22.05.1979
Sameinað þing: 101. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5189 í B-deild Alþingistíðinda. (4559)

274. mál, sala á bv. Fonti

Fyrirspyrjandi (Gunnlaugur Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svör hans. Það kemur í ljós af svari hans, að ástæðan til þess að skipið var selt til Siglufjarðar var fyrst og fremst sú, að þar var sterkasti kaupandinn á ferðinni og sá kaupandi sem fyrst og fremst gat staðið í skilum við Ríkisábyrgðasjóð samkv. því sem fjmrh. segir. Ég verð eigi að síður að harma þessa ákvörðun, fyrst og fremst á þeim grundvelli að það eru önnur byggðarlög í landinu sem þurftu á þessu skipi að halda heldur en Siglufjörður. Ég skil það mætavel, að Siglufjörður þarf á hráefni að halda, en þar hefur fremur verið um umframhráefni að ræða á undanförnum missirum heldur en hitt.

Einnig verð ég að harma það, að þessi sjónarmið um að leita að sterkasta kaupandanum skuli vera höfð að leiðarljósi þegar verið er að dreifa svo mikilvægum hráefnisöflunartækjum um landið. Ef þessari stefnu ætti alfarið að fylgja, gæti maður séð í fljótu bragði hvar hráefnisöflunartækin, skuttogararnir, mundu safnast saman. Það er nefnilega einu sinni svo, að eitt byggðarlag í þessu landi; Suðurnesin, hefur verið í nokkru fjársvelti af hálfu fjárfestingarsjóða miðað við fyrirgreiðslur til annarra fyrirtækja í öðrum byggðarlögum í landinu á undanförnum árum, sem hefur gert það að verkum að rekstrarstaða fiskvinnslufyrirtækjanna og útgerðarfyrirtækjanna á Suðurnesjum er miklum mun bágbornari en gerist úti um land, fyrst og fremst vegna aðstöðumunar sem felst í mismunandi fyrirgreiðslu úr opinberum sjóðum til þessara atvinnugreina.

Það mátti lesa það úr orðum hæstv. fjmrh., að fyrst og fremst hafi verið um tvö tilboð að ræða sem tekist hafi á um að fá skipið, annars vegar tilboðið frá Ísafold og hins vegar frá Ísstöðinni í Garði. Einnig fylgdi það með, að rekstraraðstaða Ísstöðvarinnar hefði verið mun erfiðari en rekstraraðstað Ísafoldar á Siglufirði. Þess skal getið og upplýst hér, að mér er kunnugt um að Ísstöðin í Garði var fús til og hafði á prjónunum áætlanir um að því hráefni, sem bærist á land með þessu skipi, mundi verða miðlað til fleiri en tveggja eða þriggja frystihúsa á Suðurnesjunum og þannig vísir að samstarfi frystihúsa á Suðurnesjum um skipin og þann fisk sem berst á land úr skuttogurunum. Ef sú ákvörðun hefði verið tekin að gefa Suðurnesjamönnum kost á því að kaupa þennan skuttogara hefði það verið mikil lyftistöng fyrir Suðurnesin. Það hefði verið mikilvægt fyrir Suðurnesin að fá þetta skip og þar með hefði gefist svigrúm til þess að fleiri en einn og fleiri en tveir aðilar sameinuðust um skipið og það hráefni sem kæmi á land með því. Þess vegna verð ég að ítreka það, að ég harma þessa ákvörðun, og það væri ekki úr vegi að hv. þm. væri tjáð hverjir hefðu tekið þessa ákvörðun, hvort það er ríkisstj., sem hefur tekið þessa ákvörðun, eða hvort það eru einstakir ráðh. innan ríkisstj. eða einhverjir embættismenn, sem með þessi mál fara að öðru leyti.