21.05.1979
Neðri deild: 94. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5135 í B-deild Alþingistíðinda. (4504)

306. mál, eignarnám hluta jarðarinnar Deildartungu ásamt jarðhitaréttindum

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Það er nú búið að ræða hér allmikið um það dagskrármál sem við tökum til við að ræða hér enn á ný nú, frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að taka eignarnámi hluta jarðarinnar Deildartungu í Reykholtsdalshreppi ásamt jarðhitaréttindum. Við fjölluðum allítarlega um þetta mikilvæga mál í iðnn. þessarar hv. d. og frsm. n., hv. þm. Jósef Þorgeirsson, gerði hér grein fyrir niðurstöðum okkar sem skipum meiri hl. nefndarinnar.

Ég vil í upphafi míns máls taka það fram, að vegna brtt. frá iðnrh. á þskj. 840, sem hann hefur gert grein fyrir, munum við sem skipum meiri hl. iðnn. þessarar d., taka til baka brtt. okkar við 3. gr. frv. Ég vil koma því á framfæri við hæstv. forseta d., að sú brtt., sem meiri hl. iðnn. hefur flutt við 3. gr. frv., er dregin til baka af okkar hálfu. Ástæðan er sú, að hæstv. iðnrh. hefur í rauninni tekið þá brtt. upp og reyndar bætt við einni setningu sem við getum fellt okkur við með prýðilegum hætti. Sú setning, sem hæstv. ráðh. hefur bætt þarna við, er á þá leið, að komi til eignarnámsins verði í framhaldinu einnig höfð hliðsjón af hagsmunum íbúa Reykholtsdalshrepps. Það er innskot hæstv. ráðh. í okkar till., og þessu innskoti erum við fyllilega sammála.

Ég vil taka það fram í þessu sambandi, að við umr. í n. hafði í rauninni jafnan verið út frá því gengið að svo yrði gert, að á þessa hagsmuni yrði sérstaklega litið og tillit tekið til þeirra. Við höfum miðað við það, að yfirlýsing um það efni kæmi fram í ræðu hæstv. ráðh., og töldum að það gæti út af fyrir sig dugað. En hann hefur kosið að setja það fram með ótvíræðum hætti, að hafa það í sjálfri tillgr., samkv. þeirri brtt. sem hann hefur lagt hér fram, og teljum við það vera góða lausn.

Ég vil segja um málið í heild, að það er auðvitað ljóst að þarna hafa togast nokkuð á hagsmunir annars vegar eiganda þessara miklu verðmæta, Deildartunguhvers, sem stundum hefur verið talað um sem ekki aðeins stærsta hver á Íslandi eða vatnsmesta, heldur stærsta hver í öllum heiminum, hvort sem það er nákvæmlega rétt eða ekki, og hins vegar almenningsþarfir íbúa Akraness, Borgarness og byggðarlaganna þar í kring fyrir að nýta til upphitunar sinna híbýla og til fleiri þarfa það mikla vatn sem þessi hver, Deildartunguhver, hefur að bjóða.

Auðvitað hefði verið langsamlega æskilegast að þeir nágrannar, sem þarna er um að ræða með andstæða hagsmuni, hefðu getað náð samkomulagi án atbeina ríkisvaldsins. Og ég vil sérstaklega taka það fram af minni hálfu sem formanns í iðnn. þessarar hv. d., að ég legg á það áherslu, að fyrst svona fór, að þetta samkomulag tókst ekki áður en það frv., sem hér er til umr., var lagt fram, þá verði þrátt fyrir það reynt í fullkominni alvöru, þegar frv. hefur verið rætt og ef það verður að lögum, að gera úrslitatilraun til samkomulags. Og ég minni á það atriði, sem ég tel vera mikilvægt, að í frv. felst ekki endanleg ákvörðun um það, að eignarnám skuli fara fram, heldur er efni frv. að heimila ríkisstj. slíkt eignarnám reynist aðrir kostir ekki vera fyrir hendi.

