13.11.1978
Neðri deild: 14. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

67. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Flm. (Soffía Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér í hv. d. frv. til l. um breyt á l. nr. 112 31. des. 1976, um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn. Meðflm. þessa frv. eru hv. alþm. Kjartan Ólafsson og Eðvarð Sigurðsson.

Sem kunnugt er voru sett lög á Alþ. árið 1973 um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri dagvistarheimila. Þessi lög, nr. 29 21. apríl 1973, voru hin fyrstu sem sett voru í landinu um dagvistarheimili. Í þeim voru tilgreind markmið með starfrækslu dagvistárheimila, þar sem strax í 1. gr. er lögð áhersla á uppeldislegt gildi slíkra stofnana. Í lögunum frá 1973 er gert ráð fyrir ríkisframlagi til dagvistarstofnana sem nemi 50% áætlaðs stofnkostnaðar fullbúins húsnæðis í samræmi við ákvæði í reglugerð um stofnkostnað skóla. Þessi ákvæði um stofnkostnað giltu jafnt um dagheimili, skóladagheimili og leikskóla. Þá var í þessum lögum frá 1973 kveðið á um rekstrarframlag af hálfu ríkisins, sem skyldi nema allt að 30% til dagheimila og skóladagheimila og allt að 20% til leikskóla.

Þátttaka ríkisins í uppbyggingu og rekstri dagvistarheimila örvaði mjög framkvæmdir í þessum efnum um allt land og var víða hafist handa um að koma dagvistarheimilum á fót, þar sem lítið eða ekkert hafði áður verið aðhafst. En það er ekki síst rekstrarkostnaður slíkra stofnana, sem sveitarfélögum hrýs hugur við að taka á sig að stórum hluta.

Síðan voru enn sett lög á Alþ. árið 1976, sem fólu í sér veigamiklar breytingar á áðurnefndum lögum frá 1973, og voru ákvæði þeirra um rekstrarframlag ríkissjóðs numin úr gildi. Ákvæði núgildandi laga frá 1976 mæla sem áður fyrir um það, að ríkið greiði 50% af stofnkostnaði dagvistarheimila, en fellt var brott rekstrarframlag ríkissjóðs, eins og fyrr segir. Gert er ráð fyrir því hins vegar, að sveitarfélög greiði allt að 60% af rekstrarkostnaði dagheimila og skóladagheimila og allt að 40% til leikskóla, en foreldrar greiði það sem á vantar.

Þegar fjárlög ársins 1976 voru afgreidd, var gerð nokkur breyting á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og var þá gerð bráðabirgðabreyting á lögum nr. 29 21. apríl 1973. Eins og segir í skýrslu menntmrn. frá maí 1978 voru þá nokkrir útgjaldaliðir ríkissjóðs færðir yfir á sveitarsjóði gegn aukinni hlutdeild sveitarsjóða í söluskattstekjum, og einn þessara liða var einmitt hlutdeild ríkissjóðs í rekstrarkostnaði dagvistarheimila fyrir börn.

