19.05.1979
Neðri deild: 93. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5078 í B-deild Alþingistíðinda. (4424)

306. mál, eignarnám hluta jarðarinnar Deildartungu ásamt jarðhitaréttindum

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Þó að fyrir um það bil klukkustund hafi verið orðið heilagt, eins og hæstv. forseti tók réttilega fram, þá er kannske orðið tvíheilagt nú. Samt ætla ég að verja nokkrum tíma til að ræða þetta mikilsverða, síðbúna og einkennilega mál.

Ég held að ég hafi verið eini maðurinn sem tók til máls við 1. umr. til að benda á að hér væri um mjög óheppilega leið og aðferð að tefla. Ég get vísað til þess, sem ég þá sagði, til viðbótar því sem hv. síðasti ræðumaður, 11. þm. Reykv., rakti í greinilegu máli, hvaða grundvallarmunur er á eignarnámi og leigunámi og hversu stórkostlegri réttindasvipting það er að beita eignarnámi en þó leigunámi.

Ég vil í upphafi taka það fram, að ég er algjörlega sammála því sem hv. 1. þm. Norðurl. e, sagði áðan, að það er sjálfsagt að nýta þá orku sem til er og það er miklu skynsamlegra en að gera tilraun til að nýta þá orku sem ekki er til, sem þó hafa verið gerðar tilraunir til á undanförnum árum, eins og allir hv. alþm. þekkja.

Ég vil taka það fram einnig, að ég er samþykkur þeirri rökstuddu dagskrá sem hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur lagt hér fram, þ. e. a. s. að fresta þessu máli og reyna til þrautar samningaleiðina, eins og ég held að þar standi, með því að upplýst er að sú leið hefur ekki, a. m. k. að mati eigenda hversins, verið reynd til þrautar, og mér sýnast þau skjöl, sem birt hafa verið um samningaumleitanirnar, bera þess merki, að ekki hafi verið staðið að þeim eins og skyldi. Það er alveg rétt, sem kom fram áðan, að upphaflega bar ekki mikið á milli um fyrstu árin, og því finnst mér að það hefði verið hægt að ná þar endum saman. Því miður hefur það ekki tekist enn.

Ég vil leggja á það alveg sérstaka áherslu, að það er í allra þágu að þetta mál leysist með friði og samkomulagi. Aðeins til að undirstrika það, hversu geysileg verðmæti hér er um að tefla, þarf ekki annað en að vitna til þess sem segir í blöðum í dag, að sú orka eða afl hversins, sem um er að tefla, Deildartunguhvers, er jafngildi 59 þús. tonna af gasolíu árlega miðað við húshitun og 55% nýtingu.

Ég hef ásamt hv. þm. Albert Guðmundssyni flutt á þskj. 827 brtt. sem er svipuð þeirri brtt. sem var mælt fyrir áðan, en kveður þó í einu atriði á um skipan mála með nokkuð öðrum hætti. Á ég þar við b-lið 1. tölul. brtt. sem hljóðar svo, með leyfi forseta: „Sjálfrennsli vatns úr Deildartunguhver ásamt landspildu úr landi Deildartungu, þinglesinni eign Sigurbjargar Björnsdóttur.“ Það er sem sagt lögð á það áhersla að hér sé einungis um það vatn að tefla sem þegar rennur fram úr hvernum, en ekki réttindi til áframhaldandi vinnslu vatns úr honum, þ. e. a. s. borana, og þess aukna vatns og afls sem kann að fást með þeim hætti. Þetta þarf að liggja alveg ljóst fyrir að mínu mati. Þess vegna lagði ég þessa brtt. fram. En ég tek það fram, að ef rökstudda dagskráin verður felld og menn sjá ekki ástæðu til þess að reyna frekar samningaleiðina og ef till. okkar hv. þm. Alberts Guðmundssonar verður einnig felld, þá mun ég að sjálfsögðu til þrautavara styðja till. hv. þm. Gunnars Thoroddsens, því að í meginatriði og grundvallaratriði gengur hún í þá átt sem ég hef verið að reyna að tala fyrir bæði við 1. og nú við 2. umr. þessa máls.

Ég endurtek það, að það er mjög nauðsynlegt að það upplýsist hér við umr., og ég tel að það sé nauðsynlegt að kveða á um það í lagagr., að hér sé ekki átt við önnur réttindi en þau sem ná til hins sjálfrennandi vatns. Menn vita ekki neitt hvað þarna kann að vera um að tefla. Þarna geta verið ómæld auðæfi enn, sem þá á að taka eignarnámi og meta það eignarnám miðað aðeins við það sjálfrennandi vatn sem er nú fyrir hendi.

Ég vænti þess, að hæstv. iðnrh. upplýsi okkur um þetta og að hann geti fallist á þá breytingu sem hér er um að ræða, því að hún skiptir verulegu máli.

Þá er enn fremur á það að líta, að ábúendur jarðarinnar Deildartungu (Deildartungu 1 og II) eru þrír og eigendurnir fjórir. Ég vænti þess, að hæstv. iðnrh. og hæstv. ríkisstj. geri ráð fyrir því í þessu frv. sínu, að þessir aðilar hafi a. m. k. nokkurn rétt til notkunar þess vatns sem þarna er fyrir hendi. Enn fremur er þarna gróðurhús, Víðigerði heitir það, og sá maður hefur þegar samning um afnot af 21/2 sekúndulítra.

