22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5239 í B-deild Alþingistíðinda. (4619)

93. mál, endurskipulagning á olíuverslun

Frsm. minni hl. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki þau gögn við hendina sem æskilegt væri til þess að gera ítarlega grein fyrir afstöðu okkar í minni hl., en hún er í stuttu máli sú, að við mælum ekki með því, að þetta mál verði afgreitt á þessu þingi, og leggjumst gegn till. Þau gögn, sem ég hef þá í huga, eru umsagnir frá mörgum aðilum sem hafa tjáð sig efnislega um þetta mál. Það eru að vísu umsagnir sem bárust í fyrra um sambærilega till., en efnislega á sömu lund. Þær umsagnir voru nánast allar á þann veg, að ekki væri ástæða til þess að setja slíka athugun eða endurskipulagningu á fót, og eru margvísleg rök færð fram í því sambandi. Mér þykir leitt að hafa þessi gögn ekki við höndina til þess að geta farið ítarlega yfir þau, en ég held þó að það sem kannske vegi þyngst í þessu máli nú á þessu augnabliki, sé sú staðreynd, að ríkisstj. hefur nú þegar engu að síður og þrátt fyrir þá afstöðu, sem ég var að lýsa í nefndum umsögnum, skipað sérstaka nefnd til þess að framkvæma endurskipulagningu eða athugun á olíuverslun í landinu, og auðvitað situr við það. Og þá finnst manni ástæðulaust fyrir Alþ. að vera að álykta um að slík endurskipulagning verði gerð, þegar þetta mál er nú þegar í athugun.