Með þessu fyrirkomulagi átti samkvæmt túlkun þeirra, sem að því stóðu, að stefna að því að flytja ákveðin verkefni yfir til sveitarfélaga, en ekki að draga úr framlagi til verkefnanna. Þetta hefur farið á annan veg í reyndinni og er mála sannast að þessi breytta greiðslutilhögun hefur orðið til þess að dregið hefur úr framkvæmdum í dagvistarmálum víða um land. Hún hefur einmitt verkað sem hemill á frumkvæði sveitarfélaga í stað þess að örva það, eins og ákvæði fyrri laga um ríkisframlag til rekstrarkostnaðar sannarlega gerðu. Sveitarfélög hafa, eins og margir sáu fyrir að verða mundi, hikað við að hefja starfrækslu dagvistarheimila, því að það er einmitt rekstrarkostnaðurinn sem þeim óar við að rísa undir. Og satt er það, að þau eru fjölmörg vegna ónógra tekjustofna vanbúin að mæta honum. Þá ber þess einnig að geta, að á fjárlögum hefur nú síðustu ár ekki verið ætlað nægilegt fé til greiðslu stofnframlaga ríkissjóðs, svo að þar hafa safnast fyrir margar óuppfylltar skuldbindingar. Rekstraraðilar og foreldrar bera því allan rekstrarkostnað af dagvistarstofnunum, en sá rekstrarkostnaður, sem að 80–90% hluta felst í launagreiðslum, er óbeint forskrifaður með ákvæðum reglugerðar um fjölda starfsliðs. Þá er sá þáttur málsins þungvægur, að uppbygging og starfræksla dagvistunarheimila fyrir börn hefur ekki á undangegnum áratugum verið neitt forgangsverkefnum af hálfu ríkis eða sveitarfélaga, og er ástand þeirra mála skýrast dæmi þar um, en t.d. eru í stærstu bæjarfélögum landsins alls staðar langir biðlistar. Þeir gefa þó ekki endilega rétta mynd af þörfinni, eins og allir vita, því að fjölmargir foreldrar freista þess ekki einu sinni að sækja um dagvistun fyrir börn sín vegna langra biðlista, sem fyrir eru, en reyna þess í stað að leysa þann vanda með einkaúrræðum.

Það er álit flm. þessa frv., sem hér hefur verið lagt fram, að það sé ekki heillavænleg leið að ætla sveitarfélögum að bera allan rekstrarkostnað á móti foreldrum. Þeir telja að sú aðferð að fella niður rekstrarframlög ríkissjóðs muni síst leiða til hraðrar uppbyggingar dagvistarheimila um allt land, heldur þvert á móti tefja þá þróun og draga á langinn nauðsynlegar framkvæmdir, eins og dæmin sanna að orðið hefur í langflestum byggðarlögum nú í seinni tíð.

Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, eru gerðar breytingar á fimm liðum núgildandi laga frá 1976. Vil ég leyfa mér að rekja stuttlega hvað í þeim felst.

Í 1. gr. frv. segir svo, að ríki og sveitarfélögum sé skylt að stofna og starfrækja dagvistarheimili fyrir börn eftir því sem þörf krefur í hverju byggðarlagi. Þessir sömu aðilar skulu leggja fram fé til byggingar og rekstrar, svo sem nánar segir fyrir um í öðrum liðum. Þarna er lagt til að lögbundin verði sú skylda ríkis og sveitarfélaga gagnvart aldursflokkum barna frá þriggja mánaða til skólaskyldualdurs að sjá þeim fyrir dagvistarrými sem mikilvægum þætti í uppeldi þeirra. Í framhaldi af þessu ákvæði er rökrétt krafa um að ríki og sveitarfélög skuli leggja fram fé í þessu skyni, eða til byggingar og rekstrar dagvistarheimila af ýmsu tagi, rétt eins og hinir sömu aðilar sjá til þess að reistar séu skólabyggingar og uppfyllt lagaákvæði um grunnskólafræðslu. Með því að kveða skýrt á um skyldu ríkis og sveitarfélaga í þessum efnum er það viðhorf haft að leiðarljósi, sem fram kemur í 1. gr. núgildandi laga og stendur þar óbreytt frá því sem var í fyrri lögum frá 1973. Þar eru tilgreind þau markmið með starfsemi dagvistarstofnana að gefa börnum kost á að njóta handleiðslu sérmenntaðs fólks í uppeldismálum og búa þeim þau uppeldisskilyrði, sem efli persónulegan og félagslegan þroska þeirra. Hér kemur ótvírætt fram, að um rétt barna almennt til dagvistunar sé að ræða, en ekki aðeins barna úr svonefndum forgangshópum. Enn fremur að dvöl á dagvistarheimili sé vegna barnsins sjálfs og þroska þess, en hún sé ekki gerð vegna foreldranna.

