21.05.1979
Efri deild: 112. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5109 í B-deild Alþingistíðinda. (4468)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Vegna þeirra ásakana, sem ég tel að hafi komið fram í ræðu hv. þm. um að ráðherrar hafi látið gera upp bíla sína fyrir sölu, — og það er meira að segja að finna í blöðum í dag þar sem ég er m. a. nafngreindur, — þá tel ég rétt að upplýsa það, að áður en til viðhalds á bifreið minni kom eða rekstrar á vegum ríkisins gætti ég þess sérstaklega, að hún færi í skoðun og að viðgerð væri framkvæmd á henni fyrir minn reikning, þannig að það lægi alveg ljóst fyrir að hún væri í viðunandi ástandi þann tíma sem ríkið hefði með rekstur hennar að gera. Bifreið sú, sem ég átti, hefur alls ekki verið gerð upp fyrir söluna og var meira að segja seld með ryðgati og beyglum, þó að ég voni kaupandans vegna að hún hafi verið að öðru leyti í sæmilegu ástandi.

Hér var um átta ára gamlan bíl að ræða, að vísu af bestu gerð, Volvo-bifreið, sem endist mjög vel, eins og hv. þm. er væntanlega kunnugt.

Ég vildi einungis láta það koma skýrt fram, að ekkert af þessu tagi hefði verið gert varðandi þá bifreið, sem var í minni eigu, og að ég telji sjálfsagt að endurskoðunarmenn ríkisreikninganna fari ofan í þessi mál. Ég hef ekkert við það að athuga.