22.05.1979
Sameinað þing: 101. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5195 í B-deild Alþingistíðinda. (4564)

354. mál, símamál

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Fyrir nokkrum dögum barst sú fregn og kom reyndar fram í dagblöðum borgarinnar, að Póstur- og sími hefði gert pantanir á tækjabúnaði til þess að mæla lengd innanbæjarsamtala. Var þess þá getið, að þar væri sérstaklega átt við Reykjavík og nágrenni. Þetta kom flestum nokkuð á óvart, og að sjálfsögðu virðist þarna stefnt að því að setja upp slík tæki til þess að hækka afnotagjöldin hjá þeim sem þessi tækjabúnaður nær til. Hefði maður þó haldið að frekar væri ástæða til þess að gera tilraun til að lækka símaafnotagjöld, en ekki hækka þau. En hvað um það, ég lagði fram fsp. til hæstv. samgrh. á þskj. 526 til þess að fá staðfestingu á þessum fregnum. Því frekar var þessi fsp. borin fram þar sem mér er ekki kunnugt um að nein heimild hafi verið á fjárl. til að stofna til slíkra kaupa. Fsp. hljóðar svo:

„1. Er það rétt, að Póstur og sími hafi pantað tækjabúnað til að mæla lengd innanbæjarsímtala?

2. Ef svo er, hvað kostar sá búnaður, bæði í innkaupi og uppsetningu?

3. Hvar á að nota þennan tækjabúnað?

4. Hverjar eru áætlanir Pósts- og síma um tekjur af þessari ráðagerð?“