21.05.1979
Neðri deild: 94. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5155 í B-deild Alþingistíðinda. (4517)

295. mál, Háskóli Íslands

Frsm, minni hl. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Minni hl. menntmn. hefur skilað séráliti þar sem kemur fram að við, sem í minni hl. erum, erum sammála því að samþykkja þetta frv. með þó einni breytingu, þeirri, að 28. gr. verði felld niður úr frv. Í 28. gr. segir efnislega að Háskólanum skuli heimilt að eiga og reka lyfjabúð til kennslu og rannsókna í lyfjafræði lyfsala. Við teljum að frv. eigi rétt á sér og aðrar þær breytingar, sem gerðar eru á lögunum, gangi í rétta átt og höfum ekkert við þær að athuga, en teljum að sú breyting, sem þarna er nm að ræða, geti auðveldlega átt sér stað þó að Háskóli Íslands fari ekki að setja á stofn sérstaka lyfjaverslun og reka hana og eiga. Það er ekki hlutverk Háskólans að standa í slíkum rekstri. Við álítum að þetta nám og þau réttindi, sem það veitir, geti farið fram án þess að um slíka verslun sé að ræða á vegum Háskólans. Þess vegna leggjum við til að þessi grein verði felld niður.