Breytingar þær, sem lagðar eru til í þessu frv. við 2., 3. og 5. gr. núgildandi laga, lúta allar að því að lögfesta að nýju fyrri ákvæði um þátttöku ríkissjóðs í rekstri dagvistarstofnana.

Breyting í þessu frv. á 8. gr. núgildandi laga tekur til greiðsluhlutfalls ríkis, sveitarfélags og foreldra og einnig til fyrirkomulags við greiðslur. Lagt er til að ríki og sveitarfélög greiði samtals 60%, sem skiptast jafnt þar á milli, en foreldrar greiði 40% rekstrarkostnaðar. Flm. er vel ljóst, að þetta greiðsluhlutfall foreldra kann að vera nokkuð hátt í mörgum tilvikum. En hægur vandi er að koma við heimildarákvæðum um misháar greiðslur af hálfu foreldra, ef þurfa þykir, og ekkert bannar sveitarfélögum í sjálfu sér að koma lengra til móts við greiðslur foreldra, ef þeim býður svo við að horfa.

Þá er gert ráð fyrir sama framlagi af hálfu ríkis og sveitarfélaga til rekstrar dagheimila, skóladagheimila og leikskóla, en ekki er greint þar á milli eins og núgildandi lög mæla fyrir um. Þar er aðeins gert ráð fyrir allt að 40% rekstrarframlagi sveitarfélaga til leikskóla, en allt að 60% til dagheimila og skóladagheimila. Með því að gera ráð fyrir sama framlagi til rekstrar leikskóla og til annarra dagvistarstofnana er höfð í huga nauðsynin á því að koma við auknum sveigjanleika í starfsemi leikskólanna og jafnvel færa starfsemi þeirra nær því sem gerist á dagheimilum og gera leikskólum kleift að mæta þeim aukna tilkostnaði sem hugsanlegar breytingar á starfstilhögun þeirra kunna að hafa í för með sér.

Sá afturkippur, sem komið hefur í ljós um land allt varðandi framkvæmdir í dagvistarmálum barna, leiðir berlega í ljós nauðsynina á framlagi ríkissjóðs til rekstrarkostnaðar dagvistarstofnana. Það skiptir meginmáli um framgang dagvistarmála barna, að skýrt sé kveðið á um skyldu beggja aðila, ríkis og sveitarfélaga, í þessum efnum og að á móti framlögum sveitarfélaga séu þannig tiltæk fjárframlög ríkisins, sem beinlínis eru ætluð þessum tiltekna málaflokki og mörkuð honum.

Þegar nauðsyn á hraðri uppbyggingu dagvistarstofnana um landið er rædd er mér næst hendi að taka dæmi af Akureyri. Þar eru mál þannig vaxin, að á vegum Akureyrarbæjar eru starfræktar fjórar dagvistarstofnanir. Hin fimmta er í byggingu. Auk þeirra starfrækir Fjórðungssjúkrahúsið dagheimilið Stekk eingöngu fyrir sitt starfslið. Dagvistarstofnanir Akureyrarbæjar eru þessar:

Pálmholt, sem er dagheimili með þrem deildum, þar eru 49 börn samtals virka daga kl.8–17. Húsið var byggt 1950 af kvenfélaginu Hlíf, sem rak þar dagheimili á sumrin fram til ársins 1971, en þá var Akureyrarbæ afhentur staðurinn. Húsið þarfnast verulegra lagfæringa og endurbóta og það hefur verið kostnaðarsamt að halda því við.

Árholt er tveggja deilda leikskóli og þar dvelja að jafnaði 67 börn alls. Hann er rekinn í húsi gamla barnaskólans í Glerárhverfi sem byggt var 1935. Hófst rekstur leikskóla þar í júní 1974.

