21.05.1979
Neðri deild: 94. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5145 í B-deild Alþingistíðinda. (4507)

306. mál, eignarnám hluta jarðarinnar Deildartungu ásamt jarðhitaréttindum

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það er að sönnu komið fram yfir þann tíma sem atkvgr. var boðuð, en ég hafði beðið um orðið meðan á umr. stóð og ég held að ég verði að fá að segja hér nokkur orð í tilefni af því sem fram hefur komið, sérstaklega því sem. hæstv. iðnrh. sagði í ræðu sinni fyrr í dag. Hann lagði á það talsverða áherslu, að hér væri einungis um heimildarfrv. að ræða og hann vildi ekki með nokkru móti loka samkomulagsleiðum, heldur halda áfram viðtölum við eiganda eða fulltrúa hans. Það er auðvitað góðra gjalda vert að vilja þetta. En það þýðir þá væntanlega að nokkur bið verði á því að heimild væntanlegra laga verði notuð, og þá vaknar að sjálfsögðu sú spurning, hvort eignarnámslagasetningunni liggi svo mikið á að hana þurfi að afgreiða hér á örfáum dögum í lok þessa þings. Enn fremur vaknar þá sú spurning í mínum huga a. m. k. og ég vænti fleiri, hvort ekki væri réttara að notast við leigunámsheimild á vatnsréttindum á meðan þessar samningaumleitanir fara fram ef það er svo að Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar liggi mjög mikið á að fá vatnið og sé tilbúin að hefjast handa um framkvæmdir, hönnun sé fyllilega lokið og það sé ekki annað eftir en að byrja að grafa fyrir leiðslum. Ég held því að sú till., sem hv. þm. Ingvar Gíslason flytur, sé skynsamleg, að þetta mál fái nánari athugun í rn. eftir samningaleiðum.

Hv. þm. Kjartan Ólafsson, 3. þm. Vestf., lagði einnig mikla áherslu á að þrautreyna samningaleiðina, þannig að báðir þessir talsmenn frv. virðast vera á því að það væri miklu ákjósanlegri leið að leysa málið með frjálsum samningum, og er það virðingarvert hjá þeim hv. þm. sem þó eru mjög fúsir til þess að taka eignir manna og leggja undir ríkissjóð. En hv. þm. Kjartan Ólafsson virtist mér leggja að jöfnu leigunám til langs tíma og eignarnám. Á þetta get ég ekki fallist. Með leigunámi er eignarrétturinn áfram hjá fyrri eigendum og því áframhaldandi von að af frjálsum samningum geti orðið, eins og allir segjast nú vilja. En þegar eignarnámsheimild hefur verið notuð, og það er ekki sjáanlegt annað en hún verði notuð því að annars væri ekki verið að leggja svo mikið kapp á að fá hana, þá er ríkið orðið eigandi og að sjálfsögðu ekki þá lengur um að ræða nokkra samninga við Deildártungufólk, það er ekki lengur aðilar málsins. En þá gætu hæglega tekið við aðrir samningar, sem ég er ekkert viss um að yrðu svo mjög miklu auðveldari en samningar við þetta fólk, þ. e. samningar við hið nýja fyrirtæki, sem heitir Hitaveita Akraness og Borgárfjarðar, um það sem nú eru nefnd einungis afnot, en ekki eign. Það hlýtur að verða verulegt matsatriði hvað fyrirtækið eigi að greiða fyrir þau vatnsréttindi sem ríkið þá veitir því. Ég spái því, að þarna geti því einnig orðið um verulegt vandamál að ræða fyrir hæstv. iðnrh. og að málið sé engan veginn í höfn þó að eignarnáminu verði beitt.

Ef eignarnám er látið fara fram, þá skildist manni upphaflega að Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar ætti að greiða ríkinu það sem ríkið greiðir fyrir vatnsréttindin og í mínum huga vakna þá þessar spurningar. Á leigan fyrir vatnið að miðast við eignarnámsverðið og greiðast þá á hvað löngum tíma og með hverjum hætti? Þessum spurningum er öllum ósvarað. Það er ekki einn einasti stafur um þetta í nokkru því plaggi sem ég hef séð, ekki nokkru því plaggi sem lagt hefur verið fyrir hér á hv. Alþ., en þetta hlýtur að skipta verulegu máli. Hér er verið að tala um eignarnám á miklum verðmætum sem enginn veit hvað hátt verða metin.

