21.05.1979
Neðri deild: 95. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5163 í B-deild Alþingistíðinda. (4536)

19. mál, dómvextir og meðferð einkamála í héraði

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Út af því máli sem hér er til umr. um dómvexti, þá tek ég undir orð hv. þm. Vilmundar Gylfasonar um það, að það er bagalegt hvernig þessu máli hefur verið snúið og breytt í Ed., þar sem viðmiðun um vaxtakjör er breytt frá rauntryggingu til lægri vaxtaviðmiðunar. En að gefnu tilefni og varðandi þær umr. sem hér fóru fram um athugasemdir er hæstv. forseti lét falla úr forsetastól um að nú væru þinglausnir í nánd og að nauðsynlegt væri að velja og hafna málum á dagskrá vegna þess, að þakti honum sárt að þurfa að skilja eitt eða annað mál eftir, þá tel ég að nauðsynlegt sé að hafa um þetta frekari orð.

Það kann e. t. v. að vera rétt, að ekki séum við Vilmundur Gylfason þingvanir. En hitt held ég að sé einnig rétt, að við þekkjum til þess hvað eru eðlileg vinnubrögð og hvað eru óeðlileg vinnubrögð. Það er dálítið skrýtið, að sú venja skuli hafa skapast hér í þinginu, að með löngum fyrirvara er einhver einn dagur krossaður út í almanaki og þar sagt: Þingi skal lokið á þessum degi burtséð frá því, hvernig störfum miðar í þinginu, og burtséð frá því, hvernig málum hefur þokað. Síðan er það sett í vald forseta þingsins að velja þau mál, sem fram eiga að koma og hafna öðrum. Þetta tel ég óeðlileg vinnubrögð. Ég teldi fremur eðlileg vinnubrögð að fastsetja ekki þann dag sem þingið hættir störfum, heldur taka mið af því, hvernig störfum þingsins miðar, hvernig málum miðar í gegnum þingið, og taka mið af því þegar þingið hættir. Raunverulega á þingið að hætta af sjálfu sér þegar málin eru uppurin af dagskrá. Þarna væri einnig hægt að koma í veg fyrir þann flýti sem einkennir þingstörf mjög þessa dagana og eins og kom fram áðan, að menn vissu stundum hvorki upp né niður um það sem verið væri að samþykkja eða væri verið að fella. Þetta tel ég um of einkenna störf þingsins og tel það óeðlileg vinnubrögð og tel að aðrir gætu verið mér sammála um það.

Að lokum vil ég láta í ljós þá skoðun mína, að ekkert virðist enn þá hafa breyst í Kröflusamtryggingarmálum Alþb. og Sjálfstfl., og það er dálítið hjákátlegt eða kaldhæðnislegt að hugsa til þess, að þegar hv. fyrrv. þm. Ragnar Arnalds er hættur að hafa tækifæri til þess að verja félaga sinn og skoðanabróður, hv. þm. Sólnes, héðan úr ræðustól, þá skortir ekki varnaraðilana. Þá stígur í pontu hv. þm. Kjartan Ólafsson og tekur að sér það hlutverk að fylla það sæti sem skilið var eftir autt. Ég óska Kjartani Ólafssyni til hamingju með að taka að sér það hlutverk að vera postuli samtryggingarkerfisins, Kröflusamtryggingarkerfisins milli Alþb. og Sjálfstfl., og tel að hann geti verið ánægður með það hlutskipti — eða hitt þó heldur.