Iðavöllur er sömuleiðis tveggja deilda leikskóli þar sem dvelja að jafnaði 62 börn alls. Húsið var byggt 1959 af Barnaverndarfélagi Akureyrar, sem þar rak leikskóla um fimm ára skeið, eða til ársins 1974. Í febr. 1975 afhenti félagið Akureyrarbæ Iðavöll að gjöf.

Brekkukot er skóladagheimili fyrir 6 ára börn og eldri og festi Akureyrarbær kaup á því húsi haustið 1976 í því skyni að reka þar skóladagheimili. Áður hafði slíkur rekstur farið fram í tilraunaskyni hluta tímabilsins 1975–1976. Rekstur skóladagheimilisins í Brekkukoti hófst í byrjun febr. 1977. Þar dvelja nú rétt um 30 börn mánuðina sept.–maí kl. 8–17, að frátöldum kennslustundum sem þau sækja hvert í sínum skóla. Framkvæmdir hófust við byggingu leikskóla síðla árs 1977. Er það fyrsta byggingin sem Akureyrarbær reisir beinlínis í því skyni að mæta dagvistarþörfinni. Ráðgert er að þar taki tveggja deilda leikskóli til starfa sumarið 1979 í sérhönnuðu húsnæði, sem er u.þ.b. 260 m2, fyrir samtals 80 börn.

Á miðju þessu ári, eða 1. júní, var heildarfjöldi barna á dagvistarstofnunum Akureyrarbæjar 181, en voru 207 í des. 1977. Nokkur fækkun hefur orðið, svo að betur megi uppfylla kröfur um rými á dagvistarstofnunum. Í árslok 1977 áttu 1085 börn á aldrinum tveggja til sex heimili sitt á Akureyri. En íbúafjöldi var þá u.þ.b. 12500. Það er ljóst að framboð dagvistarrýma er þannig mjög fjarri því að svara til eftirspurnar og þarfar, enda hafa myndast alllangir biðlistar, sem þó eru ekki endilega marktækir um þörfina, eins og fyrr greinir.

Á Akureyri er — eins og víðar — hafður sá háttur á að börn einstæðra foreldra og börn, sem eru talin í brýnni þörf fyrir dvöl á dagvistarstofnun þroska síns vegna eða heimilisaðstæðna, eiga þar forgang að og er bið þeirra því skemmri. Þá eru þar fjögur rými sérstaklega ætluð þroskaheftum börnum. Gekk það ákvæði í gildi í sept. 1975 og var bætt við starfsliði í því skyni. Ennfremur gekk í gildi í apríl 1978 ákvæði um hámarkdvalartíma, sem nemur tveimur árum, og var þá sagt upp rými börnum sem dvalist höfðu tvö ár eða lengur á dagvistarstofnun, en undantekningar voru gerðar um fjölfötluð börn og börn einstæðra foreldra. Þannig var reynt að deila ögn jafnar en verið hafði þeim fáu dagvistarrýmum sem til ráðstöfunar eru.

Dagvistarmál eru einn þeirra málaflokka sem heyra til starfssviði félagsmálaráðs Akureyrar. Hefur ráðið sett sér ákveðnar starfsreglur og vinnur að því að gera úttekt á stöðu hinna ýmsu verkefna og þróun þeirra að undanförnu, enn fremur að gera áætlun um verkefni og framkvæmdir, sem ráðið vill beita sér fyrir til loka kjörtímabilsins, og skilgreina markmið innan þess málaflokks.

