19.05.1979
Sameinað þing: 99. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5085 í B-deild Alþingistíðinda. (4447)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Lögum skv. hefur Framkvæmdastofnun ríkisins gefið út ársskýrslu sína fyrir árið 1978 og hefur henni þegar verið dreift til þm. Ég vísa til þessarar prentuðu skýrslu, en drep aðeins á örfá atriði í starfi stofnunarinnar.

Eins og skýrslan ber með sér voru störf stofnunarinnar með svipuðu sniði á árinu 1978 og áður. Framkvæmdasjóður Íslands og Byggðasjóður eru starfræktir innan lánadeildar Framkvæmdastofnunarinnar. Á árinu 1978 veitti Framkvæmdasjóður ný lán að f] árhæð alls 7645.6 millj. kr., og voru Fiskveiðasjóður Íslands, Stofnlánadeild landbúnaðarins og ríkissjóður stærstu lántakendur. Sjóðurinn tók tvö erlend lán á árinu, en að öðru leyti var um innlenda lánsfjáröflun að ræða, þ. e. hjá viðskiptabönkum, þar sem fjárhæðin var miðuð við 5% af innlánaaukningu bankanna og við sölu skuldabréfa til lífeyrissjóða. Hreinar tekjur Framkvæmdasjóðs og Mótvirðissjóðs árið 1978 námu 696.3 millj. kr., samanborið við 430 millj. kr. árið áður. Framlag ríkissjóðs til Byggðasjóðs á árinu 1978 nam 2004 millj. kr. Samþ. voru ný lán og styrkir úr sjóðnum að fjárhæð 2692 millj. kr. Hreinar tekjur sjóðsins voru 817.9 millj. kr., og í árslok 1978 var höfuðstóll hans 8478.2 millj. kr.

Í skýrslu Framkvæmdastofnunarinnar er sundurliðað yfirlit yfir samþykkt lán og styrki á árinu og rek ég það ekki.

Í þeim hluta ársskýrslunnar, sem fjallar um áætlanadeild, kemur fram að 5 árunum 1972–1978 hafi heildarframkvæmdir í hraðfrystihúsum numið um 30 milljörðum króna á verðlagi ársins 1978. Lánveitingar Fiskveiðasjóðs til frystihúsa á sömu árum og á sama verðlagi námu um 8.8 milljörðum króna og lánveitingar Byggðasjóðs um 3.4 milljörðum króna, samtals lánuðu þessir tveir sjóðir um 40% af heildarframkvæmdafénu.

Á vegum áætlanadeildar var á árinu 1978 unnið að skýrslu um loðnuverksmiðjur og var henni lokið nú um áramótin og skýrslan gefin út í ársbyrjun 1979. Þetta starf var unnið í samstarfi við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Þá hefur deildin unnið að fiskiskipaáætlun II, en sú fyrsta var gefin út árið 1977. Tilgangur verkefnisins er að fá betri grundvöll undir ákvarðanir um stefnumörkun fyrir fjárfestingu í fiskiskipum. Þá hefur deildin unnið að athugunum á sviði samgöngumála, gatnagerðar í þéttbýli og orkumála.

Samkvæmt því, sem segir í þeim hluta skýrslunnar sem fjallar um byggðadeild, benda síðustu athuganir til þess, að á árunum 1979–1987 verði að skapa ný störf í landinu fyrir 13–18 þús. nýliða á vinnumarkaði, eftir því hvort atvinnuþátttaka kvenna stendur í stað eða fer enn vaxandi. Á árinu lauk byggðadeild síðustu úttektarskýrslunni fyrir heilan landshluta, síðari hluta Austurlandsáætlunar. Starfsemi deildarinnar beindist annars vegar að gerð heildaráætlunar fyrir smærri svæði og hins vegar að gerð séráætlana fyrir landshluta á smærri svæðum. Auk þess fór talsverður starfstími deildarinnar í að vinna að lausn rekstrarvandamála sem upp komu á ýmsum stöðum á landinu eða staðið höfðu frá fyrra ári. Í skýrslunni eru tíunduð afskipti deildarinnar af málefnum einstakra landshluta og gerð grein fyrir framvindu byggðamála og fer ég ekki nánar út í það. En niðurstaðan af þessum athugunum í skýrslunni er sú, að athyglin hljóti að beinast að iðnaði, og í skýrslunni segir að þetta sé ástæðan fyrir því að þessi ársskýrsla beri með sér vaxandi áherslu byggðadeildar á iðnþróun víðs vegar um landið og sú áhersla muni enn aukast með starfsáætlun ársins 1979, en byggðadeild gerir nú sérstakar iðnþróunaráætlanir.

Í ársskýrslunni er gerð grein fyrir norrænu samstarfi áætlanadeildar og byggðadeildar sem hefur vaxið. Þá er þar sérstakur kafli um Framkvæmdasjóð og starfsemi fjárfestingarlánasjóða, en úr Framkvæmdasjóði er veitt fé til helstu fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna, sem síðan lána til einstakra framkvæmda. 1978 lánaði sjóðurinn fjárfestingalánasjóðum 5150 millj. kr. Ásamt Seðlabankanum gerir Framkvæmdastofnun tillögur til ríkisstj. um lánakjör fjárfestingarlánasjóðanna. Hafa þær verið gerðar fyrir árið 1979 og er beðið enn eftir tillögum einstakra sjóða sumra hverra um lánakjör sín innan ramma meginreglnanna.

Eins og ég sagði, þá hef ég nefnt aðeins örfá atriði úr þessari prentuðu skýrslu Framkvæmdastofnunarinnar sem árið 1978 er ítarleg. Eins og hv. þm. er kunnugt tók ný stjórn við í stofnuninni um áramótin, og á liðnu ári fékk annar forstjóri stofnunarinnar leyfi frá störfum er hann tók sæti fjmrh. í ríkisstj., og hefur ekki enn sem komið er annar verið settur í hans stað:

Það má geta þess hér, að í inngangi ársskýrslunnar kemur fram, að 1975 hafi stjórn stofnunarinnar stofnað húsbyggingarsjóð við Framkvæmdasjóð, og segir, að í þeim sjóði séu nú 490 millj. kr., hafi verið keypt lóð við Rauðarárstíg og megi hefjast handa við byggingu hússins með skömmum fyrirvara, en unnið hefur verið við grunn væntanlegrar byggingar. Afstaða ríkisstj. til þessa máls á þessu stigi var sett fram í bréfi forsrn. til Framkvæmdastofnunarinnar 25. jan. s. l., en þar segir að ríkisstj. hafi ákveðið að beina því til stofnunarinnar að ekki verði hafist handa við fyrirhugaða húsbyggingu án þess að fyrir liggi skýlaus heimild ríkisstj. og framkvæmdir falli inn í þann framkvæmdaramma sem mótaður er með framkvæmda- og lánsfjáráætlun ríkisstj. hverju sinni.

Ég skal svo ekki þreyta hv. þm. á því að rekja efni þessarar skýrslu. Menn hafa hana í höndum, hún er ítarleg og ég ætla að menn hafi fengið þar þær upplýsingar sem þeim leikur hugur á í sambandi við störf Framkvæmdastofnunar. Ég læt þar með lokið máli mínu um þetta efni, en lögum er fullnægt með því að þessi skýrsla er lögð hér fram og henni útbýtt til þm.