Mikil áhersla hefur verið lögð á það hér í vetur, a. m. k. af núverandi valdhöfum, að menn yrðu að vita hvað þeir eru að samþykkja, þegar þeir setja lög. Vitum við það? Ég spyr. Ég held að við vitum það ekki. Og við vitum ekki hvað kann að koma út úr mati skipaðra matsmanna á þessum verðmætum. Það er hægt að draga ýmsar ályktanir um það — ég mun kannske koma að því síðar hversu hátt þetta mat verði, en það er alveg víst að hér er um verulegar fjárhæðir að tefla. Ég minntist á það hér um daginn, að um er að ræða jafnvirði 59 þús. tonna af olíu. En nú á að gera breytingu á frv. frá fyrstu gerð þess í þá veru, að nú verði ríkið áframhaldandi eigandi, en ekki hitaveitan eða þau sveitarfélög sem að henni standa, og má vel vera að einhverjum sé fróun í því og ég er ekki út af fyrir sig að mæla neitt sérstaklega gegn því.

Ég tók ekki nægilega vel eftir því, hvað hæstv. ráðh. sagði um samninga við landeigendur um aðveituæð, hvort þeir samningar eru hafnir eða hvort þeim er kannske lokið og hvað er áætlað að það muni kosta að leggja leiðslur um lönd bænda í Reykholtsdal og víðar. Þetta er spurning sem auðvitað verður að taka inn í dæmið. Það eru áreiðanlega talsverðar fjárhæðir sem hér er um að tefla, og ég tel það algerlega óforsvaranleg vinnubrögð, ef hafin er gerð þessarar hitaveitu án þess að áður sé samið við þessa landeigendur. Það getur leitt til ófyrirsjáanlegra atvika, eins og mörg dæmi hafa sýnt á liðnum árum við svipaðar aðstæður. Og ég vil minna á það, að þegar Landsvirkjun lagði rafmagnslínur frá Búrfelli og frá Sigöldu til Reykjavíkur, þá var fyrir fram samið við hvern einasta landeiganda sem varð fyrir spjöllum af þessum framkvæmdum, og þannig tel ég að vinna eigi að slíkum málum. Ég tel ekki koma til greina að hefjast handa, eins og ég áðan sagði, fyrr en frá þessum málum er að fullu gengið.

Hæstv. iðnrh. taldi mjög vel gert við landeigendur og ábúendur á Deildartungusvæðunum, þar sem eftir væru skildir hvorki meira né minna en 10 sekúndulítrar af vatnsrennslinu þeim til handa. Þetta var út af því sem ég minntist á í ræðu um daginn, og hann sagði að samkv. sínum útreikningum og sinna sérfræðinga dygði þetta heitavatnsmagn fyrir 500–700 manna byggð. Samkv. þeim eina reikningi sem ég kann nú, einfaldri þríliðu, sýnist mér að ef 650 manns komast af með 10 sekúndulítra, þá ættu 6500 manns að komast af með 100 sekúndulítra. (Iðnrh.: Það kólnar á leiðinni, vatnið.) Vatnið kólnar á leiðinni, já, það er nefnilega það. Þá er kannske hugsanlegt að snerpa á því þegar það kemur á áfangastað, það er víða gert. Nema það sé hugsað svo, að það sé kalt vatn í ofnunum á hitaveitusvæðinu, ég veit það ekki. Ég hélt að það yrði þá bara mál hitaveitunnar ef þess þyrfti. En samkv. útreikningum í aths. með frv. þarf Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar á einu ári, á fyrsta ári, 169 sekúndulítra fyrir sína 6500 neytendur. Mér sýnist þess vegna hér vera verulega betur gert við íbúa væntanlegs hitaveitusvæðis heldur en þá sem eftir verða í dalnum, einkum þegar það er haft í huga að fyrir hendi geta verið 50 sekúndulítrar í Bæjarsveit, sem samkv. aths. hæstv. ráðh. dugar fyrir alla aðra byggð en Akranes, svo að það eru þá Akurnesingar sem þurfa að fá 170 sekúndulítrana. Þess vegna held ég að það ætti að vera mögulegt að verða við þeirri beiðni, sem fram er sett í bréfi frá oddvita Reykholtsdalshrepps og var áðan lesin, dagsett í gær, að eftir yrðu skildir 30 sekúndulítrar til þess að heimamenn gætu hagnýtt sér þá. Bréfið varar við einu og öðru, eins og hér var lesið, þannig að mér sýnist það enn þá renna stoðum undir það sem ég sagði hér síðast, að það væri síður en svo loku fyrir það skotið að nokkurt ósamkomulag kynni að verða í Borgarfjarðarhéraði þó að þetta eignarnám yrði framkvæmt.

