13.11.1978
Efri deild: 13. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (456)

56. mál, Hæstiréttur Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Í réttarkerfi okkar skipar Hæstiréttur landsins mjög veigamikinn sess. Þarf ekki að fjalla um það ítarlega hér, hve mikilvægt er að þær breytingar, sem gerðar eru á skipan hans, séu vel grundaðar og ítarlega rökstuddar.

Hér hefur verið lagt fyrir deildina frv. til l., sem felur í sér fljótt á litið fjölgun hæstaréttardómara um einn í þeim tilgangi, eins og fram kom hjá hæstv. dómsmrh. og einnig hjá síðasta ræðumanni, að hraða afgreiðslu mála, sagt var að hér væri ekki um að ræða mikinn tilkostnað. Það er vissulega rétt, að hér er ekki um mikinn tilkostnað að ræða, en þó er hér stigið skref til breytinga á eðli Hæstaréttar sem ég held að sé nauðsynlegt að íhuga vandlega. Vissulega er það rétt, að mikla nauðsyn ber til að hraða afgreiðslu mála í dómskerfi landsins. En við skulum átta okkur á því, að krafan um hraða í þeim efnum getur orðið svo hávær og sterk að hún fari að brjóta ýmsar eðlilegar grundvallarreglur sem réttarkerfi landsins verður óhjákvæmilega að byggjast á ef við viljum halda í heiðri þau höfuðeinkenni réttarríkis á Íslandi sem við teljum til höfuðþátta lýðræðis okkar.

Í þessu frv. er stigið það skref, að Hæstarétti er í reynd skipt í þrenns konar dómstóla. Það er í fyrsta lagi dómurinn fullsettur með sjö dómendum, í öðru lagi dómurinn skipaður fimm dómendum og svo í þriðja lagi skipting dómsins í þriggja dómenda kerfi, sem er ætlunin að sé í reynd tvöfalt til þess að hraða afgreiðslu mála. Hér er opnuð sú leið, að dómendum í Hæstarétti eru skapaðir margvíslegir möguleikar til þess að meta mikilvægi mála og skipa þeim og sjálfum sér í forgangs- og mikilvægisraðir, eftir því hver málin eru hverju sinni.

Nú er það alkunna, að innan Hæstaréttar Íslands sem og hliðstæðra dómstóla í öðrum réttarkerfum okkar skyldum myndast oft og iðulega meiri og minni hluti í dómstólnum. Þar að auki vill svo bera við, þegar litið er til lengri tíma, að innan slíkrar stofnunar myndast ákveðnir skólar túlkunar, sem geta verið oft og tíðum nokkuð andstæðir, jafnvel innan sama dómstólsins, og bjóða upp á andstæður í úrskurðum og túlkunum sem geta valdið margvíslegum spurningum í öðrum þáttum dómkerfisins. Í ýmsum öðrum stjórnkerfum, eins og hinu bandaríska, hafa slíkar meiri- og minnihlutamyndanir innan hæstaréttar haft afgerandi áhrif á þjóðfélagsþróunina. Túlkun laganna fær þá á sig þann blæ, að andstæðir skólar takast á innan dómstólsins sjálfs um það, hver eigi að vera hin rétta túlkun hverju sinni.

Þegar við stigum svo mikilvægt skref sem að mínum dómi felst í þessu frv. skapar það að vissu leyti ýmiss konar hættur og þá þurfa að fylgja því um leið ítarlegar reglur um þá starfshætti sem eiga að þróast innan dómstólsins, miðað við þær þrjár tegundir hans, sem honum er gert með þessu frv. mögulegt að skipta sér í. Nú er að vissu leyti hægt að svara hér til, að þar skuli byggja á venju og þar skuli byggja á þeim starfsháttum, sem dómararnir sjálfir fylgi. Ég held hins vegar að þegar Alþ., löggjafarvaldið, fer inn á þá braut að breyta eðli æðstu stofnunar dómsvaldsins á þann hátt sem hér er gert, þótt í fyrstu virðist frekar smávægilegt, eins og kom fram bæði hjá hæstv. dómsmrh. og hv. síðasta ræðumanni, þá er ég þeirrar skoðunar, að þingið þurfi að gefa sér góðan tíma til þess að skoða hvaða reglur eigi að gilda um þá starfshætti, sem dómnum ber að fylgja eða hann ætlar sér að fylgja miðað við þá skiptingu sem hér kemur fram.