Það var haft hér á orði við umr. um þetta mál fyrr í dag af hv. 9. landsk. þm., að í rauninni hefði hæstv. ríkisstj. ekki átt að vera að skipta sér neitt af þessu máli, það hefði verið nær að láta málsaðila eina um að glíma við það. Ég vil vegna þessara orða minna á að báðir málsaðilar virtust samkv. þeim gögnum, sem fyrir liggja, ótvírætt telja að án atbeina ríkisvaldsins í málinu gætu þeir ekki náð samkomulagi, neinu því samkomulagi sem báðir gætu unað við. Þeir voru þar af leiðandi báðir sammála um það, að gerð yrði tilraun af hálfu rn. til að finna millileið sem samkomulag gæti orðið um. Ég tel það alveg ótvírætt, að við þessar aðstæður hafi það verið skylda rn. að gera þessa tilraun. Og sú tilraun hefur reyndar farið fram. Það var af hálfur rn. settur á fót ákveðinn starfshópur þriggja manna til að ræða við málsaðila. Fjöldamargir fundir hafa verið haldnir um málið eftir að núv. ríkisstj. hóf af því afskipti, en þá yfirleitt þannig, að þessi sáttanefnd ræddi við hvorn aðila um sig á einum og sama fundi, en ekki við báða sameiginlega í einu, vegna þess að það fyrirkomulag var talið heppilegra. Niðurstaðan af þessum ítarlegu samningatilraunum nægði því miður ekki til þess að fá fram það samkomulag sem menn gátu við unað, og bar þar reyndar býsna mikið á milli enn þegar upp var staðið.

Það hefur fyrr í þessum umr. verið rakið allítarlega hvaða upphæðir það voru sem hér greindi á um, og það er engin ástæða til af minni hálfu að endurtaka það sem áður hefur verið sagt í þeim efnum. En þar er um svo stórar upphæðir að ræða að ekki var talið vænlegt að bera fram beina sáttatillögu á þessu stigi málsins.

Menn eru um það sammála, sem um þetta mál hafa fjallað af hálfu opinberra aðila, að fyrir þéttbýlið á Akranesi og í Borgarnesi og fyrir sveitirnar þar í kring muni sá kostur að virkja Deildartunguhver til hitaveituframkvæmda vera allmiklu vænlegri en aðrir kostir sem í boði kynnu að vera. Það er af þeim ástæðum sem rík áhersla er á það lögð, að þau vandkvæði, sem verið hafa uppi varðandi samkomulag um gjald fyrir þetta mikla verðmæti, verði ekki látin leiða til þess að hafna verði þessum hagstæðasta virkjunarkosti. Því er þetta frv. flutt út frá því sjónarmiði, að það verði að tryggja það með tilliti til mikilvægra almannahagsmuna að þessi auðlind nýtist fyrir íbúa Borgarfjarðarhéraðs með þeim hætti sem hér er stefnt að.

Lagðar hafa verið fram brtt., annars vegar af hálfu hv. 11. þm. Reykv., Gunnars Thoroddsens, og hins vegar af hálfu hv. þm. Alberts Guðmundssonar og Einars Ágústssonar, í þá átt, að hér verði um heimild til leigunáms að ræða í stað eignarnáms. Við fjölluðum nokkuð í iðnn. um þessa tvo kosti og það hefur verið nokkuð rætt um þá hér í umr. í hv. Nd. Ég hygg að það sé ótvírætt, að sé um að ræða leigunám til takmarkaðs tíma, eins og gert er ráð fyrir í annarri af þeim tveimur brtt. sem fram hafa verið lagðar þessa efnis, þá fari ekki hjá því, ef sá kostur væri valinn, að upp kæmi að leigunámstímanum loknum ný deila svipaðs eðlis og sú sem nú fer fram um það, hvað sé sanngjarnt gjald fyrir þetta mikla verðmæti. Slíkar deilur gætu þá endurtekið sig á nokkurra ára fresti með reglubundnum hætti. Og niðurstaða mín getur ekki orðið önnur en sú, að ef þeir almannahagsmunir eru á annað borð svo mikils metnir að þeir réttlæti það að Deildartunguhver sé tekinn annaðhvort leigunámi eða eignarnámi, þá sé eðlilegast að gera málið upp nú og halda sig við ákvæði frv. um eignarnám. Það má hins vegar segja, að ef gert er ráð fyrir leigunámi til ótakmarkaðs tíma, eins og fræðilega væri mögulegt og gert er ráð fyrir í till. hv. 11. þm. Reykv., Gunnars Thoroddsens, þá sé í rauninni orðið um jafngildi eignarnáms að ræða, a. m. k, sé ég ekki að munurinn á því tvennu sé annað en hreinn orðaleikur. En það er rétt, að í því undirskriftaskjali sem 132 íbúar Reykholtsdalshrepps hafa sent Alþ. eða iðnn. þessarar hv. d., þar sem þeir andmæla þessu frv., láta þeir í ljós þá skoðun, að þeir kjósi þó leigunám frekar. Mér fannst hins vegar vera mjög athyglisvert að þegar við áttum þess kost í iðnn. þessarar hv. d. að ræða við oddvita Reykholtsdalshrepps, Jón Þórisson, á fundi okkar, þá kom það fram hjá honum að um þetta atriði, hvort heppilegra væri eignarnám eða leigunám, væru menn ekki sammála þar í hreppnum, í Reykholtsdal, þar sem þessi verðmæti hver er, og það kom fram, að t. d. væri það hans persónulega skoðun, oddvita sveitarinnar, að ef til annaðhvort eignarnáms eða leigunáms ætti að koma, þá væri eignarnám eðlilegra og heppilegra. Þetta vil ég upplýsa hér og er allrar athygli vert. En svo að allrar sanngirni sé gætt, þá tók hann einnig fram að innan hreppsnefndarinnar, sem í munu eiga sæti fimm menn, væri hann að vísu einn með þetta sjónarmið.

