22.05.1979
Sameinað þing: 101. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5187 í B-deild Alþingistíðinda. (4557)

274. mál, sala á bv. Fonti

Fyrirspyrjandi (Gunnlaugur Stefánsson):

Herra forseti. Það er nú alllangur tími liðinn síðan þessi fsp. var lögð fram hér á Alþ., en þessi fsp. er 274. mál þingsins á þskj. 562 og fyrst og fremst lögð fram til ríkisstj. eða forsrh. vegna sölu á bv. Fonti og hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Hefur ríkisstj. tekið ákvörðun um sölu á bv. Fonti? Ef svo er, hverjir eru þá kaupendur og hvaða ástæður liggja þeirri ráðstöfun til grundvallar?“

Nú hefur komið í ljós eða réttara sagt komið fram í fjölmiðlum, að bv. Fontur hefur verið seldur til Siglufjarðar af Ríkisábyrgðasjóði og kaupandi sé Ísafold hf. á Siglufirði. Þetta koma fram í fjölmiðlum og aðeins fáeinir dagar síðan Fontur undir nýju nafni: Siglfirðingur, sigldi inn á sína nýju heimahöfn. Eigi að síður er seinni hluti þessarar spurningar mjög knýjandi og ég óska skýrra svara um það, hverjar séu ástæður þess að skipið var selt til Siglufjarðar. Eins og öllum þm. er kunnugt eru allmargir skuttogarar fyrir á þessum stað og haft á orði, að e. t. v. sé Siglufjörður eini staðurinn á öllu landinu sem ekki þurfti ný skip til hráefnisöflunar, meðan aðrir staðir hafa verið í hráefnissvelti vegna þess að ekki eru nógu öflug skip og nógu mörg skip til á viðkomandi stöðum. En ég spyr forsvarsmann ríkisstj. um það fyrst og fremst, hverjar ástæður liggja þeirri ráðstöfun til grundvallar, að Fontur, sem nú heitir Siglfirðingur, var seldur til Siglufjarðar.