Hæstv. iðnrh. taldi, að ég hefði farið með rangt mál á laugardaginn þegar ég talaði um afnot Deildartungumanna af hvernum, og bað mig að kynna mér málið betur. Satt að segja hélt ég að hér væri um eitthvert það atriði að ræða sem ég vissi ekki um og gæti breytt málinu verulega, af því að hæstv. iðnrh. er með afbrigðum skýr maður, að hann væri með tromp á hendinni, hátt spil, sem ætti eftir að kollvarpa öllu því sem ég hefði sagt hér. Og ég get ekki neitað því, að það fór lítils háttar um mig að eiga von á þessum upplýsingum. En svo þegar hann í dag sýndi spilið í lófanum, þá fannst mér sannarlega heldur lítið til þess koma, það var ekki hátt spil. Það var sem sagt bara það einfaldlega, að elsta húsfreyjan í Deildartungu, Frú Sigurbjörg Björnsdóttir, er ein skráður eigandi hversins. Þetta er það sem ég á að hafa farið eitthvað rangt með. Þessi heiðurskona er búin að gera garðinn frægan í Deildartungu ásamt manni sínum, Jóni Hannessyni, sem nú er látinn, síðan 1913 eða í 66 ár. Og það að telja hana ekki með Deildartungumönnum er algerlega of vaxið mínum skilningi. (Iðnrh.: Hvar eru niðjarnir?) Þegar það svo bætist við, — ég ætla að koma að því, — að náin ættmenni hennar, niðjar sumir hverjir, eru búendur eða eigendur flestra jarða í Deildartunguhverfinu. Þetta hygg ég að hæstv. ráðh. mætti gjarnan kynna sér, af því að ég sé að hann trúir ekki því sem ég segi frekar en um daginn. En það er kannske hægt að færa sönnur á þetta með upplestri úr bókum ef þurfa . þykir.

Af því að ég fór eftir ráðleggingum hæstv. ráðh. og fór að skoða betur þessi mál og hver væri nú eigandi Deildartunguhvers, þá tók ég eftir því í fyrsta lagi, sem ég áður raunar vissi, að það er frú Sigurbjörg Björnsdóttir. En auk þess rak ég augun í það, að fæðingarárs frúarinnar er alveg sérstaklega getið í aths. Ég man aldrei eftir því að ég hafi séð það fyrr í grg. eða aths. með frv., sem hér hafa verið lögð fram, að talað væri sérstaklega um það, hversu viðkomandi aðili væri aldraður. Ég ætla ekkert að giska á af hverju þetta er tekið fram, en mér finnst þetta skrýtið og ég hef ekki séð það fyrr.

Þá sagði hæstv. ráðh. sem svar við spurningu frá mér um það, hvort fyrirhugað eignarnám næði aðeins til sjálfrennandi vatns eða einnig til borunarréttinda á hinu eignarnumda svæði, að engar líkur væru á því, að leitað verði eftir auknu vatni frá Deildartunguhver. Ég hlýt að biðja hæstv. ráðh. afsökunar á því, að þetta tel ég ekkert svar, nákvæmlega ekkert svar, og það byggi ég aðallega á þremur atriðum: Í fyrsta lagi því, að hæstv. núv. iðnrh. hefur ekki tryggingu fyrir því að verða alltaf í því embætti, þannig að það er ekki víst að hann ráði því þó hann vildi, og ég efast ekki um að hann ætlar ekki að bora þar. Í öðru lagi tel ég að rannsóknir á þessu svæði séu engan veginn tæmandi. Og í þriðja lagi tel ég að aðstæður geti breyst. Svona yfirlýsingar met ég þess vegna einskis og held því fast við þá till. sem ég flyt ásamt hv. 1. þm. Reykv. Albert Guðmundssyni, að kveðið verði skýrt á um þetta í þeim lögum sem sett verða — um hvað sem þau svo annars kunna að fjalla, eignarnám eða leigunám — ef haldið verður fast við lagasetninguna verði tekin af öll tvímæli um þetta.

Það var gert að umtalsefni áðan af hv. þm. Albert Guðmundssyni og raunar hv. þm. Ingvari Gíslasyni líka, að það fengi naumast staðist, sem var haldið fram í dag, að iðnrn. hefði ekki haft nein afskipti af samningaviðræðunum. Það var lesin upp bókun frá fundi samstarfshópsins og umboðsmanna eiganda Deildartunguhvers þar sem kemur greinilega fram hjá formanni starfshóps rn., að mjög væri tekið að þrengja að þeim ramma sem líklegt væri að hlyti brautargengi rn., og síðar, að það væri alveg að því komið að ramminn væri á enda runninn sem starfshópurinn mátti fara eftir, og þess vegna bauðst hann til þess að láta af störfum. Er hér þá rangt greint frá? Er þetta röng útskrift úr bókun? Er þetta rangt sem umboðsmenn eiganda Deildartunguhvers láta eftir sér hafa um þessa bókun? Það er mín fyrri spurning. Eða — og það skal vera mín síðari spurning — er það rangt hjá Gísla Einarssyni, fulltrúa í rn. eða deildarstjóra, að hann hafi haft þessi fyrirmæli? Annaðhvort hlýtur það að vera eða þá að fyrirmælin hafi verið fyrir hendi, og þá hefur rn. óumdeilanlega og ótvírætt haft afskipti af því, hvað hæst mætti bjóða fyrir vatnið. Það er ekki nema tvennt til í þessu.

