22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5209 í B-deild Alþingistíðinda. (4591)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 1. þm. Vestf. fyrir það að hefja umr. um þetta mál. Og ég vil nota tækifærið, af því að hæstv. fjmrh. er viðstaddur, til að biðja hann að eyða þó ekki væri nema 2–3 mínútum til þess að skýra afstöðu fjmrn. til þess vandamáls sem hér liggur fyrir okkur.

Eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vakti athygli á áðan, snýr þetta ekki aðeins að því, hvort sjúklingar verði sendir heim í sumar, heldur hvort séð verði fyrir nauðsynlegri lágmarksþjónustu, svo að sæmileg geti talist á heimilinu.

Ég er ekki með öllu ánægður með svör hæstv. heilbrrh. Hann byrjaði á því í fyrri ræðu sinni að segja okkur frá því, að þessi bréf væru ekki send út á ábyrgð rn. eða stjórnar stofnunarinnar. Í lok síðari ræðu sinnar áðan sagði hann okkur að einungis þeir yrðu sendir heim sem fullt samkomulag næðist um við aðstandendur. Við vitum fullvel að það er býsna langt gengið og búið að ýta býsna mikið á aðstandendur þegar vandamenn neita að taka við sjúklingi af hælinu. Í lok fyrri ræðu sinnar sagðist hann vona að ekki þyrfti að senda heim nema þá sem hægt væri að senda heim, og þá ekki nema með samþykki aðstandenda, og ekki aðra en þá sem gott hefðu af því að fara heim til aðstandenda.

Þetta mál er alls ekki ljóst, og af því að það mun vera mála sannast, sem hæstv, heilbrrh. sagði, að hér er undir högg að sækja hjá fjmrn., þá skora ég á hæstv. fjmrh. að segja okkur frá því hér — ekki hvort eigi að reyna eða hvort það eigi að athuga hvort hægt sé, heldur beinlínis hvort það verði séð fyrir þeim fjármunum sem til þess þarf að halda þessu fólki á hælinu án þess að pressa aðstandendur, þrýsta á þá um að taka þessa sjúklinga heim í sumar, og þannig, að séð verði fyrir lágmarksþjónustu og aðbúnaði fyrir þetta fólk.