21.05.1979
Neðri deild: 96. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5173 í B-deild Alþingistíðinda. (4550)

298. mál, ríkisreikningurinn 1977

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það eru nánast örfá orð í tilefni af þeim umr. sem hér hafa farið fram. Ég vil fyrst láta í ljós þá skoðun, að það er mjög eðlilegt að umr. spinnist út af ríkisreikningi. Til þess er hann tekinn fyrir á Alþ. og afgreiddur þar og þess vegna mjög eðlilegt að um hann verði umr. Það hefur yfirleitt verið svo, að það hafa verið litlar umr. um ríkisreikning hér á Alþ., en að þessu sinni hafa orðið um hann verulegar umr. og er það að mínu mati mjög eðlilegt.

Í stuttu máli er þetta endurskoðunarkerfi þannig, eins og þm. þekkja, að endurskoðunarmenn ríkisreikninga eru kosnir af Alþ. og þeir endurskoða ríkisreikninginn. Þeir gera aths. við hann, sem hér er að finna, og gera rökstudda grein fyrir sínum aths. Þær eru síðan sendar til viðkomandi ráðh. Ráðh eða rn. svarar svo aths. yfirskoðunarmanna af sinni hálfu. Það má segja, að þetta séu svör framkvæmdavaldsins um það, hvernig framkvæmdavaldið hefur framkvæmt fjárlög sem Alþ. hefur samþykkt. Í því sambandi er rétt að vekja athygli á því, sem auðvitað liggur í augum uppi, að í okkar verðbólguþjóðfélagi er að mörgu leyti óhægt um vik að framkvæma fjárlög — ég vil segja með eðlilegum hætti, og það er eitt af mörgum atriðum sem til álita koma þegar fjallað er um skaðsemi verðbólgunnar.

Það þarf ekki að hafa um það mjög mörg orð í raun og veru, það liggur í augum uppi, að verðbólgan hefur truflandi áhrif á eðlilega framkvæmd fjárlaga, vegna þess að þær fjárveitingar, sem í mörgum tilfellum eru veittar t. d. til einstakra framkvæmda, duga skammt í verðbólguflóðinu, og það yrði í mörgum tilfellum til mikils tjóns fyrir ríkið ef menn skæru á framkvæmdirnar í miðjum klíðum. Þetta veldur auðvitað miklum erfiðleikum við framkvæmd fjárlaga í slíku óðaverðbólguástandi sem við höfum búið við undanfarin ár. Síðan þegar svör hafa borist frá framkvæmdavaldinu um aths.; gera yfirskoðunarmenn Alþingis tillögur við ríkisreikninginn og tilgreina þar sínar ástæður Þessar tillögur koma fram í ríkisreikningnum í mismunandi formi og mismunandi að efni til. Sumar eru þannig, að efnisatriði séu fullnægjandi, svar sé fullnægjandi. Aðrar eru þannig, að við svo búið megi standa, eins og varðandi Kröflu, einn liðinn í því máli, og síðan eru enn aðrar um að mál séu til athugunar: Ýmist til athugunar eða til athugunar framvegis.

Eitt af þeim málum, sem hér eru til athugunar, er mál sem hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Friðrik Sophusson, gerði að umræðuefni, skil á söluskatti Edduhótelanna. Hann kom inn á mál sem er þessu nokkuð skylt, þar sem er um að ræða mötuneyti á vegum ríkisins. Það er mál sem hefur að mörgu leyti þróast í óæskilega átt að mínu mati. Það er að verða þannig t. d. hér í höfuðborginni, að það er að verða ákaflega erfitt að reka eðlilegan og heilbrigðan veitingahúsarekstur. Honum hrakar hér í borginni stórlega, og það er m. a. vegna þess að sífellt eru að spretta upp ný og ný mötuneyti hjá ríkisstofnunum, þar sem menn fá mat keyptan fyrir miklu lægra verð en kostnaðarverð. (Gripið fram í.) Já, hún er neyðarúrræði. En það er ýmislegt sem kemur þarna inn í, þ. á m. kjarasamningar, og það leiðir til þessarar togstreitu. Ég álít að þetta sé í raun og veru mjög óheppileg þróun og muni, þegar tímar líða, ganga meira og minna af eðlilegri veitingahúsastarfsemi dauðri hér í borginni. Þess vegna held ég að ástæða sé til að athuga þessi mál. Þó að yfirskoðunarmenn tali að vísu sérstaklega um einn þátt, þar sem eru skil á söluskatti, þá er þetta þó skylt því máli sem hv. þm. Friðrik Sophusson gerði að umræðuefni og ég held að þurfi nánari athugunar við. T. d. hafa forráðamenn eða oddvitar félags veitingamanna hér í bænum komið að máli við mig í fjmrn. tvisvar síðan ég kom þangað og kvartað yfir því, að þeir telji sig ekki hafa í raun og veru eðlilega og heilbrigða aðstöðu til að keppa við þennan rekstur, sem ekki er eðlilegt, því að það er ekki hægt að keppa við hann á heilbrigðum grundvelli. (Gripið fram í.) Gerðu svo vel. Já, ég á nú sérstaklega við mötuneyti sem fulltrúar veitingamenn hafa rætt um. En það má vera að pöntunarfélögin hafi þarna einnig áhrif.

Varðandi málin að öðru leyti í heild held ég að ég hætti mér ekki inn í Kröflumálin. Ég hef rætt mikið um þau mál og um þau mál mætti mikið segja af ýmsu tagi. Ég hef ekki tekið mikinn þátt í umr. um þau frá byrjun. Það mætti margt um þau mál segja, en ég ætla ekki að ræða nánar um þau hér.

Ég vil aðeins að lokum víkja að því sem kom fram í máli hv. þm. Friðriks Sophussonar, að það kemur vissulega til álita að gera breytingar á því kerfi, sem við búum við, og færa endurskoðunina alfarið undir Alþ. Ég og minn flokkur erum fylgjandi því og höfum flutt frv., ég vil segja vandað frv., sem Halldór Ásgrímsson fyrrv. alþm. flutti hér í vetur þegar hann kom inn á þing sem varaþm. Hann hefur unnið það mál mjög vel og það á vissulega erindi inn í þingið. Ég held að það væri ráð að breyta þessu á þá lund, að ekki aðeins sérstaklega til þess kjörnir krítískir endurskoðendur séu kjörnir á Alþ., heldur að ríkisendurskoðunin heyri alfarið undir Alþ. sem stofnun, en ekki undir framkvæmdavaldið. Það er lógískara, vegna þess að framkvæmdavaldið á að framkvæma vilja Alþingis þar sem eru fjárlögin, og þá er auðvitað miklu lógískara að Alþ. sjálft hafi með höndum endurskoðun á því, hvernig þetta hefur verið framkvæmt, en að það heyri undir þann aðila sem framkvæmdir. Þess vegna vil ég hvetja hv. þm. — það eru því miður ekki margir hér viðstaddir, en þeir lesa nú kannske þingtíðindin þegar þau koma út og þá vil ég hvetja hv. þm. til að styðja þetta mál og gera þessar grundvallarbreytingar á endurskoðun ríkisreikninga.