Þá var minnst hér á samanburð við Hitaveitu Húsavíkur, og það er ekki svo ósennilegt að þeir samningar verði hafðir eitthvað til hliðsjónar þegar farið verður að meta þá fjárhæð sem í hlut eiganda eiga að koma. Ég er hér með samning milli bæjarstjórans í Húsavík fyrir hönd Hitaveitu Húsavíkur og eigenda tiltekinna jarða í svonefndu Reykjahverfi þar nyðra; sem ég ætla ekki að fara að lesa, en bara að upplýsa, ef menn skyldu ekki vita það, að þessi samningur var gerður 1970, þ. e. áður en olíukreppan skall á. Í þessum samningi er samið um afnot af um 3.5 sekúndulítrum sjálfrennandi vatns ásamt leyfi til borana og afnotum af 90% þess vatns sem þannig kann að nást. Greiðsla skal vera 10 þús: kr. fyrir árssekúndulítra og er verðið miðað við 3.22 kr. lítra af gasolíu og verðtryggt með olíuverði. Nú hefur verið reiknað fyrir mig, að á verðlagi 1. jan. 1979 muni þetta samsvara 179 þús. kr. fyrir hvern árssekúndulítra.

Að því er varðar hverinn í Deildartungu, þá stóðu til boða 150 lítrar á sekúndu af sjálfrennandi 100°C heitu vatni. Lokatilboð Deildartunguumboðsmanna svarar til 238 þús. kr. fyrir hvern árssekúndulítra, sbr. grg. með frv. En lokatilboð Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar svarar til 83 333 kr. fyrir hvern árssekúndulítra. Þá geta menn gert samanburð á því, hvaða kostir eru boðnir í Borgarfirði af ríkisvaldinu, 83 333 kr., eða hvaða kostum gengið var að af hálfu bæjarstjórnar Húsavíkur, 179 þús. kr. fyrir hvern árssekúndulítra eða nærri hundrað þús. kr. hærra gjald en hér er talað um. Þetta var gert í frjálsum samningum, — samningum sem ekki hafa þótt slæmir og enginn hefur gagnrýnt bæjarstjórn Húsavíkur mér vitanlega fyrir að gera.

Þegar farið verður að meta eignarnámsbætur og hliðsjón höfð m. a. af þeim frjálsa samningi sem ég var að minnast á, þá ætla ég að það þyki lágt undir loft undir því þaki, sem iðnrn. hefur sett á þá samningsgerð sem hér er um að tefla, og sá skáli, sem Deildartungumönnum var boðið að ganga inn í, þyki heldur lágreistur verið hafa. En þaklyftingar eru mjög iðkaðar og því held ég að rétt væri að lyfta þessu þaki örlítið. Áður en farið verður að þvinga fólk, sem hefur átt þessa eign í mörg hundruð ár, á þriðja hundrað ára, og þykir vænt um sína eign og vill halda á henni eignarrétti, en er fúst til þess að láta af hendi arðinn, hið sjálfrennandi vatn, til fólks sem því er vel við og býr í sama héraði, þá held ég að þessi mál ættu að skoðast að ný frá grunni.

Herra forseti. Ég vil taka það fram að endingu, að ég ætlaði ekki að tala hér langt mál og ætla að standa við það. Ég hef ekki löngun til að þrefa um þetta mál, og ég hef fulla samúð með því fólki sem þarf á þessum hitagjafa að halda og skil vel nauðsyn þess að nota innlenda orkugjafa í stað þess að kaupa dýra og síhækkandi olíu til upphitunar húsa og annarrar slíkrar starfsemi. Ég viðurkenni það líka, að svo geta ástæður verið vaxnar að eignarnám sé nauðsynlegt. Ég mun ekki mæla því í gegn. En mér finnst að hér hafi samningaleiðin ekki verið þrautreynd, og ég legg þess vegna áherslu á, eins og raunar hæstv. ráðh. og hv. formaður iðnn. hafa líka gert, að samningaviðræðum verði haldið áfram og þær reyndar til þrautar, sem ég vil kalla svo, og til þess að svo megi verða er auðvitað ekki hægt að byrja á því að taka eignina eignarnámi. Eftir það er ekki um neina samninga að tefla, þá er engan eiganda við að semja. Þess vegna tel ég að ef svo mikið kapp er lagt á málið að það verði að afgreiða það nú og menn geti ekki fellt sig við hina rökstuddu dagskrá, þá sé leigunám skárri kosturinn sem hér er um að tefla, því að þá geta frjálsar samningaviðræður haldið áfram.