22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5214 í B-deild Alþingistíðinda. (4595)

285. mál, vegáætlun 1979-82

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Fjvn. hefur haft till. til þál. um vegáætlun 1979–1982 til umfjöllunar í örfáa daga nú í þinglok. Þetta stafar af þeim óþinglegu og forkastanlegu vinnubrögðum hæstv. samgrh. að leggja till. fram til umr. svo seint sem raun ber vitni. Ég þykist vita að flestir hv. þm. séu mér sammála um að þessi vinnubrögð eru óhæf og raunar vítaverð. Ég vona því að til þessa fordæmis verði ekki vitnað til afsökunar í framtíðinni við afgreiðslu Alþ. á svo mikilvægu máli sem vegáætlun til fjögurra ára vissulega er.

Eftir að till. kom til fjvn. hefur n. reynt að hraða störfum eftir föngum. Fyrir hönd okkar stjórnarandstæðinganna í n. vil ég þakka hv. þm. Geir Gunnarssyni, formanni n., fyrir góða samvinnu og lipurð við verkstjórn í n. Við fulltrúar stjórnarandstóðunnar höfum átt þess kost að fá allar upplýsingar og gögn til jafns við fulltrúa stjórnarflokkanna og unnið að afgreiðslu málsins á öllum stigum þess. Mér er því ljúft að þakka formanni og nm. öllum fyrir það samstarf. Þá vil ég þakka vegamálastjóra og starfsmönnum hans fyrir samstarfið við okkur fjvn.-menn, og vil ég leyfa mér að fullyrða að starf Vegagerðar ríkisins sé til fyrirmyndar við vegáætlunargerð og mættu ýmsir hliðstæðir aðilar hjá ríkinu taka þá stofnun sér til fyrirmyndar í þeim efnum.

Við sjálfstæðismenn í fjvn. stöndum að till. sem n. flytur á þskj. 833, en skrifum undir nál. með fyrirvara. Sá fyrirvari er fyrst og fremst fólginn í því, að þessi vegáætlun er með sama marki brennd og mikilvægustu þingmál, sem hæstv. núv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir hér á hinu háa Alþ., svo sem fjárlög og lánsfjáráætlun. Í vegáætluninni fyrir árið 1979 er gert ráð fyrir gífurlega auknum skattálögum á umferðina. Í krónutölu er gert ráð fyrir að bensíngjaldið hækki nálægt því um 70%, eða um það bil 20% á föstu verðlagi, en niðurskurður verði á sama tíma í vegaframkvæmdum um a. m. k. 15% að magni til. Beina ríkisframlagið er á þessu ári lækkað um 1000 millj. kr., sem ásamt öðru þýðir að í ríkissjóð renna í stórauknum mæli skattar af umferðinni. Þetta er alveg þveröfugt við það sem forráðamenn Alþb. og Alþfl. sögðu að þeir vildu gera þegar þeir voru í stjórnarandstöðu. Þetta er þó síður en svo einsdæmi, því að segja má að á Alþ. í vetur hafi þessi saga endurtekið sig í hverju stórmálinu á eftir öðru. Þessir fyrrv. stjórnarandstöðuflokkar hafa sporðrennt í misjafnlega stórum skömmtum í senn öllum gífuryrðum á síðasta kjörtímabili og fyrir kosningar í fyrra og gert oft og tíðum þveröfugt við það sem þeir áður sögðust vilja.

Því miður er það svo, að enn eru ekki komin öll kurl til grafar í skattaálögum ríkisstj. á umferðina á yfirstandandi niðurskurðarári framkvæmda. Af þeirri miklu bensínhækkun, sem nýlega er orðin, úr 205 kr. lítrinn í 256 kr., eða nálægt 25%, fæst ekki ein króna í Vegasjóð eða til vegaframkvæmda. Hér er að nokkru leyti um að ræða hækkun vegna hækkandi eldsneytisverðs í heiminum, en auk þess vegna sjálfvirkra skattálaga ríkissjóðs. Þessi mikla hækkun dregur á hinn bóginn úr bensínsölu, svo sem eðlilegt er. Þjóðhagsstofnun áætlar að tekjutap Vegasjóðs verði 330 millj. kr. vegna þessa samdráttar í sölu. Því þarf að hækka bensínverð um 12–13 kr. 1. júlí n. k. til þess að áætlun um tekjur Vegasjóðs samkv. þessari till. að vegáætlun standist, og bætist það við þann vanda sem er af frekari hækkun bensínverðs erlendis.

