21.05.1979
Neðri deild: 95. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5157 í B-deild Alþingistíðinda. (4531)

19. mál, dómvextir og meðferð einkamála í héraði

Frsm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Áður en ég kem að því eiginlega frv., sem hér er til umr., frv. um dómvexti, langar mig til að gera aths. við dagskrá og spyrja hæstv. forseta um það, hvernig á því standi að ekki er á dagskrá mál sem hér var til umr. á föstudaginn og var um samtryggingarkerfi stjórnmálaflokkanna, Kröflunefnd, mjög skrýtin viðskipti Kröflunefndar, og þar sem bornar voru fram spurningar til hæstv. iðnrh. sem nú er ekki í salnum. Hæstv, forseti má gjarnan svara því strax. (Forseti: Ástæðan er sú, að það er komið mjög að þinglokum og það hefur orðið samkomulag, að ég tel, innan þings og í samráði við mig að sjálfsögðu um það, hvaða mál gangi fram á þeim dögum sem eftir eru til þinglokanna. Meðal þeirra mála, sem samkomulag varð um að fresta til síðari tíma, er þetta mál, sem hv. þm. var að nefna, ríkisreikningurinn. Það er ekki brýnt að afgreiða málið nú og ég taldi rétt að það væri ekki rætt frekar á þessu þingi.)

Herra forseti. Ég heyri á öllu að þetta er liður í þinglausnasamsæri fáeinna stjórnmálamanna gegn fólkinu í þessu landi. Ég sé ekki neina ástæðu til þess að þetta mál sé ekki rætt á þessu þingi. Hér er að vísu um að ræða eitt af þessum hefðbundnu samtryggingar- og spillingarmálum, eins og hér var rætt í ítarlegri ræðu á föstudag, og ég sá að hér voru á mælendaskrá nokkrir ræðumenn sem augljóslega höfðu ýmislegt við þetta mál og kannske ræðu mína að athuga. Mér er óskiljanlegt hvernig á því stendur, að þegar imprað er á einu af þessum táknrænu samtryggingarmálum, þar sem augljóslega hefur verið misfarið með almannafé, þar sem alla vega er fyllsta ástæða til þess að spyrja margra spurninga, þar sem óskað er eftir svörum iðnrh. núv. og jafnvel fyrrv., en þó núv. fyrst og fremst sem nú ber ábyrgð á þessu rn., þá gerir samtryggingarkerfið sér litið fyrir og vippar málinu út af dagskrá og vill ekki ræða það aftur fyrr en næsta haust! Þetta samsæri er ekki samsæri gegn siðvæðingarþingmönnum fyrst og fremst. Þetta er auðvitað samsæri gegn fólkinu í landinu og sjóðum þess, sem eru almannasjóðir. Þetta er auðvitað óþolandi, að um það sé tekin að því er virðist einhliða ákvörðun af forseta.

Ég tek undir það sem hv. þm. Matthías Bjarnason sagði á kvöldfundi um daginn, að stundum virðist manni sem forseti sé hlutdrægur, svo ekki sé meira sagt. Hann á augljóslega hlut að máli, hafandi setið í Kröflunefnd ásamt hv. þm. Ragnari Arnalds og Jóni G. Sólnes, og ég tek ekki þegjandi þeim vinnubrögðum, að þegar bornar eru fram spurningar til ráðh. og til fleiri, þá geri samtryggingarkerfið, Kröflukerfið, verðbólgukerfið, sér lítið fyrir og takið málið út af dagskrá. Hér var um það að ræða, að komið hafði í ljós að fyrirtækið gerði samning upp á um það bil 30 millj. kr. við handhafa almannasjóða. Það voru borgaðar 132 millj. úr þessum sömu almannasjóðum. Á því eru engar skýringar, hvernig á þessum mismun standi, og í ljós hefur komið að félög á vegum stjórnmálaflokks voru á sama tíma í viðskiptum við þessa aðila. Þetta mál á auðvitað að afgreiða á þessum vetri, og jafnvel þó að einhverjum aðilum og þátttakendum í samtryggingarkerfinu verði ómótt þegar svona mál eru rædd, þá er það ekki nægileg ástæða til þess að ætla að bíða með málið til hausts, jafnvel þó að einhverjum finnist málið einkennilegt. (Gripið fram í.) Já, ég vil gjarnan að hv. þm. Friðrik Sophusson fái að hluta á ræðu mína fyrir næsta haust. Ég er ekki nægilega viss um að hann verði hér ef kosið verður í haust.

