinglokin, og ágreiningsmál. Eins og komið hefur fram við þessa umr. eru forsvarsmenn Atvinnuleysistryggingasjóðs mjög uggandi um sinn hag og þeir eru algerlega mótfallnir þeirri fjáröflunarleið sem lögð er til í þessu frv., og að ætla n. að taka við máli, sem þannig er í pottinn búið, þegar tveir eða þrír dagar eru eftir af þinghaldi, það tel ég ekki viðeigandi vinnubrögð. Ég hefði haft um þetta stærri orð og fleiri ef hæstv. félmrh. hefði séð sér fært að sitja þann fund þar sem mál hans er til meðferðar, en það hefur hann ekki gert.

Ég vil sem sagt, herra forseti, gagnrýna þessi vinnubrögð alveg sérstaklega. Og sem formaður þeirrar n., sem lagt er til að þetta mál fari til, mun ég ekki ábyrgjast að hægt verði að afgreiða málið á þeim tíma sem til umráða er.