21.05.1979
Neðri deild: 94. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5126 í B-deild Alþingistíðinda. (4502)

306. mál, eignarnám hluta jarðarinnar Deildartungu ásamt jarðhitaréttindum

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mun í framhaldi af því máli, sem ég flutti þegar þetta mál kom til umr. hér í hv. þd., víkja að nokkrum atriðum, sem fram hafa komið í ræðum manna um þetta mál hér í þd., svo og fram komnum brtt. og nál. og mæla jafnframt fyrir eða kynna brtt. sem ég hef flutt við málið.

Ég vil byrja á því að vekja athygli hv. þm. á því, að hér er um heimildarfrv. að ræða, og ætti það raunar ekki að fara fram hjá neinum þar sem það kemur fram í fyrirsögn frv. Í því felst heimild til eignarnáms, svo sem fram kemur í 1. gr. frv. Með þessari heimild er að sjálfsögðu ekki lokað neinum leiðum til samkomulags í þessu máli, hvorki að því er snertir samninga milli núverandi eiganda hversins og Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar né heldur milli hitaveitunnar og Reykholtsdalshrepps, ef hinn síðarnefndi hefði óskir um að gerast aðili að þessu fyrirtæki. Ég vil einnig vekja á því athygli, að undirstaða þessa frv. um heimild til eignarnáms er sú, að sýnt sé fram á almenningsþörf til þess að láta fara fram eignarnám, og það tel ég að gert hafi verið og komi skýrt fram í aths. með þessu frv.

Það hefur verið vikið að því í umr. um málið, að af hálfu iðnrn. hafi verið sett eitthvert þak á greiðslur eða hugsanlegar greiðslur vegna leigu eða sölu Deildartunguhvers til aðila. Ég vil taka það fram, að svo hefur ekki verið gert. Hins vegar kemur það fram í aths. með frv. og ég vek sérstaklega að því í framsöguræðu með málinu, að rn. telur að það sé engan veginn sama hver niðurstaða yrði úr samningum og að tryggt þurfi að vera að að þeim gerðum standi það eftir, að sú hitaveita, sem á að byggja á þessum hver sem meginuppsprettu, sé eftir sem áður þjóðhagslega hagkvæm.

Í þeirri grg., sem starfshópur iðnrn. tók saman og samningaumræður á milli aðila byggðust á að verulegu leyti, liggja fyrir sérfræðilegir útreikningar á þjóðhagslegri hagkvæmni og forsendum þessa væntanlega fyrirtækis. Ég geri ráð fyrir að höfð sé hliðsjón af hliðstæðum málum sem áður hafa verið til athugunar, svo sem varðandi Hitaveitu Suðurnesja, sem byggðist á hitaréttindum í Svartsengi, og varðandi Hitaveitu Húsavíkur.

Það kemur fram í aths. með frv., á bls. 10, að það sé skoðun starfshópsins, að með lokatilboði sínu sé Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar komin það nærri þeim mörkum sem starfshópurinn að breyttu breytanda telur eðlilegt með tilliti til þeirra fordæma í samningum, matsgjörðum og dómum, sem honum eru kunn, að tilgangslaust sé, í ljósi hins djúpstæða ágreinings á milli aðila, að leggja fram sáttatillögur. Þarna er sem sagt að þessu máli vikið, en það er langt frá því, að rn. hafi sett eitthvert ákveðið þak eða viðmiðun í þessum efnum, annað en það sem samningsaðilar höfðu aðstöðu til þess að lesa og meta út úr þeirri grg. sem ég tel að sé mjög vel og vandlega unnin og ekki hlutdræg og þeir gátu haft hliðsjón af við samningaumleitanir.

Fram kom frá meiri hl. iðnn. brtt. við fyrstu gerð frv. sem tók af tvímæli um það, að orðalagið „að afhenda Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar“ fæli það ekki í sér, að um væri að ræða eignaryfirtöku hitaveitunnar á hvernum ef til eignarnáms kæmi, heldur mundu hin eignarnumdu verðmæti aðeins verða til afnota eftir því sem almenningsþörf krefur og um semst. Með þessari brtt. eru tekin af tvímæli um þetta, og raunar felst í þessu sá skilningur, sem rn. hafði á bak við það orðalag sem var í upphaflegri till., að eignarrétturinn yrði á hendi ríkisins, en afnotarétturinn kæmi til hitaveitunnar og þá skilyrtur. Einnig um þetta atriði er um heimild að ræða og framsal afnota til hitaveitunnar mundi miðast við þá almenningsþörf, sem er grundvöllur laganna, og einnig taka mið af þeim samningum, sem geta farið fram eftir sem áður þó að sú heimild verði veitt sem í frv. felst.

