22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5242 í B-deild Alþingistíðinda. (4629)

264. mál, fiskeldi að Laxalóni

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Sem formaður í allshn. Nd. vil ég þakka hv. síðasta ræðumanni, Einari Ágústssyni, í fyrsta lagi fyrir afar ánægjulegt samstarf í allshn. í vetur, ekki síst að þessu máli, í hvað við höfum lagt verulega vinnu til þess að komast að því, sem okkur öllum sjö úr öllum fjórum stjórnmálaflokkum finnst vera ekki einasta rétt, heldur einnig drengileg niðurstaða þessa máls. Og í annan stað þakka ég honum fyrir það sem mér þótti vera vel mælt hér í ræðustól nú rétt áðan. Enn fremur þakka ég hv. 1. þm. Vestf., Matthíasi Bjarnasyni, fyrir góð orð um þetta mál. Ég vil taka undir það með þeim báðum, að hér er auðvitað Alþ. að taka afstöðu, að ég hygg, til endanlegra afdrifa þessa máls. Snúist Alþ. gegn þessu máli nú á síðustu stundu, þá er það endanlegur dómur yfir ekki aðeins ævistarfi einstaklings, heldur og stórmerku brautryðjandastarfi sem unnið hefur verið. Það er svo annað mál, að þetta brautryðjandastarf getur haft og ég er sannfærður um að það á eftir að hafa stórkostlega efnahagslega þýðingu. Ræktun á seiðum þeim, sem hér er um að ræða, hefur í öðrum löndum skapað stórkostlega möguleika í atvinnulífi, og ég fyrir mitt leyti er sannfærður um að það getur skipt sköpum fyrir framtíð þessarar mikilvægu atvinnugreinar, hvaða meðferð þetta mál fær á Alþ.

Að öðru leyti vísa ég til ágætrar ræðu hv. þm. Einars Ágústssonar um það. Og ég verð einnig að segja það eins og er, að ég kann ekki að meta þá afstöðu að vera nú að leggja til að málinu verði vísað til n. Nefnd hefur verið að rannsaka þetta mál. Þá fyndist mér hreinlegra að leggja til að málið yrði fellt, ef menn svo kjósa. En að vísa málinu til n. á þessu kvöldi, á síðasta kvöldi Alþ. um sinn, það finnst mér vera óheiðarlegri leið til þess að fella málið heldur en hin væri: að segjast hreinlega vera á móti því og vilja greiða atkv. gegn því.

Ég endurtek þakkir mínar og þakkir fyrir hönd allshn. Nd. til þeirra sem fyrir þessu máli hafa mælt. Ég er sannfærður um að allshn. Nd., þeir sjö einstaklingar sem hana skipa, hefur alla vega unnið mikið starf að þessu máli í vetur, og ég er jafnsannfærður um hitt, að það hefur verið gott starf sem á eftir að leiða gott af sér.