Sem sagt, ég er að gera aths. við dagskrá. Þessi vinnubrögð samtryggingarkerfisins, Kröflukerfisins, verðbólgukerfisins, sem hér á auðvitað fjölmarga fulltrúa, er ekki nokkur leið að meta mikils. Þetta mál þarf að ræða fyrir þinglausnir. Almenningur á heimtingu á að fá um það að vita, fá að vita um svör hæstv. iðnrh., svör þeirra annarra sem telja sig hafa eitthvað um þetta mál að segja. Slík upplýsingamiðlun til handa almenningi í landinu er að vera eitt af skylduverkum Alþingis, en ekki hitt: að taka óþægilegu málin og fresta þeim til hausts, jafnvel þó að einhver stjórnmálaflokkur eða einstaklingar telji sig hafa hag af slíkum vinnubrögðum. Ég sem þm. sem vakti athygli á þessu máli og bar fram spurningar um þetta mál get auðvitað ekki sætt mig við þessi vinnubrögð samtryggingarkerfisins. Ég vona að svo sé um fleiri hv. þm. — Þetta var um dagskrána.

Hér er til umr. frv. til l. um dómvexti. Það frv., sem er mikið framfaramál, var upphaflega flutt af hv. þm. Ellert B. Schram. Síðan fór það til allshn. Nd. og þar var gerð töluverð efnisleg breyting á frv. í fyllsta samráði við flm. Munurinn fólst aðallega í því, að í upphaflega frv. hv. þm. Ellerts B. Schram var gert ráð fyrir að dómkröfur væru verðtryggðar með hæstu innlánsvöxtum, sem auðvitað er mikil framför, en gengur þó hvergi nærri í hina fyllstu átt til verðtryggingar á dómkröfum. Þessi breyting var gerð af öllum nm. úr öllum fjórum stjórnmálaflokkum í allshn. Nd. Hér var um mjög verulega efnisbreytingu á máli að ræða, en þó vitaskuld haldið þeirri grundvallarhugsun sem fram hafði komið í frv. hv. þm. Ellerts B. Schram, enda var allt þetta unnið í miklu samráði. Nú gerist það, þegar málið er komið gegnum tvær umr. í Ed., að á milli 2. og 3. umr. fóru einhverjir misvitrir lögspekingar úti í bæ að hræra í nm. og töldu m. a. af eindæma hroka að frv. væri svo vitlaust, eins og það væri komið í gegnum fimm umr. á hv. Alþ., að eftir því væri ekki hægt að dæma. Nokkrir þm. beygðu sig fyrir þessum skilningi og frv. var breytt í hið upphaflega form. Hér var að minni hyggju gerð efnisbreyting á málinu, sem er mjög miður, vegna þess að það er ekki stigið nema eitt skref og langt frá því að það sé stigið til fulls. Hér er m. ö. o. um það að ræða að breyta því aftur í þá átt, að það eru aðeins hæstu innlánsvextir sem eiga að vera til verðtryggingar á dómkröfum. Nú vitum við það auðvitað, og ekki ætti að þurfa að segja það við þessa hv. stofnun, að vaxtastefna í landinu hefur verið með ýmsu móti á undanförnum árum, svo að ekki sé meira sagt. Það er mikið deilumál hvort vera skuli raunvextir eða lágvextir, og lögum samkv. er það háð ákvörðunum Seðlabanka Íslands. M. ö. o. breytingin gengur í þá átt, að það er verið að fela Seðlabanka Íslands að ákveða hversu dómkröfur skuli vera tryggðar. Það er hengt aftan í almenna vaxtastefnu í landinu. Þessi breyting hygg ég að sé til mikils skaða, því að tilgangur allra, bæði flm., allra nm. og ég er viss um nær allra þeirra sem greitt hafa þessu atkv., var sú einfalda meginhugsun, sem á sér siðferðilegar forsendur, að dómkröfur skuli verðtryggja að fullu.

