19.05.1979
Sameinað þing: 99. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5088 í B-deild Alþingistíðinda. (4450)

Umræður utan dagskrár

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Þau harðindi, sem gengið hafa yfir þetta land nú á þessu vori og standa enn þótt liðinn sé mánuður af sumri, eru sem betur fer fátíð, en víða um land er nú vá fyrir dyrum. Það er brýn nauðsyn að kanna þann skaða, sem hlýst af þessum harðindum, og leita leiða til að ráða fram úr þeim vanda.

Ég tek undir óskir og uppástungur hv. 1. þm. Austurl. og undirtektir hæstv. forsrh. og vænti þess, að víðtækt samstarf megi takast milli þingflokkanna um ráð til að liðsinna þeim byggðarlögum og íbúum þeirra sem orðið hafa fyrir þungum búsifjum.