21.05.1979
Efri deild: 112. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5110 í B-deild Alþingistíðinda. (4469)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég tel sjálfsagt að veita þær upplýsingar sem ég get eftir ósk hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar hvað sjálfan mig varðar.

Þegar ég tók við starfi utanrrh. notaði ég fyrstu sjö mánuðina eða þar um bil þá bifreið sem ég átti fyrir, sem var níu ára gömul amerísk bifreið, orðin allslitin. Á þessu tímabili var allmikið viðhald á bifreiðinni, en ég hreinlega veit ekki kostnaðartöluna. Ég hefði auðvitað aflað mér hennar ef ég hefði vitað það með klukkutíma fyrirvara að þessi umræða yrði.

Síðan var ákveðið að rn. keypti bifreið sem hentaði til þess nota. Sú bifreið er merkt ríkinu í bak og fyrir og er notuð eingöngu í embættisþágu. Hina bifreiðina á ég enn þá og nota til einkanota á eigin kostnað. Og það er alrangt, sem stendur að ég hygg í báðum síðdegisblöðunum í dag, að ég hafi selt þá bifreið, hvað þá grætt á henni.

Ég veit ekki hvort það mundu þykja óeðlileg viðskipti, ef maður lánaði einhverjum öðrum manni bifreið í sjö mánuði að hann fengi einhverja smágreiðslu fyrir lánið, og ef slíkt þætti eðlilegt, — það heitir fyrningarfé, held ég, eða eitthvað slíkt í reglunum, — þá mundi það ganga á móti hugsanlegum viðhaldskostnaði. Þeir reikningar hafa ekki verið gerðir upp, enda er málið ekki í mínu rn. og forsrn. hefur ekki gert aths. við þetta.

Ég vænti þess, að á þessu máli hafi verið haldið á eðlilegan hátt, og ekkert hefur verið fjær mér en að reyna að gera þetta að neins konar féþúfu.