Eins og frv. ber með sér er greinilega lagt til grundvallar mismunandi mat á mikilvægi þeirra mála, sem rétturinn fær til umfjöllunar. Eins og ég gat um áðan, eru þess fjölmörg dæmi, bæði úr hérlendu stjórnkerfi og erlendum, að í slíku mati geta þróast mjög andstæðir skólar. Ég held að það sé réttarkerfi landsins ekki til farsældar, þótt vissulega beri að skoða alvarlega nauðsynina á því að hraða meðferð mála þar eins og frekast er unnt, að við í nafni þeirrar nauðsynjar förum að gera þær breytingar á æðsta dómstól landsins, að það verði á næstu árum e.t.v. verulegur vafi og jafnvel deilur um það með hvaða hætti dómurinn eigi að starfa, þegar eðli hans er breytt á þennan hátt.

Ég vil taka það skýrt fram, að ég er ekki með þessum orðum mínum að leggjast í sjálfu sér gegn þessari breytingu. Ég vil leggja sérstaka áherslu á það. Ég tel hins vegar að hér sé um stærra mál að ræða en mér fannst koma fram í málflutningi hæstv. dómsmrh. og hv. síðasta ræðumanns. Ég held þess vegna að það þurfi ítarlegrar skoðunar við hér í þinginu. Þótt ég skilji vel kröfuna um betri starfshætti í dómstólakerfi þjóðarinnar, þá eru þar margar aðrar leiðir e.t.v. árangursríkari og einfaldari í framkvæmd en sú sem hér er lögð til, einkum og sér í lagi þegar það er haft í huga, eins og kom fram hjá hæstv. dómsmrh., að það gæti svo farið að innan tíðar þyrfti að fjölga enn frekar í réttinum, þ.e.a.s. Hæstarétti, ef ekki yrði gerð sú breyting á meðferð dómsmála sem lögð hefur verið til á undanförnum árum með nýju dómstigi. Ef svo er, að það séu uppi hugmyndir um að fjölga enn frekar í Hæstarétti á næstu árum, ef nýju dómstigi verður ekki bætt inn í dómstólakerfi landsins, þá erum við hér að fást við breytingu sem kann að vera ansi afdrifarík og skapa fordæmi um störf réttarins um ókomna framtíð. Ég tel þess vegna nauðsynlegt að Alþ. gefi sér góðan tíma til þess að huga að þessu máli, bæði í tengslum við eðli þess réttarkerfis, sem við viljum búa við, og til þess að upplýsa ítarlega hvaða starfsreglur eiga að gilda innan réttarins með þeirri nýju skipan, sem hér eru lögð til, og hvaða leið er hér opnuð með því að leysa afgreiðsluvandamálið í dómstólakerfinu einfaldlega með því að fjölga dómendum og brjóta hin einstöku dómstig upp í mismunandi sjálfstæða dómstóla í reynd.

Ég vildi við 1. umr. þessa máls láta þessi sjónarmið koma fram, einkum og sér í lagi vegna þess hve mikil áhersla var á það lögð að hraða þessu máli.

Ég vil svo að lokum vekja athygli á því, að í frv. er auk þess lagt til að áfrýjunarupphæð hækki úr 25 þús. kr. í 200 þús. kr. Rökstuðningur þessarar hækkunar er nokkuð óljós í grg. frv. þar eð á einum stað er sagt að hér sé mun meiri hækkun en nemur breytingum á kaupgjaldi og verðlagi frá árinu 1973, en á öðrum stað er sagt að þessi breyting sé að nokkru leyti til samræmis við breytt kaupgjald og verðlag. Óneitanlega slær það mig þannig, að hér sé stigið ansi stórt skref til hækkunar, og ég tel, einkum og sér í lagi í ljósi þeirrar óljósu röksemdafærslu sem kemur fram í grg. frv., að hér sé e.t.v. of langt gengið. Ég tel þess vegna einnig nauðsynlegt að þetta atriði sé skoðað, þó að ég sé þeirrar skoðunar að hin ákvæðin í þessu frv., sem fela í sér að mínum dómi nokkuð veigamikla breytingu á eðli Hæstaréttar, þurfi allítarlega skoðun hér í meðferð þingsins.