21.05.1979
Neðri deild: 94. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5155 í B-deild Alþingistíðinda. (4516)

295. mál, Háskóli Íslands

Frsm. meiri hl. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. til l. um breyt. á lögum um Háskóla Íslands. Þessar breytingar þykja nauðsynlegar til þess að unnt sé að staðfesta nýja og heildstæða reglugerð sem samin hefur verið af nefnd sem til þess var kjörin.

Menntmn. þessarar hv. d. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n. mælir með því að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá Ed., en minni hl. skilar séráliti og brtt.

Það er helst til nýmæla að telja í þessu frv., að rýmkaður er réttur kennara og nemenda til að óska eftir prófdómara, og gert er ráð fyrir að Háskólinn fái heimild til þess að eiga og reka lyfjabúð til kennslu og rannsókna í lyfjafræði lyfsala. Þrenn rök mæla með því að þessi heimild verði veitt.

Í fyrsta lagi hafa um skeið verið vandkvæði á því að fá nemendur í lyfjafræði lyfsala vistaða í hinum ýmsu lyfjabúðum, en slík námsvist er óhjákvæmilegur þáttur í menntun lyfjafræðinga. Hefur þurft að standa í samningsþófi um þetta nokkur undanfarin ár. Þennan vanda mundi lyfjabúð í eigu Háskólans leysa.

Í öðru lagi hefur að undanförnu verið rætt um þann möguleika að upp verði tekin við Háskóla Íslands kennsla til kandídatsprófs í lyfjafræði lyfsala, en til kandídatsprófs þarf nú þriggja ára nám erlendis til viðbótar tveggja ára námi hér heima, en kandídatsprófið eitt veitir réttindi til þess að reka lyfjabúð. Forsenda þess, að slíkt nám megi taka upp hér, er að Háskólinn eigi og reki lyfjabúð.

Í þriðja lagi mundi svo gefast kostur til verulegrar framleiðslu á lyfjum og þannig nýtast sérþekking sem þegar er fyrir hendi innan Háskólans.

Meiri hl. telur að hér sé um mikið hagsmunamál fyrir Háskólann að ræða, og það upplýstist á fundi með rektor Háskólans, að reksturinn mundi standa undir kaupunum án þess að þyrfti að skerða framkvæmdafé Háskólans að öðru leyti.