21.05.1979
Neðri deild: 95. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5162 í B-deild Alþingistíðinda. (4534)

19. mál, dómvextir og meðferð einkamála í héraði

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að spyrja hvort mér leyfist að tala um það mál sem hér er á dagskrá.

Það frv., sem hér er á dagskrá, var flutt af mér í upphafi þings og kveður á um að við dómsuppsögu geti dómari ákveðið svokallaða dómvexti sem miðist við, eins og sagði í upphaflega frv., jafnháa innlánsvexti og leyfilegir eru hverju sinni. Þetta frv. var flutt í þeim tilgangi að tryggja það að kröfur, sem væru til meðferðar hjá dómstólum landsins, héldu nokkuð verðgildi sínu enda þótt dráttur yrði á afgreiðslu eða dómsuppkvaðningu. Öllum er kunnugt um að það ástand hefur orðið nokkuð áberandi í þjóðfélaginu, að menn dragi viljandi eða neiti að greiða óumdeildar kröfur og láti þær ganga til meðferðar dómstóla í þeirri von að verðgildi þeirra krafna rýrni svo mjög á þeim tíma sem málið er til meðferðar að þeir, þ. e. skuldararnir, hagnist raunverulega á þessum drætti. Þetta ástand hefur auðvitað mjög dregið úr réttarörygginu og dregið úr því trausti sem á dómstólum á vitaskuld að vera á hverjum tíma í réttarríki. Ég held því að þetta mál hafi átt fullan rétt á sér, og ég vil við þetta tækifæri þakka hv. allshn. og formanni n. fyrir þann áhuga og þann stuðning sem n. hefur sýnt — og hann ekki síst — á því að þetta mál næði fram að ganga.

Hv. allshn. gerði á þessu frv. mínu breytingu sem er á þá leið, að í staðinn fyrir að heimila að dómvextir yrðu dæmdir eins og tilgreint er í frv., þá skyldi í stað þess miða við hækkun á byggingarvísitölu. Ég fyrir mitt leyti samþykkt þessa breytingu þegar nm. báru hana undir mig, enda var tilgangurinn sá hinn sami. Þarna gerði n. tilraun til þess að ganga enn lengra en í upphaflega frv. fólst og hafði ég ekkert nema gott um það að segja. Hins vegar, þegar þessi brtt. n. hafði verið borin fram og samþ., komu fram mótmæli frá mörgum reyndum dómurum hér í borg svo og lögmönnum, en það eru auðvitað þeir aðilar sem best þekkja til á þessum vettvangi, og mótmæli þeirra fólu það í sér, að ákvæðið, eins og það hljóðaði mundi verða nánast óframkvæmanlegt. Ég ætla ekki að fara að tíunda þau rök sem sett voru fram í því sambandi, en þegar ljóst var að málið ætti erfitt uppdráttar í Ed. af þessum sökum og hik var á allshn. Ed. og deildinni sem slíkri að ganga frá málinu í þessum búningi, þá varð að ráði að athuga þetta mál frekar. Till. var síðan lögð fram af hv. þm. Vilhjálmi Hjálmarssyni í samráði við mig og aðra lögfróða menn og samþ. í Ed., og nú er frv. komið aftur til okkar hér í Nd.till. er efnislega nokkurn veginn í sama dúr og upphaflega frv. var, þ. e. að í staðinn fyrir að miða við hækkun byggingarvísitölu er kveðið á um að dómarar skuli dæma dómvexti sem eiga að vera jafnháir hæstu innlánsvöxtum við innlánsstofnanir eins og þeir eru ákveðnir samkv. lögum á hverjum tíma. Þarna er sem sagt gerð mjög raunhæf tilraun til þess að dæma háa vexti og reyna þannig að nálgast það markmið að kröfur haldi nokkurn veginn verðgildi sínu frá því að stefnt er og til greiðsludags. Eftir atvikum hef ég ekkert við þessa brtt. að athuga.

Ég tek undir það sem hv. þm. Vilmundur Gylfason sagði, að ef verið er að krukka í þetta mál frekar núna, þá er hætta á að það dagi uppi. Ég held að það sé mikilvægt að þessi breyting verði gerð eins og hún liggur núna fyrir. Það mundi strax vera spor í rétta átt. Ég vona að deildin sé sömu skoðunar og að þetta mál falli ekki í gryfju þinglausnasamsærisins sem hv. þm. talaði um.