21.05.1979
Neðri deild: 94. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5123 í B-deild Alþingistíðinda. (4492)

291. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Albert Guðmundsson:

Herra forseti: Ég hef ekki talið nauðsynlegt að leggja áherslu á það, sem oft hefur verið sagt bæði hér á þingi og annars staðar, að ég hef aldrei verið talinn neinn sérstakur talsmaður bænda og ætla mér ekki að gerast talsmaður bænda. En hitt er annað mál, að óeðlilegir viðskiptamátar á hvaða sviði sem er eru mér ekki óviðkomandi.

Ég hjó eftir því hjá hæstv. landbrh. í svari hans til mín nú fyrir stundu, að hann sagði að umboðslaun væru tekin af Sambandi ísl. samvinnufélaga sem nægðu til að standa undir kostnaði búvörudeildar. (Dómsmrh.: Við þessa starfsemi.) Við þessa starfsemi. Það væri afskaplega þægilegt ef þeir, sem á annað borð standa í viðskiptum, gætu ráðið því hver álagningin er og hve mikið þeir taka í umboðslaun af útfluttum eða innfluttum vörum, tekið nægilegt til þess að vera ánægðir. En ég fagna því og mér liggur við að segja að ég muni gera að talsverðu máli að breiða það út, sem kom fram hjá hæstv. ráðh. og er stórt innlegg í þessi mál, að hann lofar því að rn. muni standa að útflutningsleyfum til þeirra sem finna nýja markaði eða fá til erlendan kaupanda. Þessu fagna ég. En nú er það bara svo, að einn innlendur aðili, sem heitir Guðbjörn Guðjónsson, hefur fundið markað við hliðina á mörkuðum SÍS í Kaupmannahöfn. En honum er gert að skila fyrir fram „Letter of Credit“ sem kallað er. Sem sagt varan er greidd áður en hún fer héðan og hann verður að skila fullu verði án þeirra kostnaðarliða sem Samband ísl. samvinnufélaga hefur leyfi til þess að draga frá, og það tel ég óeðlilegt. Ef við tengjum allt þetta mál saman í miklu stærra samhengi, þá þarf þessi aðili, sem líka er innflytjandi annarra vara, að standa skil á söluverði til erlendra aðila fyrir fram. Samband ísl. samvinnufélaga hefur leyfi til þess að leggja þessa sömu peninga inn á reikning í erlendum bönkum og gera fyrir þá innkaup erlendis á öðrum vörum. Þar með getur það notað það, sem aðrir verða að skila strax, til þess að fá magnafslátt við innkaup, samhliða því að það getur fengið staðgreiðsluafslátt. Málið er því í sjálfu sér svo stórt að það er full þörf á því að láta erlenda endurskoðunarskrifstofu rannsaka umsvif Sambandsins, því að þau eru ekki öll hér innanlands.

Ég er hér með staðfestingu á því, að á þessum danska markaði hafi Samband ísl. samvinnufélaga undirboðið þann aðila, sem ég minntist á áðan, um 2 kr. danskar á kg af kjöti. Ég get sýnt hæstv. ráðh. þetta skriflegt frá erlenda fyrirtækinu ef hann óskar eftir því. Og ég er líka með skilabréf sem ég taldi upp úr áðan frádráttarliði Sambandsins, og ég get tíka sýnt hæstv. ráðh. það. Það er undirskrifað af aðila sem vinnur fyrir Sambandið, deild nr. 30, sýnist mér þetta vera, frekar en 39. Ég held að ef þessi mál væru könnuð til hlítar og þeir frádráttarliðir, sem ég álit að séu óeðlilegir í viðskiptum, væru dregnir frá þeirri upphæð sem nú er verið að fara fram á bændum til aðstoðar, 3.5 milljörðum, þá væri þessi upphæð talsvert lægri, hve mikið veit enginn án þess að það sé kannað. En ég er hér talsmaður bænda að því leyti til, þó að það sé kannske í óþökk þeirra sem hér sitja inni og ég hef kallað þm. Sambands ísl. samvinnufélaga frekar en þm. bænda, að ég vil reyna að koma í veg fyrir að bændur séu hlunnfarnir. Að því leytinu til er ég talsmaður bænda.