Ég hef ekki komið auga á það í þessu frv., hversu mikið vatn eigi að taka'af hvernum. Mér skilst þó að það séu 170 sekúndulítrar sem Hitaveitan ætlar sér að fá til afnota. Er þá tryggt að þeir 10 lítrar, sem eftir eru, nægi til þeirra nota sem ég var áðan að lýsa? Þetta þarf að upplýsa og það áður en hv. Alþ. getur með nokkru móti fallist á þessa lagasetningu.

Hv. frsm. meiri hl. iðnn., 7. landsk. þm., Jósef H. Þorgeirsson, mælti fyrir álitinu að sjálfsögðu og í hans máli kom það fram m. a., að hann teldi leigunám til 15 ára, eins og í till. okkar hv. 1. þm. Reykv. er gert ráð fyrir, algjörlega frá!eitt, taldi að það mundi verða til þess að viðhalda ágreiningi í Borgarfjarðarhéraði í 15 ár. Engu að siður segir hann í nál.: „Frv. gerir aðeins ráð fyrir heimild til eignarnáms og n. mætir eindregið með því við alla aðila þessa máls að enn verði gerð tilraun til samninga þrátt fyrir að frv. verði að lögum.“ Þá liggur nærri að varpa fram þeirri spurningu, hvort hæstv. iðnrh. ætli sér ekki að nota þessa heimild. Á hún aðeins að vera fyrir hendi? Á hún kannske að vera tæki sem nota á í samningum við eigendur jarðarinnar og segja: Nú skulum við semja, en ég ætla að láta ykkur vita að ég er hérna með eignarnámslög í vasanum? Það er dálagleg samningsaðstaða sem eigendur jarðarinnar eru komnir í þegar þar er komið málum. Ég held að þetta fái engan veginn staðist, og ef hv. frsm. iðnn. heldur að hann sé að koma á friði í Borgarfjarðarhéraði með því að mæla með samþykkt eignarnáms á Deildartunguhver, þá álít ég að honum skjótist heldur hrapallega. Allar þær umsagnir, sem borist hafa úr þeim hluta héraðsins sem þarna er verið að grípa inn í og taka eign af réttum eigendum, sem hafa átt og þeirra ættmenn og setið jörðina á þriðju öld, eru þess eðlis, að allir, sem látið hafa í sér heyra, og það eru flestir íbúar þessa byggðarlags, hafa lýst sig algerlega andvíga þessu máli.

Það verður auðvitað að finna á þessu lausn, og ég endurtek það, að það er þó illþolanlegra fyrir þetta fólk, sem ekki er sama um eignarrétt sinn, að láta af hendi með leigunámi sjálfrennandi vatn, sem að litlum notum kemur í dag, til byggðarlaga sem því er áreiðanlega hlýtt til og hefur mikil samskipti við. Ég vil enn fremur benda á það, að ef menn eru í alvöru að hugsa um að ná þarna samkomulagi, þá er það þó a. m. k. vænlegra til samkomulags á 15 ára tímabilinu, að fólkið í Deildartungu sé enn eigendur hversins, en hann sé ekki kominn í hendur einhverra annarra aðila sem þá eru orðnir viðsemjendur. Samningar við Deildartungufólk eru þar með afskrifaðir. (Gripið fram í: Það er nú nánast í annarra höndum.) Samningarnir um Deildartunguhver? Í hvers höndum þeir eru veit ég ekki beint. (Gripið fram í.) Honum hlýtur að vera heitt á höndunum. — Ég held að það sé alveg rétt, sem ég fer hér með, að ef eignarnámi er beitt eru Deildartungumenn ekki lengur neinir aðilar málsins, engir viðsemjendur. Þá eru þeir bara kvaddir: Verið þið sælir, herrar mínir. — Þetta er sú leið sem ég mæli gegn, bæði í þessu máli og öðrum.

Það er sjálfsagt að nýta gæði landsins, og það er jafnsjálfsagt að virða eignarréttinn, og allt tal um það, að leigunám til langs tíma sé fjarstæða, lögleysa og standist ekki, hefur verið hrakið hér af fyrrv. prófessor í lögum, þeim sem kenndi mér og ég man sumt enn, þ. á m. þetta. Þetta eru bara mótbárur sem ekki fá staðist. Það er gripið til þeirra í rökþroti af því að haldbær rök eru ekki fyrir hendi.

Herra forseti. Það er langt liðið á kvöld og hæstv. forseti hefur sýnt mér einstaka þolinmæði, sem ég virði við hann eins og jafnan, og ég ætla þess vegna ekki að níðast á góðmennsku hans öllu lengur, heldur þakka honum fyrir að fá að koma þessum athugasemdum á framfæri nú áður en umr. er frestað. Hæstv. iðnrh. benti mér á að kynna mér gögn þessa máls og málsástæður. Ég skal gjarnan gera það betur ef á þarf að halda. En ég vil um leið beina sams konar tilmælum til hans, að hann hugsi ráð sitt betur en hann hefur sjáanlega gert til þessa.