Eins og kunnugt er fær Vegasjóður drýgstar tekjur af bensíngjaldi, en þetta gjald er einungis lítill hluti af álögum ríkisins á bensín. Samkv. nýrri endurskoðaðri áætlun frá Þjóðhagsstofnun nemur bensíngjald á árinu 1979 7 milljörðum 360 millj. kr., en tolla og söluskattur eru áætlaðir 9.5 milljarðar kr. vegna bensínsölu, eða talsvert hærri upphæð en bensíngjaldið, auk þess sem innflutningsgjald á bíla, sem rennur í ríkissjóð, er áætlað samkv. fjárl. 4.3 milljarðar kr. Tollar og söluskattur af bensínverði og innflutningsgjald af bifreiðum, sem renna beint í ríkissjóð, eru því meira en tvöföld upphæð bensíngjaldsins. Það er einkar athyglisvert, að tollar og söluskattur af bensíni eru áætlaðir samkv. nýrri endurskoðaðri áætlun Þjóðhagsstofnunar 2 milljörðum hærri nú en fjárlög gerðu ráð fyrir. Aftur á móti er bensíngjaldið áætlað lægra nú en í fjárl. vegna minni sölu. Ríkissjóður á því samkv. þessu að hagnast um 2 milljarða kr. í auknum skattálögum, sem leggjast á hækkað innkaupsverð á bensíni, en Vegasjóður á að tapa 330 millj. kr. á sama tíma af sömu ástæðu. Þetta gerist þrátt fyrir svardaga ráðh. fjármála og viðskiptamála aðeins fyrir nokkrum vikum, að óréttlátt sé og óeðlilegt að ríkissjóður notfæri sér hækkun á innkaupsverði á olíu og bensíni til aukinnar tekjuöflunar. 2 milljarðar skulu teknir samt, á þessum óréttlátu forsendum, einungis í hækkuðum tollum og sköttum af bensíni og ekkert af þessu fé fer til vegamála. Þvert á móti skerða þessar ráðstafanir beinlínis tekjur Vegasjóðs.

Mér er stórlega til efs að þingheimur og jafnvel hæstv. ríkisstj. geri sér sjálf grein fyrir því, í hvers konar ógöngur er flanað með þessum álögum á bensín. Verðjöfnunarsjóður olíu og bensíns skuldar nú 2000 millj. kr. vegna þess að ekki hefur verið horfst í augu við hækkanir á innkaupsverðinu. Þessa skuld verður að greiða með hækkuðu verði síðar. Samkv. upplýsingum frá olíufélögunum þyrfti bensínlítrinn úr farmi, sem er á leið til landsins, að kosta 296 kr. í útsölu að óbreyttu kerfi skatta og verðlagningar á bensíni. Slík er hækkunin orðin á verðlagi erlendis til viðbótar fyrri hækkun. Ef greiða ætti skuld Verðjöfnunarsjóðs á þessu ári bættust við a. m. k. 25 kr. á lítra, og þörf á hækkun bensínverðs til þess að tekjur Vegasjóðs haldist að krónutölu, eins og till. um vegáætlun gerir ráð fyrir, er 12–13 kr. Í næsta mánuði þyrfti því að hækka bensín um 75–80 kr. lítrann og þá yrði hann seldur á nálega 335 kr., miðað við framangreindar forsendur. Slík verðsprenging á bensíni úr 205 kr., eða um 63% á nokkrum vikum, mundi óumflýjanlega ekki valda einvörðungu auknu pípi bílstjóra í FÍB, heldur verulegum samdrætti á bensínsölu og um leið lækkun á tekjum Vegasjóðs, þar sem bensíngjaldið er föst krónutala á lítra. Hér er því stefnt í jafnvel enn þá meiri ófæru en víða er á íslenskum þjóðvegum um vetur og vor, þótt langt sé þá til jafnað. Auðvitað verður að taka á máli þessu og bregðast við því á annan hátt en þann að hugsa sí og æ um óslökkvandi skattahungur ríkissjóðs.

