21.05.1979
Neðri deild: 94. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5121 í B-deild Alþingistíðinda. (4490)

291. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef nú áður tekið til máls í þessum umr. og gerði þá aths. við það, að frv. á þskj. 333, frv. til l. um breyt. á lögum nr. 101/1966, um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o. fl., hefur ekki verið afgreitt úr n. Það er flutt af hv. þm. Pálma Jónssyni og mér eftir staðfestingu frá hæstv. landbrh. á fsp. minni um álagningu umboðslauna á útfluttar landbúnaðarafurðir. Ég tel eðlilegt, að þetta frv. okkar Pálma Jónssonar hefði komið til afgreiðslu, og stend í þeirri meiningu, að þá hefði sú upphæð, sem farið er fram á til styrktar landbúnaðinum nú, 3.5 milljarðar, getað orðið talsvert lægri.

Þá benti ég einnig á það, að þrátt fyrir ítrekaða beiðni hef ég ekki fengið upplýsingar frá Framleiðsluráði landbúnaðarins varðandi aðra tekjuliði þeirra sem flytja út landbúnaðarafurðir. Nafngreindi ég þar sérstaklega Samband ísl. samvinnufélaga vegna þess að ég hef upplýsingar um það erlendis frá, að það undirbýður sérstaklega kjötvörur, þ. e. undirbýður aðra íslenska útflytjendur kjötvara og landbúnaðarafurða á sama markaði, og eins hef ég undirskrifað skilagrein frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, að vísu ekki með tölum, það var breitt yfir þær við ljósritun, en þar kemur fram hvaða liðir koma til frádráttar því verði sem fæst fyrir íslenskar afurðir á erlendum markaði. Ég taldi þá upp söluverðið og sérstakan afslátt, sérstakt framhaldsflutningsgjald, sérstakan erlendan kostnað, sérstök erlend umboðslaun. Síðan kemur aftur flutningsgjald og framhaldsflutningsgjald og svo tryggingar og innlendur bankakostnaður. Það sést á þessu, að talsvert margir liðir koma þar til frádráttar áður en endanleg skilagrein er gerð til seljenda eða framleiðenda landbúnaðarafurða. Sem sagt, ég tel eðlilegt að þetta frv. okkar þm. Pálma Jónssonar hefði komið til afgreiðslu í n. áður en þessi ósk um frekari fjárveitingu til styrktar landbúnaðinum kæmi fram frá hæstv. ríkisstj.

Ég ætla ekki að rekja þetta mál neitt sérstaklega, en ég vil aðeins undirstrika það sem ég sagði í fyrri umr. um þetta mál, að ég held, að ég efast ekki um vandamál bænda. Þau eru mikil og það þarf að leysa þau mál. En það þarf líka að koma í veg fyrir að bændastéttin eða þjóðfélagið í heild sé hlunnfarið í nafni bænda. Ég tel að það séu óheiðarleg vinnubrögð, að Samband ísl. samvinnufélaga í þessu tilfelli sé að leggja umboðslaun á niðurgreiðsluupphæðir á útfluttum landbúnaðarafurðum. Því getur enginn hv. þm. mótmælt og jafnvel ekki ráðh. heldur. Þetta er óeðlileg viðskiptavenja. Ef það kemur svo í ljós, að Samband ísl. samvinnufélaga hefur heimild til að draga frá kostnaðarliði sem aðrir útflytjendur hafa ekki heimild til þess að draga frá, þá er það líka óeðlilegt.

En hér var og er til umr. smábrtt. sem við hv. þm. Eggert Haukdal flytjum á þskj. 826 og er brtt. við brtt. á þskj. 675 frá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni. Ég vil með nokkrum orðum skýra það, sem ég er þegar búinn að segja hér nú, að það þarf að leysa vanda bænda og hann verður aldrei leystur með einhverjum takmörkunum, með því að setja þeim, sem Alþ. felur að leysa vandann, ákveðinn ramma. Ef vandinn er stærri en þessi rammi segir til um, þá verður vandamál bænda ekki leyst.

Við segjum það gjarnan við hátíðleg tækifæri, að bændur séu bústólpi og sá bústólpi sem þjóðin getur ekki verið án, og það er með því hugarfari sem ég hef flutt þessa brtt. við brtt. hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, og tekur hún þá takmörkun úr hans brtt. sem hann las hér upp og ég mun ekki endurtaka.

Vandamálið gæti verið minna ef verðmyndun á útfluttum landbúnaðarafurðum er könnuð og skilagrein er rétt samkv. eðlilegum viðskiptavenjum. Ég veit ekki til þess, — og er ég þó búinn að starfa hér frá 1956 að innflutningi og sem umboðsmaður erlendra aðila, — að mér hafi nokkurn tíma tekist að fá erlenda aðila til þess að taka á sig þá kostnaðarbyrði sem Samband ísl. samvinnufélaga virðist draga frá því verði sem fæst á erlendum mörkuðum fyrir okkar útflutningsafurðir, og því tel ég þetta óeðlilegan viðskiptamáta.

Ég held að ég hafi gert grein fyrir þessari till. okkar hv. þm. Eggert Haukdals á þskj. 826, en ég vil ítreka að till. hv. þm. Sighvats Björgvinssonar er afskaplega lík þeirri till. sem við hv. þm. Pálmi Jónsson fluttum hér á sínum tíma og ég gat um áðan að er á þskj. 333. Hún er orðuð á annan hátt, en stefnir að sama markmiði.

Með leyfi forseta ætla ég að leyfa mér að lesa hér nokkur orð upp úr till. Sighvats Björgvinssonar á þskj. 675. Þar segir svo: „Sexmannanefnd skal sem fyrst afla sem nákvæmastra upplýsinga um þann vanda, sem skapast hefur í landbúnaði sökum þess, að framleiðsla landbúnaðarafurða umfram innanlandsþarfir hefur orðið meiri en svo, að hæsta lögleyfða verðábyrgð ríkissjóðs nægi.“ En svo segir hann í lok till. sinnar að leysa skuli vandann án þess að fara fram ár þessum takmörkunum sem hann er að tala um.

Ég vil endurtaka til áherslu að vandamál verður aldrei leyst innan einhvers ákveðins ramma. Það getur vel verið að vandamálið sé innan þess ramma sem hv. þm. vill að það verði, en það er ekki víst og ég vil ekki lögbinda svona ramma. Annaðhvort leysum við vandann eins og hann liggur fyrir eða við getum ekki leyst hann.