13.11.1978
Efri deild: 13. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

56. mál, Hæstiréttur Íslands

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þann stuðning, sem hefur komið fram við þetta mál, og stend fyrst og fremst upp til að leggja á það áherslu, að að sjálfsögðu verður málið vandlega athugað í nefnd.

Ég get tekið undir það með hv. 3. landsk. þm., að hér er um allstórt mál að ræða. Hins vegar hygg ég að hann hafi e.t.v. gert einum of mikið úr, ef ég má orða það svo, samanburði við hæstarétt Bandaríkjanna, sem ég tel að sé nokkuð langt sótt. En sjálfsagt er að læra af því sem aðrar þjóðir hafa gert í þessu sambandi.

Ég vil sérstaklega taka undir það með hv. 3. landsk. þm., að ekki má hlýða svo á kröfuna um meiri hraða í málsmeðferð að það bitni á þeirri leið sem réttarríki verður að fara. Þetta er ákaflega mikilvægt atriði. Ég hef orðað það annars staðar svo, að ég fyrir mitt leyti vil heldur að tíu sekir gangi lausir en einn saklaus lendi í fangelsi. Ég vil því undirstrika það sem fram kom hjá hv. þm.

Hitt er svo annað mál, eins og kom fram í framsöguræðu minni, að æðimikið álag er orðið á réttinum. Mjög mikið af málum liggur þar fyrir og nánast er vonlaust, sérstaklega í einkamálum, að málsmeðferð taki skemmri tíma en eitt ár. Er reyndar þegar farið að líða á annað ár áður en mál eru dæmd. Þetta er of langur tími að mati allra þeirra sem um þessi mál hafa fjallað.

Ég vil taka það fram, að ég hef átt ítarlegar viðræður við hæstaréttardómara um þetta mál og þar er einhugur um þær breytingar, sem hér eru lagðar til og miða að því að stytta þennan tíma, sem ég hef nú nefnt og ég rakti reyndar áðan í framsöguræðu minni.

Hv. þm. taldi að hér væri nánast verið að skipta Hæstarétti í þrenns konar dóma. Ég vil ekki taka svo til orða. Ég vek athygli á því, sem reyndar kom fram í ræðu hans að samkv. frv. er það á valdi dómsins sjálfs hvernig hann starfar. Hv. þm. taldi að Alþ. bæri að setja ákveðnari reglur um slíka skiptingu. Þetta kemur að sjálfsögðu til athugunar hjá þeirri n. sem um málið fjallar. Ég tel þó erfitt að setja þær reglur þannig að þær verði öruggari og betri en eins og dómurinn kann að ákveða hverju sinni. Rammi að slíkum reglum er hins vegar í 2. mgr. 2. gr. frv. Mér sýndist eftir nokkrar umr. um þetta atriði, að vart væri öðrum betur treystandi til þess að ákveða slíka skiptingu innan þessa ramma, sem hér kemur fram, en hæstaréttardómurunum sjálfum.

Það er rétt, að é nefndi hugmyndir um að fjölga frekar í Hæstarétti. Ég vil þó að það komi skýrt fram, að engar slíkar hugmyndir eru nú uppi. Ég vil gjarnan láta það koma hér fram, að um það var rætt, hvort til greina gæti komið að heimila ráðningu aðstoðardómara eða aðstoðarmanns hæstaréttardómara. Horfið var frá þeirri hugmynd á þeirri forsendu, að vafasamt virtist að slíkur maður mundi í nokkru veigamiklu a.m.k. stytta þann tíma, sem dómarar þyrftu sjálfir til að sinna einstökum málum. Það er erfitt fyrir hæstaréttardómara að hlusta á niðurstöðu frá aðstoðarmanni. Ég hygg að við getum veri sammála um það. Því var horfið frá þessu ráði og ákveðið fremur að láta nægja fjölgun um einn, eins og hér kemur fram.

Hv. þm. minntist á áfrýjunarupphæðina, sem hann taldi ekki nægilega skýrða í grg. með frv. Ég skýrði hana hins vegar nokkuð ítarlega í framsöguræðu minni og ég fór ekki leynt með það, að með þessari hækkun er að því stefnt, að smærri mál fari ekki til Hæstaréttar. Ég vil þó taka það skýrt fram, að í mínum huga má þessi upphæð ekki verða til þess, að t.d. efnalítið fólk geti ekki vísað máli til Hæstaréttar, enda hefur dómsmrh. reyndar heimild til þess að veita undanþágu frá þessu. Ég vil einnig taka það skýrt fram, að mér finnst að sú n., sem um þetta fjallar, eigi einmitt að skoða þessa hækkun í ljósi þess, hvaða upphæð sé réttmæt til þess að hin smæstu mál fari ekki í Hæstarétt, en hins vegar hve há upphæðin megi hæst vera til þess að hún stöðvi ekki eðlilegan framgang mála til Hæstaréttar. Ég mun fella mig mjög vel við þann úrskurð sem n, kemst að í þessu sambandi.

Ég ætla ekki að ræða um lögréttufrv. að svo stöddu. Það er allt of viðamikið mál til að fara að ræða það hér. Það hefur hins vegar verið lagt fram tvisvar á hinu háa Alþ. Ég hef að sjálfsögðu kynnt mér það mál, bæði sem þm. áður og nú í stöðu dómsmrh., og mér hefur sjálfum sýnst að það þurfi að skoða ýmsa þætti þess vandlega. Ég hef óskað eftir því við réttarfarsnefnd, sem hefur haft með þessi mál að gera, að hún endurskoði það frv. í ljósi aths. og umr., sem urðu um frv. hér á Alþ. Ég geri mér vonir um, að sú niðurstaða liggi fyrir um áramótin, og tek ég þá afstöðu til þess, hvort málið verður lagt fram að nýju þegar þing kemur saman eftir áramót.