21.05.1979
Neðri deild: 96. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5182 í B-deild Alþingistíðinda. (4553)

298. mál, ríkisreikningurinn 1977

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfáar aths. í lokin.

Hv. 7. þm. Reykv. talar mikið um samtryggingarkerfið, Kröflukerfið, verðbólgukerfið og allt í einni röð án þess að gera mikinn greinarmun eða fara með nokkurri lágmarksnákvæmni út í málin, segir sem svo, að honum þyki leitt að ég sé talsmaður fyrir öll þessi merkilegu kerfi hér. Ég læt mér slík orð í léttu rúmi liggja til eða frá, en það er aðeins varðandi það mál, sem við höfum deilt hér sem ég vil segja lítið eitt meira um.

Það var athyglisvert að í þessari löngu ræðu hv. þm. Vilmundar Gylfasonar mótmælir hann því ekki að sú tala, sem upphaflega útboðið snerist um, upphaflegur samningur var gerður um milli Rafafls Svf. og Kröflu, hafi hljóðað upp á 30 millj. Hann mótmælir ekki heldur þeirri staðreynd, að verkið hafi í reynd orðið þrisvar sinnum meira og þess vegna með fullkomlega eðlilegum hætti, af þeim ástæðum einum, hækkað kostnaðinn upp í 90 millj. Hann mótmælir því ekki heldur, að verðlag og kaupgjald í landinu hafi á þessum tíma — sem einnig er staðreynd — hækkað um a. m. k. 40% og þar með sé lokatalan, rúmlega 120 millj., sú eina eðlilega. Engu af þessu mótmælir hann, ekki staðreyndunum. En hann heldur áfram engu að síður að tala um það, að þarna sé þetta ákveðna fyriræki, Rafafl, að ganga í almannasjóði og misfara með almannafé: Þetta eru engar smáásakanir sem þarna eru bornar fram, og ég leyfi mér að halda fast við það, að þegar svo stórar ásakanir eru bornar fram, að einstaklingar eða fyrirtæki gangi í almannasjóði og sæki þangað þó ekki sé nema 100–200 millj., þá sé það lágmarkskrafa — a. m. k. til þm., látum vera með síðdegisblöðin, en til þm. — að færð séu rök að svo alvarlegri ásökun. Meðan það er ekki gert, meðan allar forsendur að baki þessari lokatölu: um fleiri verk en útboðið snerist um, um þá staðreynd að verðbólgan hafi verið þessi og launin hafi hækkað þetta, — meðan allar þessar forsendur eru viðurkenndar, en hinni sjálfsögðu afleiðingu af þeim forsendum og sjálfsögðum niðurstöðum er samt sem áður hafnað, þá er um að ræða málflutning sem ég verð að halda fram að sé með engu móti boðlegur. Og það er kannske mikið álitamál, hvort yfirleitt á að taka þátt í umr. þegar slíkur málflutningur er hafður uppi af hálfu mótaðila. Og hv. þm. gengur lengra. Hann dylgjar um það fullum fetum, að þarna hafi verið sótt fé í almannasjóði til að kaupa húseign hér í borginni af Þjóðviljanum. Það er ekki hægt að misskilja þau ummæli. Það er rétt, að við, sem gefum út Þjóðviljann, áttum í félagi húsið á Skólavörðustíg 19 þar sem blaðið hafði lengi haft bækistöð. Við seldum það og fluttum í annað húsnæði á árinu 1977. Þetta ákveðna fyrirtæki, Rafafl, kaupir hluta af þessu húsi fyrir verðmæti sem samsvaraði svo sem 2–3 íbúðum.

Það er reynt að gera það tortryggilegt, að þessi félagsskapur hafi haft bolmagn til að kaupa slíka húseign sem atvinnuhúsnæði, — fyrirtæki sem er langstærsti rafverktaki í landinu, langsamlega stærsti, og með 150 félagsmenn að baki. Það hefur ekki nokkrum einasta manni dottið í hug að nokkuð væri athugavert við það, þó einhver einn einasti rafvirkjameistari keypti atvinnuhúsnæði sem svaraði tveimur íbúðum. Hverjum hefði dottið í hug að hafa uppi dylgjur og ásakanir um pólitíska misnotkun enda þótt slík viðskipti hefðu átt sér stað? Ég held að það hefði varla hvarflað að hv. þm. Vilmundi Gylfasyni.