Ég vil einnig minna á það, að samkv. því, sem fram kom við umr. í iðnn., m. a. í viðræðum þar við oddvita Reykholtsdalshrepps, var ljóst að þegar íbúar Reykholtsdalshrepps undirrituðu umrætt mótmælaskjal höfðu þeir almennt gert ráð fyrir því, að ekki væri fyrirhuguð breyting á upphaflegum ákvæðum 3. gr. frv. þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta, á þessa leið:

„Þegar eignarnemi hefur tekið við hinu eignarnumda er honum heimilt að afhenda Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar hin eignarnumdu verðmæti, enda endurgreiði hún ríkissjóði eignarnámsbætur og allan kostnað hans af aðgerðum þessum.“

Þarna segir að eignarnema, þ. e. ríkissjóði, skuli heimilt að afhenda Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar hin eignarnumdu verðmæti. Og sá skilningur hafði verið uppi hjá íbúum Reykholtsdalshrepps þegar þeir undirrita sín andmæli, að í þessu fælist það, að til stæði að ríkið afhenti hitaveitunni hverinn til endanlegrar eignar, þ. e. fyrirtækinu Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Og það kom fram í viðræðunum við oddvita Reykholtsdalshrepps, að það var ekki síst þetta atriði sem menn voru ósáttir við, að þessi verðmæta eign þar í sveitarfélaginu, vafalaust sú langverðmætasta í þessu litla byggðarlagi, yrði afhent fyrirtæki annarra sveitarfélaga þó í sama héraði væru.

Hér er á það að líta, að orðalag upphaflegu frvgr. er „að afhenda“ — það stendur ekki „að afhenda til eignar“ — og þegar þetta mál var rætt við þá aðila, sem að málinu höfðu unnið af hálfu iðnrn., kom fram að það var engin tilviljun að þeir höfðu valið þetta orðalag í 3. gr., þ. e. „að afhenda“, en hins vegar ekki orðalagið „að afhenda til eignar.“ Það var þess vegna auðvelt að fá við þá samkomulag sem í rauninni var í samræmi við það sem fyrir þeim hafði vakað, — samkomulag um að breyta frvgr. á þann veg sem meiri hl. iðnn. gerir till. um, þ. e. að orðalagið sé á þann hátt sem þar segir: „Þegar eignarnemi hefur tekið við hinu eignarnumda er ríkissjóði heimilt að afhenda Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar hin eignarnumdu verðmæti til afnota eftir því sem almenningsþörf krefur og um semst,“ þ. e. afhenda til afnota, sem er þá að sjálfsögðu orðið annað en afhenda til eignar.

