22.05.1979
Sameinað þing: 101. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5194 í B-deild Alþingistíðinda. (4563)

297. mál, rekstrarlán til sauðfjárbænda

Fyrirspyrjandi (Kjartan Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir svörin við þeim fsp. sem ég hafði til hans beint. Þau svör voru út af fyrir sig skýr og upplýsandi að vissu marki. Ég vil þó vekja hér athygli á ákveðnu vandamáli sem ekki kom nægilega skýrt fram að mínum dómi í máli hæstv. ráðh. Er þess að vænta, að þau rekstrarlán, sem sauðfjárbændur fá á þessu ári, haldi verðgildi sínu miðað við síðasta ár? Hæstv. ráðh. upplýsti, að heildarhækkunin milli ára væri 42.5% frá 1978–1979, og vitnaði í þessum efnum í upplýsingar Seðlabankans. Ég dreg ekki í efa að þessi tala sé rétt miðað við þær forsendur sem hún er byggð á. En hér er á það að líta, að á síðasta hausti var slátrað 59 þús. fleiri dilkum en haustið 1977, og vegna þess að hér er ekki tekið tillit til þeirrar fjölgunar mun það vera óyggjandi staðreynd, að lánið út á hvern sláturdilk á s. l. hausti, sem hver bóndi fær, hefur aðeins hækkað út á hvern dilk um 33.5% á sama tíma og verðlagsgrundvöllurinn hefur hækkað um 46%. Hins vegar tók hæstv. ráðh. fram, að samkv. upplýsingum Seðlabankans hafi það lengi verið regla að hækka rekstrarlánin svipað og verðlagsgrundvöllurinn hækkaði milli ára.

Hér er komið allverulegt bil á milli, ef spurt er um rekstrarlán út á hvern sláturdilk á síðasta hausti, þar sem verðlagsgrundvöllurinn hefur hækkað um 46%, en rekstrarlánin eingöngu um 33.5%. Af þessu leiðir óhjákvæmilega, ef ekki verður gerð breyting á, beina kjaraskerðingu fyrir bændastéttina til viðbótar við allt annað sem yfir hana dynur á þessu vori. Ég tel að ef ekki verði gerð í þessum efnum leiðrétting sé niðurstaðan í fullkominni andstöðu við þá setningu í málefnasamningi eða samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna sem ég vitnaði til þegar ég flutti fsp. mína. Og ég skal reyndar láta þess getið, vegna þess að hæstv. ráðh. vísaði að nokkru leyti til mín, eða þeirrar n. sem hann gat um og ég á sæti í, varðandi svör við 3. lið fsp. minnar, að þannig vill nú til að í þessari n. undirrituðum við einmitt nú í morgun, — það er hrein tilviljun að það skuli bera upp á sama dag og hæstv. ráðh. svarar þessari fsp., — en í morgun undirrituðum við einmitt till. okkar til hæstv. ráðh., og þær ganga út á það að þessi mismunur verði leiðréttur þannig að bændur fái á þessu ári a. m. k. rekstrarlán sem séu að verðmæti jafngildi út á hvern dilk og þau voru á síðasta ári. Ég legg af minni hálfu og ég hygg þeirra, sem í þessari n. hafa starfað, mjög mikla áherslu á að ríkisstj. sjái sér fært að tryggja þessa breytingu, og skírskota ég þar ekki síst til hinna almennu erfiðleika sveitafólksins sem ekki þarf að lýsa úr þessum ræðustól í dag.

Ég vil enn fremur, áður en ég lýk mínu máli, vekja athygli á því, að verð á meðaldilk er talið 1. mars s. l. vera 19 652 kr., en meðalrekstrarlán samkvæmt núgildandi reglum, sem Seðlabankinn setti í síðasta mánuði, út á hvern dilk er hins vegar aðeins 1833 kr. eða komið niður fyrir 10% af verðmæti dilksins. Þetta er þróun sem að mínu viti er með engu móti hægt að una við og síst af öllu meðan í landinu situr ríkisstj. sem hefur það á stefnuskrá sinni að tryggja bændum það, að þeir geti, eins og það er orðað, fengið laun sín greidd og óhjákvæmilegan rekstrarkostnað svipað og aðrir aðilar fá nú. Það er augljóst, að þegar raungildi lánanna fer lækkandi, jafnmikilvæg og þau eru í búrekstrinum, kemur það í flestum tilvikum með beinum hætti niður á launum bóndans, því sem eftir er þegar hann er búinn að greiða rekstrarkostnaðinn, því sem honum er þá ætlað að halda eftir sem launum. Það er sá þáttur sem skerðist, því að rekstrarkostnaðinn hefur bóndinn ekki með góðu móti í sínu valdi að skera niður, nema hann sé þá um leið að skapa sér í flestum tilvikum minnkandi tekjur á næsta ári og næstu árum.

Tímans vegna sé ég ekki ástæðu til að orðlengja öllu frekar um þessi mál, þó að vissulega hefði getað verið ástæða til að segja hér margt fleira. En ég vil ljúka þessu með því að láta þá ósk í ljós, að hæstv. ríkisstj. og hæstv. landbrh. líti með velvilja á þær ábendingar, sem ég hef hér sett fram, og geri ráðstafanir, sem dugi til að tryggja bændum hvað þetta varðar ekki lakari hlut en á síðasta ári. Auðvitað þyrfti hlutur þeirra í þessum efnum þvert á móti að verða betri, ég tala nú ekki um ef svo á að fara að hið háa Alþ. komist að þeirri niðurstöðu og það verði endanleg niðurstaða hér, að því verði synjað að útvega nokkurt fé til að mæta þeim erfiðleikum sveitafólks sem stafa af offramleiðsluvandamálinu.