Núv. hæstv. ríkisstj. og stuðningslið hennar eru að vísu iðin við að hlaða nýjum og nýjum pinklum á ríkissjóð, svo að jafnvel skiptir milljörðum á dag síðustu daga. Einn þrýstihópurinn innan stjórnarliðsins heimtar fjárfúlgu í eitt verkefni og annar enn þá hærri fjárhæð í hitt, án alls samhengis við fjárhagsgetu ríkissjóðs eða mats á brýnustu verkefnum. Sum þessara verkefna eru ákaflega þörf og brýn, en þetta skæklatog þrýstihópa stjórnarliðsins veldur því, að eyðsla ríkissjóðs vex, ríkisbáknið stækkar stjórnlaust.

Við þessar aðstæður er þrautalending hæstv. fjmrh. gegndarlausar skattálögur á almenning og atvinnurekstur og að taka í ríkissjóð fé sem áður gekk til þess að lána húsbyggjendum eða fór til uppbyggingar á landsbyggðinni í formi lána úr Byggðasjóði, en auk þess lækkun á raungildi framlaga til nýbyggingar vega, skóla, hafna og þess háttar framkvæmda um allt land o. s. frv. Það er þveröfug stefna á þessum sviðum við það sem hann, flokkur hans, Framsfl., og sigurvegarar kosninganna, Alþb. og Alþfl., hafa boðað fólki í orði og talið sér einkum til gildis.

Ég hef dregið upp dökka mynd af vegáætlun fyrir árið 1979, sem því miður er sönn og stafar að miklu leyti af niðurskurði á ríkisframlögum.

Þá er rétt að víkja að áformum samkv. áætluninni árin 1980–1982. Hæstv. samgrh. og hæstv. ríkisstj. sýnist, þegar lítið er á framkvæmdaliði þessara ára, vilja bæta um betur og auka vegaframkvæmdir, enda vildi hæstv. samgrh. einungis tala um þessi ár áætlunarinnar í sjónvarpsþætti fyrir skemmstu. Þegar betur er að gáð sést að hér er um sams konar blekkingar að ræða og hæstv. ríkisstj. hefur haft í frammi frá því að hún komst til valda í öllum ráðstöfunum sínum í efnahags- og fjármálum ríkisins. Þessi ár vegáætlunar eru ósköp einfaldlega gengið út frá þeirri forsendu, að öll framkvæmdaaukningin verði greidd með svonefndri „annarri fjáröflun“, og ríkisframlagið er með öllu fellt niður. Á verðlagi ársins 1978 voru framlög ríkissjóðs til vegamála auk afborgana af lánum Vegasjóðs frá 1300–1700 millj. kr. á ári, nema 1979, en þá var það skorið niður um 1 milljarð af hæstv. ríkisstj. Í till. þeirri til vegáætlunar, sem hér er til umr., er dæmið látið ganga upp með því að bæta liðnum „önnur fjáröflun“ við markaðar tekjur Vegasjóðs. Engin svör hafa fengist um hvort hér sé einungis átt við auknar lántökur eða einhverja aðra fjáröflun né heldur hvort ætlunin er að ríkissjóður felli með öllu beint framlag sitt til vegamála niður á sama tíma sem skattheimta á umferðina hækkar svo gegndarlaust sem raun ber vitni. Hér er því um blekkingafeluleik að ræða. Hér er á ferðinni hluti af því neðanjarðarhagkerfi sem núv. stuðningsflokkar hæstv. ríkisstj. hafa unnið ötullega að að koma á laggir hér á landi.

Það kemur í hlut þeirra, sem fara með ríkisfjármál 1980–1982, að útvega það fjármagn sem þarf til þess að standa við þá vegáætlun sem hér er til umr.

Það er athyglisvert í þessu sambandi, að sú upphæð, sem afla þarf á næsta ári til þess að standa við áætlunina umfram markaðar tekjur Vegasjóðs, er meira en tvöföld miðað við ríkisframlag og lántökur á yfirstandandi ári, og sú upphæð fer síðan hækkandi miðað við fast verðlag 1981 og 1982.

E. t. v. veit hæstv. samgrh. að peningar eru afl þeirra hluta sem gera skal, a. m. k. við vegaframkvæmdir. Hann verður því að virða mér það til vorkunnar, þótt ég fullyrði að áætlun þessi árin 1980–1982 er byggð á sandi, því að enginn veit hvernig hann eða þeir, sem erfa ráðherradóm hans, ætla að finna það afl, þ. e. a. s. nægilegt fjármagn til að standa við framkvæmdir á þessum árum. Það verður með engu móti séð af þeirri áætlun sem hér er til umr. Og alvarlegast er að hún gæti þýtt að beint ríkisframlag yrði fellt niður.