Það er alveg ljóst, að iðnrn. og stjórnvöldum ber að setja ákveðin skilyrði fyrir starfsleyfi til hitaveitna. Um það er kveðið á í orkulögum, og ein af megnforsendunum þarf að vera að um þjóðhagslega hagkvæmt fyrirtæki sé að ræða, og í slíku starfsleyfi er hægt að koma fyrir margháttuðum skilyrðum, sem iðnrn. hefur raunar kynnt fyrir hitaveituaðilunum, þannig að þeir vita að þeir þurfa að hafa uppfyllt öll eðlileg skilyrði áður en til veitingar starfsleyfis getur komið, þ. á m. samninga um afnot af landi í sambandi við aðveituæð, svo að dæmi sé tekið. Ég hef staðið í þeirri meiningu, að samkomulag væri milli Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og Reykholtsdalshrepps um það, að hinn síðarnefndi geti fengið aðild að hitaveitunni ef eftir því væri óskað, og mér er kunnugt um, að áþreifingar hafa verið í gangi milli aðila þar að lútandi, og tel mjög æskilegt að um þetta eins og annað, er mál þetta varðar, takist samkomulag.

Ég vil þá aðeins víkja að hlut sveitarfélagsins, en málsvarar þess hafa komið á framfæri undirskriftalistum og ályktunum bæði við iðnrh. og hv. þingnefnd, og ég tel því nauðsynlegt að víkja örfáum orðum að þeim þætti málsins.

Ég skil mjög vel þau viðhorf og tilfinningar sem fram hafa komið hjá heimamönnum um þessi efni, þó að ég telji að ýmis orð, sem fallið hafa og sett hafa verið á blað í því samhengi, séu óþarflega stór og þar gæti fullyrðinga sem út af fyrir sig séu ekki réttmætar og byggðar, að ég tel, að mjög verulegu leyti á misskilningi um eðli málsins, þó sumt af því ætti að hafa skýrst með þeim brtt. sem hv. iðnn. flutti. Það hefur komið fram, að eignarnámsþola, núverandi eiganda Deildartunguhvers, yrðu tryggðir 10 sekúndulítrar af vatni án endurgjalds, og að því var spurt við umr. s. l. laugardag af hv. þm. Einari Ágústssyni, hvort þetta væri fullnægjandi. Ég vil rifja það upp, sem ég held að komi fram í aths. með frv., að 10 sekúndulítrar af 100°C heitu vatni ættu að nægja í hitaveitu fyrir 500–700 manna byggð, svo að það ætti að vera ljóst af því að hér er ekki naumt skammtað miðað við afnot meðalbýlis. En það er líka vert að hafa í huga, að Deildartunguhver tilheyrir ekki Deildartungubýlum. Hann hefur verið tekinn undan þeim, eins og ég mun aðeins koma nánar að síðar.

Þá vil ég að það komi hér fram, að ég tel eðlilegt og raunar sjálfsagt að íbúar Reykholtsdalshrepps fái afnot af jarðhita frá Deildartunguhver svo sem þörf krefur og samrýmst getur frv. þessu, verði heimild um eignarnám samþykkt og hún notuð. Hins vegar þarf öllum að vera ljóst að heimildar til eignarnáms er leitað vegna almannaþarfar, í þágu fyrirhugaðrar hitaveitu, en iðnrn. mun huga vel að skilyrðum í starfsleyfi, eins og ég gat um áður, þannig að hlutur þeirra, er búa í nágrenni þessa mikla aflgjafa, sé ekki fyrir borð borinn. Tel ég raunar að með umráðarétti ríkisins að gerðu eignarnámi sé eðlilegur afnotaréttur heimabyggðar auk hagsmuna Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar mun betur tryggður en að óbreyttum aðstæðum. Ég vil í þessu samhengi vísa til brtt., sem ég hef flutt á þskj. 840, þar sem lagt er til að 3. gr. orðist svo:

