21.05.1979
Efri deild: 112. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5111 í B-deild Alþingistíðinda. (4471)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég vil aðeins víkja að þessu sem kallað er neitun á upplýsingum og minna á það, að þegar þessi mál komu fyrst til umr. í þessari hv. deild var málið fyrst og fremst fólgið í því, að ég var að leggja til með frv. að felldar yrðu niður heimildir úr lögum til að veita ráðherrum undanþágur frá aðflutningsgjöldum og söluskatti. Þá komu inn í umr. hér í deildinni þær reglur sem gilda um þetta samkv. ákvörðun ríkisstj. Ég hafði ekki þá á takteinum þær upplýsingar sem síðar hafa komið fram um þessi mál, vegna þess að ég vissi ekki hvernig mál einstakra ráðh. stóðu í þessu efni. Bifreiðamál ráðh. heyra undir forsrn. og ég hafði ekki upplýsingar á takteinum. Það, sem ég sagði þá, — var þetta: að það hefði verið venja fjmrn. í gegnum tíðina að gefa upplýsingar um reglur sem hafa verið settar, hvernig þær eru efnislega, en ekki upplýsingar um einstaklinga. Og það var þess vegna m. a., að ég hafði ekki þær upplýsingar á takteinum þá varðandi hvern og einn, að ég gat ekki gefið þær. Hins vegar hef ég núna tekið af öll tvímæli um það, hver er stefna fjmrn. á meðan ég er fjmrh. Hún er þessi: að gefa upplýsingar um allar reglur, öll málefni, en ekki einstaklinga, nema ég hef gert þá undantekningu að gefa upplýsingar um sjálfan mig, tel mig ráða því. Í öðru lagi komu embættismenn bæði fjmrn. og forsrn. fyrir fjh.- viðskn. Ed. og gáfu þar upplýsingar um þessi mál, greindu frá þeim reglum sem gilda, sögðu frá því, hvernig ráðherrar hefðu teyst þessi mál samkv. reglunum, það hefðu verið fimm, sem hefðu fengið ríkisbifreiðar til umráða sem hefðu verið keyptar handa embættunum, og fjórir sem legðu til bifreiðar sjálfir samkv. þeim reglum sem settar voru. Ég neita því eindregið, að það hafi verið um að ræða neitun um eðlilegar upplýsingar í þessu máli, — neita því eindregið.

Að lokum vil ég segja það, að auðvitað getur Alþingi sett lög um málefni eins og bifreiðamál ráðh., og það fer kannske best á því. Það hafa hins vegar ekki komið fram á Alþingi frv. um þessi efni. Að sjálfsögðu getur Alþingi gert það og ráðið þannig þessum málum alfarið, það er í þess valdi. Og ég vil aðeins skjóta því hér fram, að það væri kannske hreinlegast fyrir alla aðila í þessum efnum, að það yrði gert, til að koma í veg fyrir að menn væru að deila um þessi mál á óeðlilegan hátt, á þann hátt að það væri allt að því verið að drótta því að einstökum mönnum, að þeir hefðu ekki farið að réttum reglum í þessum efnum, þótt umreglurnar megi deila. Það er annað mál, um þær má sjálfsagt deila. — Ég vil láta það verða mín síðustu orð, að það væri kannske best að Alþingi setti hreinlega lög um þessi mál.