Ef lítið er á þá staðreynd með kíkinn fyrir blinda auganu, að fjáröflun samkv. þessari till. árin 1980–1982 er byggð á sandi, eins og stjórnarsinnar vilja gera, þá tel ég að ýmislegt jákvætt sé við þá stefnu í framkvæmdum sem mörkuð er með áætluninni. Áformað er að auka framkvæmdamagn í nýbyggingum vegakerfisins rúmlega fram yfir meðaltal áranna 1970–1979 strax á árinu 1980 og síðan um 5% á ári. Gert er ráð fyrir að auka raungildi viðhaldsfjár verulega öll árin, svo sem ekki var vanþörf á, ljúka Borgarfjarðarbrú, sem er dýrt fyrir þjóðina hve dregist hefur, auka lagningu bundinna slitlaga frá því sem verið hefur um skeið o. s. frv. Það er góðra gjalda vert, hversu skilningur hefur aukist á gerð bundinna slitlaga á íslenska þjóðvegakerfið, en segja má að fyrir skömmu hafi það verið nánast skammaryrði úti um land, vegna þess að þetta slitlag var auðvitað fyrst lagt á fjölförnustu vegina hér á þéttbýlissvæðinu. Þessar framkvæmdir á sínum tíma hafa sparað þjóðinni ótalin hundruð millj. kr., ef ekki milljarða. T. d. má geta þess, að olíumalarslitlag á veg með 1000 ársbílaumferð borgar sig í sparnaði viðhalds á 6–7 árum. Bundið slitlag á slíkan veg sparar einnig bíleigendum 19% í bensíneyðslu, 170% í hjólbarðasliti og 45% í viðhaldi. Almennt talað hefur verið reiknað út að 63% meira slit verði á bifreið sem ekið er á malarvegum en vegum með bundnu slitlagi.

Nú eru í landinu 260 km af þjóðvegum utan þéttbýlis með bundnu slitlagi. Vegagerð ríkisins áætlar að það sé arðbært, borgi sig vegna sparnaðar í viðhaldi vega og rekstri bifreiða, að leggja bundið slitlag á 2000–2500 km af íslenskum þjóðvegum. Samkv. þessari vegáætlun, sem hér er til umr., yrðu 200 km lagðir bundnu slitlagi ef fjáröflun samkv. áætluninni stenst. Útkoman úr þessu einfalda dæmi er sú, að þeir vegir, sem vegna umferðar í dag bera arð með bundnu slitlagi, yrðu ekki fullgerðir fyrr en að 30–40 árum liðnum þótt farið yrði eftir þeim framkvæmdahraða, sem gert er ráð fyrir í þessari till., að meðaltali. Þetta er einungis sett hér fram til þess að sýna hversu viðamikið verkefni bíður okkar í vegamálum. Og ekki má gleyma verkefnum á þeim landssvæðum þar sem hafís og vetrarhörkur geta, svo sem reynslan sýnir, valdið stöðvun allra samgangna vegna illa uppbyggðra vega. Þegar það er skoðað hversu mikil, að segja má risavaxin verkefni bíða okkar Íslendinga í vegamálum, — verkefni sem skila stórfelldum arði í sparnaði við viðhald veganna og rekstur bifreiða og hafa jafnframt mikla undirstöðuþýðingu í félagslegum efnum, þá verður að segjast, að núverandi stefna á yfirstandandi ári í vegamálum og fjármálum ríkisins er algerlega forkastanleg.

Sjálfkrafa stórhækkun verður á sköttum í ríkissjóð vegna bensínhækkana erlendis á sama tíma sem ríkisframlag er skorið niður og framkvæmdir að sama skapi. Óarðbært ríkisbákn er þanið út með skattálögum á umferðina, en arðbærustu félagslegu framkvæmdir, sem í landinu finnast, eru skornar niður. Það er ekki von að vel fari þegar þannig er á málum haldið. Sannleikurinn er sá, að hér er að finna í hnotskurn hvert stefna núv. hæstv. ríkisstj. leiðir hagsæld þjóðarinnar.