„Þegar eignarnemi hefur tekið við hinu eignarnumda er ríkissjóði heimilt að afhenda Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar hin eignarnumdu verðmæti til afnota eftir því sem almenningsþörf krefur og um semst, og verði þá m. a. höfð hliðsjón af hagsmunum íbúa Reykholtsdalshrepps.“

Þessi orð: „og verði þá m. a. höfð hliðsjón af hagsmunum íbúa Reykholtsdalshrepps“ — eru viðauki efnislega við þá till. sem meiri hl. iðnn. flutti. Síðan er lokamálsgrein þessarar greinar efnislega óbreytt:

„Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar greiði ríkissjóði eignarnámsbætur og allan kostnað hans af aðgerðum þessum.“

Ég vil í þessu samhengi vekja enn frekar á því athygli, að Deildartunguhver hefur verið undanskilinn, tekinn frá Deildartungubýlum, og er í eigu þess aðila, sem að er vikið í frv., og félli í hlut erfingja hans, sem væru sex eða sjö talsins og þar af er aðeins einn sem býr nú í Deildartungu, og þessi hluti fylgdi ekki jörðinni sem slíkri, heldur þeim aðila sem fengi hlut í honum eins og aðrir sem erfðu hlut í Deildartunguhver. Ég tel nauðsynlegt að menn átti sig á þessu, þar sem sumir hafa verið að ræða hér um bændur og hagsmuni bænda í þessu samhengi. Og ég vil líka ítreka það, að ég tel að með almannaeign að gerðu eignarnámi eigi hlutur heimaaðila, sveitarfélagsins og þeirra sem þar búa, að vera betur tryggður heldur en ef þessi auðlind væri í höndum aðila sem að meiri hluta eru búsettir annars staðar, sumir nokkuð víðs fjarri. Vissulega hefði iðnrn. kosið að samkomulag um leigu á hvernum hefði tekist á eðlilegum grundvelli, og ég vænti þess, að svo geti orðið þrátt fyrir að það hafi ekki tekist til þessa.

Þá vil ég vekja á því athygli, að iðnrn. hefur ekki verið samningsaðili í þessu máli. Starfshópur þess, sem vann að undirbúningi málsins, var aðeins milligönguaðili í samningaumleitunum samkv. eindreginni ósk beggja aðila. Það lá fyrir á s. l. vetri, að hlutaðeigandi aðilar voru ekki reiðubúnir til þess að taka á þessu máli og láta reyna á samninga nema til milligöngu kæmi af hálfu rn., sem féllst á það, og það reyndi ítrekað á það í samningaviðræðunum að þetta umboð var staðfest. Rn. eða fulltrúar rn. voru reiðubúnir til að ganga þar út, ef vantraust hefði verið á þeirra milligöngu, en traust var staðfest og liggur það fyrir skjalfest í bókuðum og undirrituðum fundargerðum meðan á samningum stóð um þetta mál. Heimildar til eignarnáms var síðan fyrst leitað er lokatilboð lágu fyrir og útilokað var talið að saman gengi. Um þetta eru einnig skýrar og afdráttarlausar bókanir í fundargerðum sem fyrir liggja og menn geta haft út af fyrir sig aðgang að, ef óskað væri eftir því til að öll tvímæli séu af tekin um þessi atriði. En eins og ég hef greint frá útilokar samþykkt þessa frv. engan veginn að samningar geti orðið milli aðila.

Það hefur verið vikið hér að leigunámi og ég mun fara um það nokkrum orðum síðar. En varðandi framkvæmd hugsanlegs eignarnáms vil ég vekja á því athygli, að um það gilda sérstök lög og eignarnámsbætur munu verða greiddar samkv. mati sérstakrar matsnefndar sem eignarnámslög kveða á um. Og varðandi fullyrðingar, sem fram hafa komið um það, að eiganda hversins sé einum hagur að eignarnámi, þá tel ég að engin skýr rök séu fyrir því né heldur um það að ríkissjóður beri skarðan hlut út úr slíku. Þetta verður á valdi matsnefndar, ef á reynir, og fer það samkv. lögum.

