22.05.1979
Sameinað þing: 101. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5191 í B-deild Alþingistíðinda. (4562)

297. mál, rekstrarlán til sauðfjárbænda

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Fyrsta spurning hv. þm. er: „Hvað hafa rekstrarlán til sauðfjárbænda undanfarin 8 ár numið stórum hluta hvert ár um sig af skilaverði við upphaf sláturtíðar fyrir heildarfjölda sláturfjár haustið eftir að lánin voru veitt?“

Ég hef hér í höndunum töflu yfir þetta, sem sýnir í fyrsta lagi heildarverðmæti sauðfjárafurða, í öðru lagi rekstrarlán til sauðfjárræktar og síðan rekstrarlán í hundraðshluta af afurðaverðmæti. Árið 1971 var heildarverðmæti sauðfjárafurða 1 milljarður 465 þús., rekstrarlán 292. 1 millj. og hundraðshluti 19.9. 1972 var heildarverðmætið 1 milljarður 983 þús., rekstrarlánin 345.3 millj. og hundraðshlutinn því 17.4. 1973 var heildarverðmæti 2 milljarðar 840.4 millj., rekstrarlán 450.8 millj. og hlutfallið þá 15.9. 1974 var heildarverðmætið 4 milljarðar 165.5 millj., rekstrarlánin 618.9 millj. og hundraðshlutinn þá 14.9. Það hefur sem sagt farið stöðugt lækkandi öll þessi ár. 1975 var heildarverðmæti sauðfjárafurða 6 milljarðar 564.4 millj., rekstrarlánin 1 milljarður 150.2 millj., hlutfallið þá 17.5. Það ár voru rekstrarlánin nálægt því tvöfölduð. 1976 var heildarverðmætið 7 milljarðar 987.6 millj., rekstrarlánin 1 milljarður 547 millj. og hundraðshlutinn þá 19.4. 1977 var heildarverðmætið 11 milljarðar 400.6 millj., rekstrarlán 1 milljarður 987.1 millj. eða hundraðshlutinn 17.4. Og 1978 eru bráðabirgðatölur yfir heildarverðmæti sauðfjárafurða, þar sem endanlegt söluverðmæti liggur ekki fyrir, 19 milljarðar 200 millj., rekstrarlán til sauðfjárræktar 2 milljarðar 713.5 millj. eða hundraðshlutinn 14.1.

Hér eru verðmæti rekstrarlána, sem ákveðin eru að vori, borin saman við verðmæti sauðfjárafurða að hausti. Svo sem taflan sýnir og ég benti á, fóru rekstrarlán til sauðfjárræktar lækkandi að verðgildi frá árinu 1971 til ársins 1975, en þá voru hin almennu rekstrarlán tvöfölduð, úr 226 millj, kr. í 453 millj. kr.

Auk hinna svonefndu rekstrarlána hefur landbúnaðurinn fengið fyrirgreiðslu hin seinni ár við að Áburðarverksmiðja ríkisins hefur veitt gjaldfrest á áburði til sláturleyfishafa, búnaðarfélaga og verslunar. Sláturleyfishafar fá gjaldfrest á 50% þess áburðar sem er tekinn á þeirra vegum hvert vor fram til 15. nóv. með ávísun á væntanleg afurðalán sem eru veitt vegna birgða af sauðfjárafurðum. Verslanir og búnaðarfélög eiga hins vegar að hafa lokið uppgjöri áburðarverðs í ágúst — sept. Gjaldfrestur á vanskil vegna áburðarkaupa var eftirfarandi árin 1975–1978 við mánaðamótin ágúst — sept.: Árið 1975 rúmlega 1 milljarður kr., 1976 1 milljarður 436 millj., árið 1977 1 milljarður 678 millj. og árið 1978 2 milljarðar 456 millj. Árið 1975 var áburðarverð einnig greitt niður úr ríkissjóði um 752 millj. kr. Sé reiknað með að um 40% þessara fjármuna fari til fyrirgreiðslu sauðfjárræktar í landinu má reikna fyrirgreiðsluhlutfall á afurðaverðmætum 5–11% hærra. en í fyrrnefndri töflu, þ. e. a. s. fyrir árin 1975–1978. Á þessu ári er áætlað að rekstrarlán til landbúnaðar hækki um 42.4% frá s. l. ári. Upphæð þeirra yrði þá um 3.8–3.9 milljarðar kr.

Hvert afurðaverðmæti sauðfjár verður n. k. haust er ekki vitað. Þar eru óvissuþættir stórir, bæði framleiðslumagn og verðlagshækkanir frá því sem er í dag.