Herra forseti. Mestu félagslegu opinberu verkefni, sem bíða úrlausnar þjóðar og þings, eru án vafa vegamálin. Eins og nú standa sakir er viðhald veganna óhemjudýrt og versnar með vaxandi umferð með hverju árinu. Tæknilega er viðhald malarvega að verða sums staðar óframkvæmanlegt. Þess vegna er uppbygging vegakerfisins og lagning bundins slitlags á mestu umferðarkaflana arðbærasta félagslega verkefni þjóðarinnar. Þar kemst ekkert í samjöfnuð nema vera kynni aukin innlend orkuöflun.

Við sjálfstæðismenn freistuðum þess að móta nýja stefnu í vegamálum í ljósi þessara viðhorfa með flutningi till. til þál um varanlega vegagerð næstu 15 ár, þar sem verkefnum var skipt niður í forgangsröð á þrem 5 ára framkvæmdatímabilum. Athyglisvert er við þessa tillögugerð, að þar er mörkuð skýr stefna um fjáröflun, gagnstætt því sem gert er í þessari vegáætlun, auk þess sem þetta verkefni er tekið skarpari og myndarlegri tökum en í þeirri till. til þál. um vegáætlun sem hér liggur fyrir. Fjáröflun í okkar till. fólst í eftirfarandi:

1. Að auknir skattar á umferðina frá því, sem var um s. l. áramót, rynnu óskiptir til vegaframkvæmda, þó eigi lægri fjárhæð en 2000 millj. kr. á ári.

2. Að happdrættislán skulu boðin út fyrir 2000 millj. kr. á ári.

3. Framlag Byggðasjóðs til Vegasjóðs yrði 1000 millj. kr. á ári.

4. Með erlendum lántökum til ákveðinna verkefna. Þessar fjáröflunarleiðir voru að sjálfsögðu við það miðaðar að halda verðgildi sínu og að ríkissjóður legði eigi fram minna fjármagn af sköttum á umferðina en hann gerði á s. l. ári og að markaðar tekjur Vegasjóðs yrðu fyrst og fremst notaðar til þess að byggja upp vegina þar sem vetrarumferð er erfið. Þetta þykir e. t. v. stórhuga stefnumörkun, en hún er lífsnauðsynleg til þess að losa okkur út úr þeim vítahring sem við erum komnir í í vegamálum, og þessi stefna er framkvæmanleg, ef þess er gætt að auka fjárhagslegt svigrúm að hluta með niðurskurði ríkisútgjalda á öðrum sviðum, sem ekki hafa jafnmikið félagslegt og fjárhagslegt gildi.

Ég hef gert grein fyrir löstum og kostum á þeirri heildarstefnu sem er í þeirri vegáætlun sem hér er til umr. Af miklu meira væri þar að taka, en ég vil leggja áherslu á eftirfarandi atriði að lokum:

1. Vítavert er, hversu seint svo viðamikið þingmál er lagt fram.

2. Á árinu 1979, sem eitt er með ákveðinni fjáröflun og ríkisframlagi, eru framlög ríkisins skorin niður um 1000 millj. kr., skattar á umferðina stórhækkaðir og sérstakur aukaskattur lagður á bensín í viðbót við hækkanir erlendis, sem nú er áætlað að nemi 2000 millj. kr., en ekkert af því fé rennur til veganna.

3. Magn vegaframkvæmda er skorið niður á sama tíma um a. m. k. 15% frá fyrra ári.

4. Fjáröflun til vegamála 1980–1982 er í lausu lofti og allt útlit fyrir að framlag ríkissjóðs verði fellt niður á þessum árum, ef marka má áætlunina eins og hún birtist hér.

5. Stefna í framkvæmdum á þessum árum, 1980–1982, horfir í rétta átt að ýmsu leyti. Þó leiðir hún til þess, að 30–40 ár tæki að leggja bundið slitlag á 2000–2500 km af íslenskum vegum ef framkvæmdahraði yrði ekki meiri, en það er sá hluti vegakerfisins sem í dag er arðbært að leggja varanlegu slitlagi.

6. Á þessu vegáætlunartímabili er ekki hægt að ljúka mikilvægum verkefnum á aðalsamgöngukerfi landsins sem byggja þarf upp vegna erfiðra vetrarsamgangna.

Af framangreindum ástæðum höfum við sjálfstæðismenn ritað undir nál. hv. fjvn. með fyrirvara.