Það kom mjög ljóslega fram í viðræðum iðnn. við oddvita Reykholtsdalshrepps, að einmitt þessi breyting á upphaflegu frvgr. væri metin mjög mikils af honum og að því er hann vænti af mjög mörgum íbúum Reykholtsdalshrepps. Einnig var það ljóst, að af hálfu stjórnenda væntanlegrar hitaveitu eða þeirrar samstarfsnefndar, sem að málinu hefur unnið af hálfu Akraness, Borgarness og þeirra byggðarlaga sem að málum standa, þá sættu þeir sig einnig mjög vel við þessa breytingu, þannig að ég lít svo á að þarna hafi verið stigið nokkurt skref til samkomulags.

Að sjálfsögðu stendur hins vegar eftir sá meginágreiningur sem gert hefur þetta mál erfitt fyrst og fremst, og það er ágreiningurinn um það, hversu hátt eigi að meta þessi miklu verðmæti. Það er út af fyrir sig mjög eðlilegt, að þar greini menn á. Þarna höfum við engin skýlaus fordæmi áður sem hægt er að vitna til. Það er ekkert ótvírætt í þessum efnum, en hins vegar er mikill vilji fyrir því, — a. m. k. fannst mér það koma fram við umr. um málið við fulltrúa eigenda, að fullur vilji sé fyrir því af þeirra hálfu, að hverinn, sem í þeirra landi stendur, verði nýttur í þessu skyni, og ágreiningurinn er ekki um það, hvort hann skuli nýttur, heldur aðeins um það, hversu mikið gjald skuli koma fyrir. Og það má út af fyrir sig e. t. v. segja með tilliti til ýmissa annarra deilumála af svolítið svipuðum toga, sem upp hafa komið í landinu, að mjög mikilvægt sé að deilan skuli þó bara standa um þetta. Ég minni á það, að stundum hafa ýmsir aðrir mjög viðkvæmir og mikilvægir þættir blandast inn í deilumál sem að öðru leyti hafa kannske verið nokkuð hliðstæð við þetta, og á ég þar við ágreining um náttúruverndarsjónarmið af ýmsu tagi og annað því líkt. En það er ekki um neitt slíkt að ræða þarna, heldur fyrst og fremst og nær eingöngu deilt um gjaldið. Og ef það fer svo líka að þessu frv. samþykktu, að það takist ekki að byggja þá brú sem þarna vantar enn, þá geta menn væntanlega verið bærilega sammála um það, að enginn aðili er frekar finnanlegur í okkar þjóðfélagi til að leggja á það dóm, hversu mikil verðmæti þarna sé í rauninni um að ræða, heldur en þeir aðilar sem til yrðu kvaddir að framkvæma þetta vandasama mat, ef til þess þarf að koma.

Menn geta út af fyrir sig sagt sem svo, að þeir almenningshagsmunir, sem þarna séu í húfi, séu ekki það miklir að þeir réttlæti svo alvarlega aðgerð sem eignarnám. Það er sjónarmið út af fyrir sig og sjónarmið sem ég get borið fulla virðingu fyrir. En hitt er ótvírætt, að það getur ærið oft komið upp sú staða í okkar landi í hliðstæðum málum sem þessu, að almannahagsmunir séu það sterkir, séu það mikilvægir að þeir réttlæti fullkomlega að því ákvæði stjórnarskrárinnar, sem gerir ráð fyrir eignarnámi við slíkar kringumstæður, sé beitt. Og ég vil segja það, að sú grundvallarafstaða að ætla að hafna eignarnámi undir öllum kringumstæðum er að mínu viti alveg fráleit. Hitt er aftur matsatriði, sem eðlilegt er að menn geti haft skiptar skoðanir á, hvort þeir almannahagsmunir, sem þarna er um að ræða nú séu það mikilvægir að þeir réttlæti eignarnám, — og það er mín niðurstaða að fallast á að svo sé. Jafnframt vil ég þó taka fram um leið og ég lýk máli mínu, að ég vil eindregið vænta þess að verði frv. samþ. eins og við leggjum til, þá verði eftir sem áður leitast við enn á ný að kanna möguleikana á samkomulagi. Víst verður það undir ákveðnum þrýstingi gert þegar ríkisvaldið hefði slík lög í höndunum, eins og hv. 9. þm. Reykv., Einar Ágústsson, minnti á í sínu máli fyrr við umr. En hvað sem því líður geri ég samt mjög skýran greinarmun á annars vegar heimild til eignarnáms, sem í frv. felst, og hins vegarbeinni ákvörðun um eignarnám. Það er sitt hvað.