Það hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir til þess að koma í veg fyrir að heimildarfrv., sem hér liggur fyrir, nái fram að ganga, fyrst og fremst af hálfu hagsmunaaðila sem hafa talið að ekki hafi verið boðið viðunandi í þessa auðlind sem þeir eiga, og ég get vel skilið þau sjónarmið út frá þeim verðkröfum sem þar lágu fyrir þegar upp úr slitnaði. En ég tel að slíkt megi ekki standa í vegi fyrir því þjóðþrifafyrirtæki sem stefnt er að að komi á Vesturlandi, þar sem er Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar.

Í áliti minni hl. iðnn., hv. þm. Ingvars Gíslasonar, koma fram ýmis atriði og staðhæfingar sem ég tel nauðsynlegt að gera aths. við, þar sem þær byggjast ekki á rökum eða þar sem ekki er rétt með farið. Eitt atriðið er það, að með afhendingu til Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar sé hér stefnt að því að afhenda hverinn þessu fyrirtæki til eignar. Það hafa nú verið tekin af tvímæli um það með brtt. frá hv. iðnn., sem einnig felst í þeirri brtt. sem ég hef flutt. Það er einnig fullyrt í þessu áliti, að alrangt sé að Deildartungufólk vilji ekki semja um afnot af hvernum og það sé spurning um verð, og segir orðrétt í áliti minni hl. iðnn.: „Sök þeirra er sú ein [þ. e. eigenda hversins], að þeir vilja láta virða eignarrétt sinn. Þá vilja þeir að sjálfsögðu ráða að sínu leyti hvaða gjald verður greitt fyrir vatnsréttindin. M. ö. o.: Þeir vilja semja um málið.“

Þarna kemur þetta fram, að eigendurnir vilji að sjálfsögðu ráða að sínu leyti, hvaða gjald verður greitt fyrir vatnsréttindin, og að hinu leytinu er það, hvað unnt er að ganga langt í samningum miðað við það að viðkomandi fyrirtæki, sem að er stefnt, fái staðist.

Það er líka í þessu minnihlutaáliti talað um óþarfa kappsemi iðnrn. við að knýja fram lausn þessa máls. Ég tel að ef hv, þm. hefði rætt við aðila á Vesturlandi sem hafa verið að undirbúa þetta mál, þá telji þeir að kappsemi iðnrn. hefði kannske mátt vera meiri á stundum. En við höfum hins vegar lagt mjög mikið upp úr því að vanda undirbúning þessa máls sem mest og best og því tók það langan tíma, það tók starfshópinn, sem vann á vegum rn., fimm mánuði að undirbúa þá grg. sem ég fékk í hendur og mál þetta er reist á, og það er ekki rétt, að mál þetta hafi verið að velkjast í rn. svo og svo lengi, ekki a. m. k. eftir að ég kom þar til starfa, heldur var unnið að því af mikilli samviskusemi af þeim sem falið var að fara þar ofan í sauma á sem hlutlausastan hátt. Og það er ekki rétt, að rn. hafi haft einhverja viðleitni í frammi um að veita villandi upplýsingar um þetta mál. Það tel ég að sé ekki rétt né heldur það, að sett hafi verið fram eitthvert ákveðið þak í sambandi við þá samninga sem reyndi á eftir að málsgögn lágu skýrt fyrir. Það, sem bar á milli aðila þegar upp úr samningaviðræðum slitnaði, voru, miðað við verðlag 1. jan. s. l., 625 millj. kr. miðað við samning til 30 ára, og að mati rn. var talið tilgangslaust að bera fram sáttatillögu meðan málin stæðu þannig og svo mikið bæri á milli. En það útilokar þó ekki að samningaumleitanir gætu farið fram. Hins vegar er útilokað að framkvæmdaundirbúningur vegna Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar geti farið fram nema sú heimild verði veitt til eignarnáms sem hér er óskað eftir, því að ég tel að slíkt fyrirtæki verði að hvíla á traustum grunni og menn verði að sjá til enda áður en farið er að hefja verkundirbúning eða festa fé í nauðsynlegum framkvæmdum, efniskaupum eða öðru. Sú heimild verður að fást áður en starfsleyfi er veitt.