Er hann þá að halda því fram, að framleiðslusamvinnufélagið Rafafl hafi borgað eitthvað óeðlilega hátt verð fyrir þetta húsnæði? Hann sagði það að vísu ekki beinum orðum, en varla hefði hagnaðurinn fyrir Þjóðviljann verið nokkur nema um það hefði verið að ræða . En það liggur fyrir, að það verð, sem greitt var fyrir þetta ákveðna húsnæði, var a. m. k. ekki yfir markaðsverði á þeim tíma, og það veit hver maður sem það mál hefur kynnt sér hið minnsta. Þess vegna hlýt ég að segja það enn og aftur, að menn eiga ekki að leyfa sér málflutning af því tagi sem hv. þm. hefur iðkað í þessu máli, að ætla að draga fram dæmi, sem ekki er til, um fjárhagslega eða pólitíska spillingu í þjóðfélaginu. Ef menn hafa ekki önnur dæmi í þeim efnum, þá er engin spilling í þessu þjóðfélagi. Ef menn hafa ekki önnur dæmi um spillinguna heldur en þetta, þá ættu menn að vera fámálir í þeim sökum. Og við skulum einnig hafa það vel í huga, að ef menn ætla að halda uppi málflutningi af þessu tagi, þá eru menn að vinna alvarlegt tjón í baráttunni við þá stórkostlegu fjármálaspillingu sem í raun er fyrir hendi í þessu landi, þeir eru þá að skjóta langt fram hjá markinu. Það er ekki sök Rafafls að Kröflunefnd bauð ekki út hvern einstakan verkþátt þegar hann var fullhannaður. Það kemur fyrirtækinu Rafafli ekki nokkurn skapaðan hlut við, það er ekki þess mál.

Ég tók það fram áðan, að ég ætlaði ekki að hafa hér uppi málflutning af hálfu Kröflunefndar. Vafalaust má gagnrýna margt í hennar störfum, það dreg ég ekki í efa. En ef það á að vera sök eins fyrirtækis — hvort heldur það er Rafafl eða segjum að það hefði verið einhver einkaaðili í rafmagnsiðn — að leggja fram lægsta tilboðið og standa við það, því að það var staðið við það að því er þann verkþátt varðaði sem tilboðið fjallaði um, — ef það á að vera sök að leggja fram slíkt lægsta tilboð og ef það á síðan að teljast sök að verða við þeirri málaleitan að halda verkinu áfram á svipuðum forsendum og út frá því einingarverði sem í upphafi var reiknað með, þá verður niðurstaðan ósköp einfaldlega sú, að Kröfluvirkjun hafi verið svo hrapallegt fyrirtæki að hver sá, sem nokkur minnstu viðskipti átti við Kröflunefnd, af hvaða tagi sem er, skuli dæmast sakamaður. Rafafl gerir ekki annað en að standa við sitt lægsta tilboð og taka síðan að sér aukaverk sem til þess var leitað um. Það var ekki þess mál hvort þau voru boðin út eða ekki. Og ég vil vekja athygli á því, að það er einnig meginatriði í þessum efnum, að ef menn ætla að draga þá ályktun af málflutningi hv. þm. Vilmundar Gylfasonar, að það hefði kannske verið hægt að ljúka þessum raflögnum í heild, sem Rafafl annaðist fyrir Kröfluvirkjun, fyrir svo og svo miklu lægra verð en Rafafli var greitt, — einhver kynni að vilja draga þá ályktun af málflutningi hv. þm., — en fyrir því hefur hann ekki fært nokkur einustu rök, ekki snefil af rökum, og allar staðreyndir benda til þess, að einmitt vegna þess að tilboði Rafafls var tekið, sem var lægst, og einmitt vegna þess að Rafafli var falið að annast verkið áfram, aðra þætti þess, hafi þurft að greiða fyrir verkið það minnsta sem um var að ræða og minna en verið hefði í öllum öðrum tilvikum. En þetta virðist hv. þm. ekki sjá ástæðu til að líta á. Það vita auðvitað allir sem til starfsemi af þessu tagi þekkja, að það er alvanalegt að útboð séu ekki miðuð við hvern einasta verkþátt, heldur sé þeim, sem tekur að sérverulegan hluta verksins samkv. útboði, falið að annast aðra þætti án útboða. Slíkt er auðvitað aldrei æskilegt. Hinn kosturinn er betri, það tek ég eindregið undir. Hann er betri. Og ef við einhvern er að sakast í þeim efnum, þá er það varðandi þetta mál ekki Rafafl. Það er kannske að einhverju leyti við Kröflunefnd, en þó að sjálfsögðu fyrst og fremst við iðnrn. og við þá, sem þar höfðu forræði á þessum tíma að sakast, því að þaðan komu fyrirmæli um að flýta virkjuninni svo mjög að ekki var um neitt annað að ræða, ef eftir fyrirmælunum átti að fara, en að fara í útboð án þess að verkið væri fullhannað.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, en ég vil segja það, að enda þótt fáir hafi hlýtt á þessar umr. hér í kvöld, þá tel ég það þó betra upp á framtíðina að það liggi fyrir í þingtíðindum, að málflutningi af því tagi sem hv. þm. Vilmundur Gylfason hefur haft hér uppi, hafi ekki verið látið ósvarað.