Svo sem horfir í dag er ekki ástæða til að áætla meiri framleiðslu sauðfjárafurða að hausti en á s. l. hausti. Sauðfé hefur fækkað um 0.6% í landinu og veðurfar er með einsdæmum óhagstætt, eins og allir þekkja, og mun tvímælalaust hafa verulega áhrif þar á . Frá s. l. hausti og þar til nú, á hálfu ári, hefur verð sauðfjárafurða hækkað um 13.1%. Verð sauðfjárafurða á heilu ári fram til dagsins í dag hefur hækkað um 46%. Hvort hækkun sauðfjárafurða frá s. l. hausti fram á næsta haust verður meiri eða minni en hækkun rekstrarlána, 42.5%, er ófyrirsjáanlegt. Hins vegar hækkar búvöruverð að öllu jöfnu mest við haustverðsákvörðun, þar sem sumir rekstrarkostnaðarliðir eru einungis teknir þá til endurskoðunar og aðalsamningar um búvöruverðið fara þá einnig fram. — Þetta er svar við 1. lið.

Síðan er í 2. lið spurt: „Hverjar eru núgildandi reglur í þessum efnum og hver má ætla að verði í ár breytingin frá fyrra ári hvað varðar upphæð rekstrarlána sem hlutfalls af skilaverði við upphaf sláturtíðar á komandi hausti?“

Seinni hlutanum hef ég einnig reynt að svara og þar er, eins og fram kom í svari mínu, mjög mikil óvissa og ekki unnt að gefa ákveðnar hundraðstölu, en ég vil hins vegar lesa hér upp úr bréfi frá Seðlabankanum, dags. 14. maí 1979, með leyfi forseta:

„Í janúar s. l. ákvað bankastjórn Seðlabankans að lækka endurkaupahlutfall allra afurða- og rekstrarlána um 3 prósentustig eða sem svaraði 5.7%. Tildrög þessarar ákvörðunar voru m. a. hin mjög svo óhagstæða þróun hlutfallsins milli endurkeyptra lána og bundins fjár, sem átt hafði sér stað undanfarin ár, og önnur þróun peningamála sem gekk í sömu átt, og er þar einkum átt við mikla skuldasöfnun ríkissjóðs í Seðlabankanum. Jafnframt var viðskiptabönkunum tilkynnt, að út frá því væri gengið að þeir ykju lán sín til atvinnurekstrarins að sama skapi og endurkaupin lækkuðu. Þetta ber að hafa í huga þegar rætt er um lán til atvinnuveganna, sem Seðlabankinn endurkaupir. Þegar rekstrarlán til landbúnaðar voru ákveðin í mars s. l. var að sjálfsögðu tekið tillit til þess, sem hlaut að leiða til lægri endurkaupa en ella. Samt var niðurstaðan sú, að meðalhækkun endurkeyptra rekstrarlána, og eru þá talin með fóðurbirgðalán, var 38.3%. Þessu til viðbótar koma svo uppgjörslán til sauðfjárbænda, sem þegar hafa verið greidd út að hluta, en koma til endanlegrar útgreiðslu í lok þessa mánaðar. Hækkun á þeim er væntanlega um 47.6% miðað við áætlaðar birgðir 1. mars. Alls verður því hækkun þeirra lána, sem geta flokkast undir rekstrarlán, 42.5% (eins og kom reyndar fram í því sem ég las upp áðan).

Við ákvörðun endurkaupa rekstrarlána hefur það um alllangt skeið verið meginregla að hækka heildarupphæð lánanna um svipað og grundvallarverð hefur hækkað frá árinu áður. Ekki hefur verið tekið tillit til breytinga á stærð sauðfjárstofnsins, hversu mikið slátrað hefur verið næstliðið haust, enda verða ekki miklar breytingar þar á frá ári til árs, en aftur á móti hefur við niðurdeilingu lánanna á sláturleyfishafa verið miðað við tölu dilka, svo að skipting yrði sem jöfnust. Hins vegar hefur orðið aukning á rekstrarlánum við það, að tekin hafi verið upp á undanförnum árum lán, sem eru sama eðlis og rekstrarlánin, en í öðru formi og er hér um þrenns konar lán að ræða. Fyrst eru það svokölluð viðbótarrekstrarlán til bænda á þeim svæðum þar sem sauðfjárbúskapur er stundaður að meiri hluta, þá eru fóðurbirgðalán, sem eru til bænda á Norður- og Austurlandi vegna hafíshættu, og loks uppgjörslán, en þar er tekið tillit til raunverulegra birgða.“

Ég sé ekki ástæðu til þess að lesa meira, því að sumt af því er komið fram í því sem ég sagði áðan. En ég vildi að þetta, sem ég hef nú lesið, kæmi fram um afstöðu Seðlabankans. Ég gat um það áðan, að 1979 verða lánin, þau sem flokkast undir rekstrarlán, samtals um 3 milljarðar 585 millj. kr., en 1978 var upphæðin 2 milljarðar 512 millj. kr.

