22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5238 í B-deild Alþingistíðinda. (4616)

185. mál, almennar skoðanakannanir

Frsm. (Gunnlaugur Stefánsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til skoðunar till. til þál. á þskj. 354, 185. mál. þingsins, sem fjallar um almennar skoðanakannanir. N. varð sammála um að mæla með samþykkt till. þannig breyttri, að tillgr. orðist svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa n. til þess að setja reglur um almennar skoðanakannanir.“

Undir þetta rita viðstaddir nm., Páll Pétursson, formaður, Ólafur Ragnar Grímsson, Bjarnfríður Leósdóttir, Gunnlaugur Stefánsson og Ellert B. Schram með fyrirvara. Fjarstaddir afgreiðslu málsins voru Vilmundur Gylfason og Lárus Jónsson.

Ég vil taka það fram vegna umr. um þessa till. og að gefnu tilefni, að það er ekki skoðun nm. að með þessari till. sé verið að samþykkja að settar verði reglur til þess að setja almennum skoðanakönnunum einar eða aðrar skorður, heldur fremur að reglurnar, sem settar yrðu, yrðu leiðbeinandi við framkvæmdina og þess efnis, að skoðanakannanir uppfylltu almenn skilyrði um framkvæmd þannig að fólkið í landinu mætti hafa eitthvert traust á niðurstöðum slíkra skoðanakannana.