Varðandi dagvistarmál barna er stefnt að því, að leikskóli, sem nú er í byggingu, verði tekin í notkun í Lundarhverfi sumarið 1979 og blönduð dagvistarstofnun í Glerárhverfi sumarið 1980. Liggur fyrir hönnunarframlag til þeirrar byggingar á fjárhagsáætlun yfirstandandi árs. Samkv. lauslegri áætlun byðist þá dagvistun u.þ.b. 40% tveggja til sex ára barna í þrjú ár af fjórum og 5% eins til tveggja ára barna. Þá vill félagsmálaráð beita sér fyrir því, að á tímabilinu 1980–1982 verði tvær dagvistarstofnanir til viðbótar teknar í notkun. Næði sú áætlun fram að ganga gæti þá 50% tveggja til sex barna boðist dagvistun þrjú ár af fjórum og 12% eins til tveggja ára barna. Þessi áætlun miðast við að eitt dagheimilisrými komi á móti hverjum fimm leikskólarýmum. Þá telur félagsmálaráð að stefna beri að því, að hvert hverfi sé sér nógt um dagvistarstofnanir, og telur mikilvægt að leitast sé við að haga uppbyggingu dagvistarstofnana í nýjum hverfum á þann veg, að fullbúin aðstaða til dagvistunar sé fyrir hendi um svipað leyti og almennt er farið að flytjast í hverfið.

Hér er sem oftar komið inn á svið skipulagsmála, sem brýnt er að höfð séu í huga þegar ráðgerðar eru framkvæmdir í dagvistarmálum. Ekki stoðar að bollaleggja um dagvistaraðstöðu, hafi henni ekki verið fundinn staður innan tiltekins skipulagssvæðis. Og sömuleiðis þarf ætíð að huga grannt að búsetuþróun innan hinna ýmsu hverfa.

Þá eru uppi hugmyndir um að annað skóladagheimili taki til starfa fyrir árið 1982. Verði þá eitt skóladagheimili starfandi í tengslum við hverja tvo skóla.

Það er stefna félagsmálaráðs Akureyrar, að starfsemi dagvistarstofnana miðist við að innan þeirra vébanda verði mætt sem flestum þörfum þroskaheftra barna og dagvistunaraðstaða verði nýtt eftir föngum þeim til þjálfunar og aukins þroska og heimilum þeirra til léttis. Þá eru upp áætlanir um að kanna samvinnugrundvöll við atvinnufyrirtæki og starfsmanna- eða stéttarfélög um uppbyggingu dagvistarstofnana. Skilyrði fyrir slíkri samvinnu er þó óhjákvæmilega það, að dagvistaraðstaða, sem þannig væri til komin, þjónaði almennri þörf sveitarfélagsins og stjórn hennar væri í höndum Akureyrarbæjar.

Sambærileg dæmi þeim, sem ég hef nú stuttlega rakið frá Akureyri, má víða finna um landið, og sú áætlun um framkvæmdir, sem ég nefndi og félagsmálaráð vill fyrir sitt leyti beita sér fyrir, er fjarri því að vera sérlega hröð eða ævintýranleg á nokkurn hátt. Þótt hún næði fram að ganga væri samt að fjórum árum liðnum langt frá því að framboð svaraði til eftirspurnar og þarfar, sem síst er ástæða til að ætla að fara mundi minnkandi á næstu árum.

Öll rök hníga að því, að ríki og sveitarfélög taki nú höndum saman og geri samstillt átak um að hraða uppbyggingu dagvistarstofnana um allt land, þar sem að því sé stefnt að sem allra fyrst geti ríki og sveitarfélög innt af hendi þær skyldur sínar við börn á forskólaaldri sem kveður á um í 1. gr, þessa frv.

Það frv., sem hér liggur fyrir, felur ekki í sér neinar stökkbreytingar fram á við, það markar engin tímamót né heldur er það sérlega róttækt að inntaki. Fái það jákvæðar undirtektir hv. þm. er þó aðeins um að ræða stutt skref áleiðis að því marki að færa dagvistarmál barna á forskólaaldri í sómasamlegt horf. Örar þjóðfélagsbreytingar eiga sér stað og þróunin er hröð, bæði hvað atvinnulíf og lífshætti áhrærir. Þess verður þörf í næstu framtíð að taka til endurskoðunar, bæði reglugerð og lög sem að dagvistarmálum lúta, og það kann að verða aðkallandi fyrr en menn órar fyrir.

