19.05.1979
Neðri deild: 93. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5069 í B-deild Alþingistíðinda. (4421)

306. mál, eignarnám hluta jarðarinnar Deildartungu ásamt jarðhitaréttindum

Frsm. meiri hl. (Jósef H. Þorgeirsson):

Herra forseti. Iðnn. þessarar d. hefur haft þetta frv. til athugunar og hún hefur fengið til fundar við sig umboðsmenn eigenda Deildartunguhvers, þá Björn Fr. Björnsson lögfræðing og Þorstein Helgason dósent. Enn fremur hefur komið á fund n. starfshópur sem athugað hefur á vegum iðnrn. lagningu hitaveitu til Akraness og Borgarness, en í þeim starfshópi eru Gísli Einarsson deildarstjóri, Pétur Stefánsson verkfræðingur og Kristján Sæmundsson jarðfræðingur. Þá hefur komið á fund n. Edgar Guðmundsson verkfræðingur, en hann er ráðgjafi stjórnar hitaveitunnar, og einnig Gaukur Jörundsson, prófessor, og svo síðast Jón Þórisson oddviti í Reykholtsdalshreppi.

Ýmis gögn hafa legið fyrir n. og er þá fyrst að geta allviðamikillar grg. sem starfshópur á vegum iðnrn. samdi, nokkrar grg. frá umboðsmönnum eigenda Deildartunguhvers, undirskriftir frá íbúum í Reykholtsdalshreppi og samþykkt sem hreppsnefnd Reykholtsdalshrepps gerði á fundi sínum hinn 17. maí. Ég tel ástæðu til að kynna í þessari d. þessa samþykkt hreppsnefndar Reykholtsdalshrepps, en hún er svo hljóðandi:

„Hreppsnefnd Reykholtsdalshrepps hefur aldrei verið andvíg HAB eða viljað koma í veg fyrir eðlilega vatnsöflun til þeirra framkvæmda. Því harmar hún það, að nú skuli hafa slitnað upp úr samningaviðræðum milli eiganda Deildartunguhvers og HAB, og er það von hennar að enn leynist möguleikar sem gætu orðið til að samningar takist.

Það var álit hreppsnefndarinnar, að ef samningar ekki tækjust yrði hverinn tekinn leigunámi svo ekki þyrfti að koma til eignarnáms. Nú hefur hins vegar komið fram frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að taka Deildartunguhver eignarnámi og afhenda hann síðan HAB. Það hefur alltaf verið skoðun hreppsnefndar Reykholtsdalshrepps, að ef til eignarnáms kæmi yrði ríkissjóður eigandi hversins og seldi síðan hitaveituréttindin. Hreppsnefnd Reykholtsdalshrepps mótmælir því alfarið, að slík verðmæti sem Deildartunguhver er séu afhent fyrirtæki annarra sveitarfélaga án þess að hugsað sé um framtíðarhagsmuni íbúa hreppsins, því að áliti hreppsnefndarinnar eiga þeir forgangsnýtingarrétt á því heita vatni sem ábúendur jarða ekki nýta á hverjum tíma. Ætti ríkissjóður ekki að eiga Deildartunguhver, eftir að eignarnám hefur farið fram, telur hreppsnefndin að skilyrðislaust eigi að afhenda hann Reykholtsdalshreppi, enda lýsir hreppsnefndin sig reiðubúna til samningaviðræðna við HAB um sölu á heitu vatni.“

Það undirskriftaskjal, sem barst n. úr Reykholtsdalshreppi, gekk í veigamiklum atriðum í svipaða átt. Og eins og ég hef lesið er hér fyrst og fremst um að ræða mótmæli við því, að jarðhitaréttindin séu afhent fyrirtæki annarra sveitarfélaga til eignar. Það er ekki um að ræða andstöðu við það að heitt vatn úr Deildartunguhver sé notað til hitaveitu Akraness og Borgarness, heldur er fyrst og fremst um að ræða andstöðu við að afhenda eignarréttinn yfir þessum jarðhitaréttindum. Og brtt., sem meiri hl. iðnn. flytur á þskj. 814, miðar að því að taka af öll tvímæli í þessu efni, en sú brtt. gerir ráð fyrir að 3. gr. frv. orðist sem hér segir:

„Þegar eignarnemi hefur tekið við hinu eignarnumda er ríkissjóði heimilt að afhenda HAB hin eignarnumdu verðmæti til afnota eftir því sem almenningsþörf krefur og um semst, enda greiði hún ríkissjóði eignarnámsbætur og allan kostnað hans af aðgerum þessum.“

Eins og ég áður sagði eru í þessari brtt. tekin af öll tvímæli, og stjórn HAB er samþykk þessari brtt., enda er þessi brtt. í fullu samræmi við samþykkt er stjórn Hitaveitunnar gerði á fundi sínum hinn 23. apríl s. l. um samvinnu við sveitarfélög á starfssvæði veitunnar.

Í nál. á þskj. 817, frá minni hl. iðnn., er því þráfaldlega haldið fram, að engar raunverulegar samningaviðræður hafi farið fram um jarðhitaréttinn á milli Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og eiganda jarðhitans að Deildartungu. Hér er um mikinn misskilning að ræða, enda kemur rækilega fram í gögnum málsins, m. a. á þskj. 817, að allt frá árinu 1974 hafa ítrekaðar tilraunir verið gerðar til að ná viðunandi samkomulagi um leigu eða kaup, en ætíð án árangurs. Nú er liðið á árið 1979, og till. á þskj. 817 um að afgreiða málið með rökstuddri dagskrá setur hagsmuni fjölmennra byggðarlaga í beinan voða. Ef rökstudda dagskráin yrði samþ. mundi það tefja framgang hitaveitunnar um ófyrirsjáanlegan tíma.

Innan n. var nokkuð rætt um þann möguleika, að í stað eignarnáms verði frv. breytt í það horf að leigunám ætti sér stað. Löggjöf um leigunám er mjög fátíð og öll þau fordæmi, sem n. eru kunn um leigunám í löggjöf hér á landi, gera ráð fyrir leigunámi um mjög takmarkaðan tíma, jafnvel mjög skamman tíma, jafnvel aðeins einn sólarhring, eins og dæmi eru til um leigunám á Hótel Borg. Engin fordæmi eru fyrir því í lögum að leigunám vari mjög langan tíma eða ótakmarkaðan tíma. N. fannst því ekki ráðlegt að breyta frv. í þá átt. Hins vegar hefur komið fram og verið útbýtt í dag í d. till. sem gerir ráð fyrir leigunámi til 15 ára. Satt að segja furðar mig á slíkri till. Það er engu líkara en að flm. vilji viðhalda stöðugum ágreiningi í Vesturlandskjördæmi um jarðhitaréttindin í Deildartunguhver.

Það var mikið rætt um það innan iðnn., að þrátt fyrir það að þetta frv. yrði að lögum bæri nauðsyn til að reyna enn frekar að ná frjálsum samningum um afnotaréttinn að jarðhitaréttindunum í Deildartungu. Ég tel sjálfsagt að sá háttur verði á hafður, og mér er ánægja að skýra frá því, að stjórn Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar er mjög samþykk þessari málsmeðferð. Vill stjórnin í hvívetna hafa sem best samstarf við alla aðila, bæði eiganda og sveitarfélög.