Ég veit að það er oft þannig, aðallega þegar svona mikið er um að vera hér í þinginu, að menn greiða atkv. eins og mönnum sýnist í fljótu bragði vera skynsamlegt, átta sig ekki alltaf til fullnustu, treysta hver á annan. Það er ekki hægt að fara öðruvísi að, og auðvitað getur maður skilið mætavel að það er ekkert rangt við þetta. En þetta þýðir það, að mistök verða í afgreiðslu mála, og ég er sannfærður um að þegar rennur upp fyrir mönnum hvernig hér hefur verið breytt til, þá sjá menn að þetta eru mistök sem menn ætluðust ekki til að ættu sér stað. Hitt er svo annað mál, að það, að hv. alþm. skuli beygja sig fyrir lögfræðingum úti í bæ, sumum hverjum landskunnum kverúlöntum sem koma og halda því fram að þeir muni ekki dæma eftir lagagreininni ef hún er eins og hún er komin í gegnum fimm umr. á Alþ., slíkt eiga menn náttúrlega ekki að þola. Og menn jafnvel sem af „prinsíp“ — ástæðum segja að þeir séu sjálfir fullfærir til þess að setja lög um efnahagsmál, og ég nefni til mann sem situr nú á þingi, hv. þm., sem raunar er varamaður, þeir láti ekki Guðmund J. Guðmundsson segja sér fyrir verkum, þeir eiga vitaskuld að hugsa eins þegar um lögfræðinga og jafnvel landskunna kverúlanta er að ræða, láta þá ekki segja sér fyrir verkum og vera þar með sjálfum sér samkvæmir.

Kjarni málsins er sá, að hér hafa farið fram og átt sér stað dapurleg mistök, því að við vorum komnir langt með þetta mál. Ég er sannfærður um að það vakti fyrir flm., hv. þm. Ellert B. Schram, og fyrir a. m. k. allri allshn. Nd., sem vann þetta mál mjög ítarlega, að verðtryggja þetta að fullu. Svona slys eiga helst ekki að eiga sér stað í síðustu umr. um þetta mál. Það er dapurlegt. Og þau okkar, sem verða hér aftur næsta haust, ættu að sjá til þess að laga þetta mál í miklum flýti á nýjan leik og láta ekki menn úti í bæ segja sér fyrir verkum, menn sem eru, eins og augljóslega er í þessu tilfelli, verr til þess fallnir heldur en alþm. sem voru búnir að hleypa málinu þó þetta langt. Allt um það, það að fara að gera enn breytingar á frv. mundi jafngilda því að drepa málið. Ég kýs að tala mannamál. Það er ekki viturlegt þegar svo kann að vera að skammt sé eftir af þingstörfum, og vegna þess að svo er, þótt ég sé þeirrar skoðunar að þetta mál gangi ekki nærri nógu langt og hér hafi átt sér stað mikið slys í meðferð þess, þá verður víst gott að heita að sinni. Það verður ekki hjá því komist, og ég mun því fyrir mitt leyti ekki standa í vegi fyrir þessu máli, heldur greiða því atkv. En þetta fannst mér að yrði að koma hér fram.

Ég hóf mál mitt á því að gera aths. við dagskrá. Ég vona og veit, að jafnvel þó að allt samtryggingarkerfið eigi í hlut og vilji víkja sér undan því að svara spurningum, þá tekur hæstv. forseti ekki þátt í slíkum skollaleik. Hann lætur auðvitað dagskrá ganga hér fram svo sem honum ber. Það gera heiðarlegir menn í slíkum störfum. Og jafnvel þótt um það kunni að vera sérstakar óskir frá einhverjum mönnum í t. d. sérstökum stjórnmálaflokkum, að tiltekin mál séu hvíld svo að um þau verði ekki spurt og engu um þau svarað, þá hef ég fulla ástæðu til að ætla að hæstv. forseti taki ekki þátt í slíkum leikjum.

Ég hef fulla ástæðu til að ætla að forseti vilji láta umr. um ríkisreikning fara fram fyrir þinglausnir, hvenær sem þær eiga sér stað, því að annað væri ekki sæmandi. Og það sem meira er: almenningur í þessu landi á hinn fyllsta rétt á að fá svör við spurningum eins og þeim sem þjóðkjörinn þm. bar fram hér. Og almenningur á fyllsta rétt á því, að hæstv. ráðh. iðnaðarmála, sem ég undirstrika að sjálfur ber enga ábyrgð á þessu máli, heldur hafa örlögin hagað því svo að hann hefur nú yfirstjórn í þessu rn., — almenningur á einnig rétt á því að fá að heyra svör frá þessum hæstv. ráðh. Og það væri í fremsta og fyllsta máta ósvífni að ætla sér að beita slíkum aðferðum til þess að ríkisreikningurinn komi ekki til umr. á þessu þingi, freista þess að málið verði þæft og þæft og síðan svæft, sem er gamla aðferðin. Það er eitt af skylduverkum mínum hér, meðal annarra, og ætti að vera skylduverk okkar allra, að koma í veg fyrir að svona sé unnið og sjá til þess að sannleikur í hverju máli komi fram.