Þá er ástæða til að minna á þá nauðsyn, að af hálfu ríkis og sveitarfélaga verði mótuð framtíðarstefna varðandi starfrækslu dagvistarstofnana í landinu.

Þótt fjölmargt komi til, sem ræða mætti þegar bollalagt er um framtíðarstefnu í dagvistarmálum, hef ég einkum eftirfarandi atriði í huga:

Gerð verði áætlun um framkvæmdir, t.d. á næsta áratug, sem miðist við eins hraða uppbyggingu dagvistarstofnana um land allt og frekast er unnt. Tekin verði til endurskoðunar reglugerð um dagvistarstofnanir og verði skilgreint markmið starfsemi þeirra og fjallað um innra starf á dagvistarheimilum. Með hliðsjón af auknum framkvæmdum í dagvistarmálum verði leitast við að samræma sjónarmið og hagsmuni ólíkra hópa, en hagur barns, velferð þess og réttur sitji ævinlega í fyrirrúmi. Höfð verði náin samvinna við þá aðila á hverjum stað sem með ákvarðanir og framkvæmd í skipulagsmálum fara. Stefnt verði að því að tengja dagvistarmál barna hinu almenna fræðslukerfi eins og það birtist innan ramma grunnskólalaga sem sameiginlegt viðfangsefni ríkis og sveitarfélaga gagnvart börnum á forskólaaldri. Og skýrt verði kveðið á um rétt barna og skyldur opinberra aðila varðandi þennan þátt skólakerfisins.

Flm. þessa frv. eru minnugir þess, að nú um hríð hefur staðið nokkur umræða um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og breytingar sem gera beri í þeim efnum. Álit manna hefur hnigið mjög í þá átt að auka beri sjálfstætt frumkvæði sveitarfélaga á mörgum sviðum og sjá verði þeim að því skapi fyrir auknum tekjustofnun á móti. Með þessu frv. er í raun réttri gerð till. um aukinn tekjustofn til handa sveitarfélögum og knúið á um samvinnu milli þeirra og ríkisins um framkvæmdir og skjótar aðgerðir í mikilvægum málaflokki sem báða aðila áhrærir jafnt.

Framkvæmdir í dagvistarmálum hafa, eins og ég gat um áður, ekki verið nein forgangsverkefni á undangenginni tíð, hvorki af hálfu ríkis né sveitarfélaga, og liggja til þess fjölþættar ástæður. Því ástandi mála þarf að breyta og hefja markvissar aðgerðir, en full þörf er á því, að framlög af hálfu ríkisins séu skýrt mörkuð þessum tiltekna málaflokki, ekki síst með hliðsjón af slælegri framgöngu opinberra aðila í dagvistarmálum nú um langa hríð. Dagvistarmál heyra, sem kunnugt er, til þeim umfangsmikla málaflokki, sem kenndur er við félagsmál, samneyslu og félagslega þjónustu. Er vissulega tímabært og nauðsynlegt, að stjórnmálamenn geri sér ljóst, hve mikilvægt stjórnunartæki þeir hafa þar í hendi sér, þar ríki ekkert handahóf eða tilviljanakenndar ákvarðanir, heldur markviss stefna og skýrt mótuð sem hafi sjónarmið jafnaðar og félagslegs réttlætis að leiðarljósi. Það er vert að hafa það í huga, að lífskjör manna ráðast ekki einasta af krónufjölda hinna eiginlegu launa, heldur er hitt engu síður mikilvægt, að samneyslu sé komið við á sem flestum sviðum og að félagsleg þjónusta af ýmsu tagi sé í góðu horfi. Þar er um að ræða áhrifaríkt stjórnunartæki til tekjujöfnunar, til dreifingar fjármuna og til þess að jafna kjör manna og aðstæður og skapa jafnrétti meðal þegna þjóðfélagsins.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv., sem hér liggur nú fyrir. Ég leyfi mér að leggja til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.