Það hefur komið fram ábending um að lítið hafi borið á milli aðila varðandi fyrstu 10 ár þess tíma sem um var rætt, fyrstu 10 ár samningstímans. Þetta tel ég að sé á misskilningi byggt þar sem tilboðin frá aðilum voru óskipt. Það var ekki neitt afmarkað tilboð miðað við 10 ár sérstaklega, heldur var ósk eigenda um 15% af heildarábata, sem svo er kallaður, frá árinu 1991 að telja í lokatilboði hluti af því tilboði sem þarna var fram borið, og því var munurinn á þessum tilboðum svo mikill sem fram kemur í aths. með frv. og ætti raunar ekkert að fara á milli mála.

Varðandi þær till. og hugmyndir um leigunám sem fram hafa verið settar, til 15 ára eða ótímabundið, tel ég að þær hugmyndir séu engan veginn aðgengilegar. Slíkri aðgerð fylgdi áframhaldandi óvissa um hag fyrirtækisins og boðið væri upp á stöðugt deiluefni í héraði við utanhéraðsmenn sem væru að meiri hluta eigendur hversins eftir sem áður. Leigunám um ótiltekinn tíma jafngilti að mínu mati eignarnámi og hlyti að verða litið á það sem slíkt ef meta ætti. Ég tel því eðlilegt og nauðsynlegt að gera þetta mál upp á grundvelli eignarnámsheimildar sem útilokar ekki að samningar geti tekist á næstu mánuðum. Ég leiði hér hjá mér umr. um viðhorf til eignarréttar almennt yfir auðlind af því tagi sem hér um ræðir. Á bak við slíkt eru auðvitað margar spurningar, m. a. um eins konar tannfé til óborinna kynslóða og afkomenda þeirra sem teldust eigendur að slíkum auðlindum sem streyma úr iðrum jarðar.

Í mínum huga er munur á afnotarétti og eignarrétti. Ég tel vissulega eðlilegt að hlunnindi fylgi jörðum, a. m. k. að vissu marki, svo sem eðlilegt er að eigendur þeirra eða ábúendur geti hagnýtt sér og þ. á m. yfirborðsjarðhiti á lághitasvæðum.

Í brtt. frá hv. þm. Einari Ágústssyni kom það fram og í hans máli, að miða yrði við sjálfrennandi vatn til þess að taka af tvímæli að ekki væri leitað í frekari auðæfi sem undir kynnu að búa. Ég vil nú segja varðandi þetta, að ég tel engar líkur á því að farið verði að leita eftir frekari heitu vatni á því svæði þar sem Deildartunguhver er eða í næsta nágrenni. Að mati jarðfræðinga er þar ekki eftir miklu að seilast umfram það mikla vatnsmagn sem þar streymir upp. Hins vegar kom við athugun þessa máls til álita að hefja boranir á Kleppjárnsreykjum, á sama hverasvæði, en sá möguleiki var tekinn út úr vegna þess að talið var að þá væru menn á óbeinan hátt að sækja sama vatnsmagnið og upp kemur í Deildartunguhver., og sýnir þetta raunar hversu flókin mál af þessu tagi eru og hversu spurningin um eignar- og umráðarétt yfir slíkum hlunnindum og auðlindum er raunverulega óljós og flókin ef grannt er skoðað.

Ég vil svo að lokum segja það um þetta mál, að ég vænti þess, að það leysist eftir þeirri leið sem það frv. um heimild til eignarnáms felur í sér sem hér liggur fyrir. Ég vænti þess jafnframt að samningar og samkomulag megi takast um framhald málsins þannig að ekki þurfi að koma til eignarnáms í reynd, en úr því þarf að fást skorið á næstu mánuðum. Og ég legg áherslu á að sem best samkomulag takist við aðila í héraði og þá ekki síst við aðila í Reykholtsdalshreppi um þetta mál. Ég mun, að svo miklu leyti sem ég kem þar nærri, leggja mig fram um að svo megi verða og treysti því, að hv. þm. í þessari d. og í Ed. sjái sér fært að veita þá heimild sem hér er eftir leitað.