Út af síðustu spurningu hv. þm., um hvað ríkisstj. hyggist gera, verð ég eiginlega að vísa henni að nokkru leyti til hv. þm., því að eitt af mínum fyrri verkum sem landbrh. var að skipa n. til að athuga bæði afurða- og rekstrarlán í landbúnaði. Gerði ég það með tilvísun til þess ákvæðis í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj. sem hv. þm. vísaði til áðan. Fyrsti fundur í þessari n. var haldinn 26. okt. Í n. eiga sæti Vilhjálmur Hjálmarsson, sem er formaður n., Magnús Jónsson bankastjóri, Árni Gunnarsson alþm., Kjartan Ólafsson alþm. Sveinn Jónsson frá Seðlabanka Íslands, Helgi Bergs bankastjóri, Gunnar Guðbjartsson frá Stéttarsambandi bænda og Geir Magnússon frá Sambandi ísl. samvinnufélaga. Ég mætti á þessum fyrsta fundi n. og gerði henni grein fyrir þeim verkefnum sem henni voru ætluð. Ég tel að n. hafi unnið vel. Þetta mál er margslungið og flókið og hún lagði þegar í des. fram till. um fyrri þátt þessa máls, sem má segja að varði það að sauðfjárbændur fái 90% útborgað fyrir áramót. Ég lagði þá fyrir ríkisstj. till. sem er svo hljóðandi með leyfi forseta:

„Með tilvísun til þess ákvæðis í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj., að bændur geti fengið laun sín greidd og óhjákvæmilegan rekstrarkostnað eins og aðrir aðilar fá nú, skipaði ég í lok okt. nefnd til þess að gera till. um fyrirkomulag á greiðslu vegna landbúnaðarafurða. Fyrsti áfangi nál. fylgir hér með. Á grundvelli þeirra hugmynda sem þar koma fram, geri ég hér með till. um eftirgreint fyrirkomulag á greiðslum vegna landbúnaðarafurða:

1. Fullgildir verðábyrgðarreikningar til ríkissjóðs vegna útflutnings á landbúnaðarafurðum verði greiddir mánaðarlega og óháð verðlagsári landbúnaðarafurða, þótt heildarupphæð sé gerð upp í lok hvers verðlagsárs. Skv. því verður á fjárl. gert ráð fyrir upphæð til greiðslu útflutningsbóta vegna útflutnings á síðustu 8 mánuðum fyrra verðlagsárs og 4 fyrstu mánuðum nýs verðlagsárs. (Er hér vísað til þess, að verðlagsár landbúnaðarins endar í lok ágúst og þar hefur alltaf skarast að vissu leyti.)

2. Ríkissjóður greiði af niðurgreiðslu á uppbótafé vaxta- og geymslugjald á kindakjöti í lok hvers mánaðar samkv. þeim birgðum sem staðfest er að hafi verið í upphafi mánaðarins samkv. birgðaskýrslum sláturleyfishafa.

3. Ríkisstj. beinir þeim tilmælum til Seðlabanka Íslands að hraða verði afgreiðslu á uppgjörslánum til sláturleyfishafa, þannig að unnt reynist að hækka útborgunarhlutfall til bænda í 90% á haustgrundvallarverði.“

Þessar till. verða samþ. í ríkisstj. og a. m, k. tveir fyrstu liðirnir eru komnir til framkvæmda og hefur útflutningsbótagreiðslu og greiðslu vaxta- og geymslukostnaðar verið hagað þannig síðan og jafnframt verið til þess mælst hjá Seðlabanka að hann flýti uppgjörslánum, sem hann mun hafa gert að nokkru leyti nú, en kemur fyrst og fremst til framkvæmda á næsta ári.

Síðan hefur n. unnið að öðrum áfanga, sem fjallar um rekstrarlánin. Ég hef fylgst með því starfi og ég geri ráð fyrir till. frá n. mjög fljótlega um það. Ég vil jafnframt geta þess, að ég hef beint því til n. að skoða afurða- og rekstrarlán vegna ýmissar annarrar framleiðslu landbúnaðarafurða, sem hefur ekki notið þeirrar fyrirgreiðslu í dag, og eru það ýmsar aukabúgreinar. Mér er kunnugt um að n. fjallar um það mál, og ég mun þegar taka það til meðferðar og afhenda ríkisstj. þegar þær till. liggja fyrir.