13.11.1978
Neðri deild: 14. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

38. mál, verðlag

Frsm. meiri hl. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Mál þetta hefur hlotið athugun í fjh.- og viðskn. Nál. meiri hl. er á þskj. 77, en þar leggur meiri hl. til að frv. verði samþykkt óbreytt. Að þessum meiri hl. standa auk mín hv. þm. Halldór E. Sigurðsson, Vilmundur Gylfason, Kjartan Ólafsson og Finnur Torfi Stefánsson. Álit minni hl. liggur einnig fyrir á þskj. 81.

Hér er í rauninni um mjög einfalt mál að ræða og algerlega óþarft að eyða í það löngu máli. Lagt er til með þessu frv., að gildistöku tiltekinna laga, sem samþykkt voru á síðasta þingi, verði frestað til 1. nóv. á næsta ári, 1979. Þessi lög hefðu að réttu lagi átt að taka gildi 16. nóvember á þessu ári, eða eftir fáa daga, og það er því óhjákvæmilegt að afgreiða þetta mál tiltölulega fljótlega, ef á að verða við þeirri beiðni sem í þessu frv. felst. Það kemur fram, að meiri hl. n. fellst á þá ósk að framlengja tímann til gildistöku, og það kemur einnig fram í áliti minni hl., að hann getur fallist á að lengja nokkuð þennan tíma, en vill þó ekki.fresta því jafnlengi og meiri hl.

Það kom greinilega fram í framsöguræðu hæstv. viðskrh. við 1. umr. málsins, hvaða ástæður liggja til þess, að óskað er eftir þessari frestun. Hér er um að ræða að taka til framkvæmda nýja löggjöf, býsna viðamikla, sem krefst undirbúnings á mörgum sviðum. Án þess að fara frekar út í umr. um það málefni undirstrika ég að meiri hl. n. fellst á að frv., verði samþykkt óbreytt.

Ég vil svo óska eftir því, að hæstv. forseti sjái sér fært að afgreiða málið út úr d. í dag með því að taka það til 3. umr. eftir að 2. umr. er lokið. Þá væri mögulegt fyrir Ed. að fjalla um málið og afgreiða það þannig að það yrði gert í tæka tíð.