22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5243 í B-deild Alþingistíðinda. (4633)

264. mál, fiskeldi að Laxalóni

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það má segja margt um það mál sem hér er til umr., og það má líka segja margt um óvenjuleg vinnubrögð á Alþ. Um það ætla ég ekki að deila í kvöld, hvað við köllum óvenjuleg vinnubrögð og hvað ekki óvenjuleg. Það er hins vegar svo, að í gegnum tíðina hafa menn átt erfitt með að skilja og skynja ný vinnubrögð, og ég held að þetta mál sé af því tagi sem við getum kallað ný vinnubrögð, — vinnubrögð sem eru til fyrirmyndar að mínu mati. Þessi vinnubrögð eru sprottin af því, að þingnefnd hefur tekið frumkvæði í sínar hendur til þess að koma máli fram, í stað þess að setjast á mál eða tefja fyrir máli, sem kannske hefur verið algengara í þingnefndum en að hafa frumkvæði um að koma málum fram.

Ég lít svo á þá till. sem hér er komin fram um að vísa þessu máli til n. — eftir að allshn. Nd. er búin í allan vetur að ræða við málsaðila, fjölda manna, safna gögnum og upplýsingum og fá færustu menn á þessu sviði til viðræðna við n., — að fara þá að gera kröfu um að vísa málinu aftur til n. í Sþ. til þess að fara sama hringinn, það sé nákvæmlega sama og að segja — og það hefði verið mun heiðarlegra að segja: Þetta mál viljum við ekki að fái framgang á þingi. — Það hefði verið bæði karlmannlegra og heiðarlegra, — og því ekki að segja það ef menn hugsa það? Þessi afstaða, að fara þannig að málinu eins og hér hefur verið gert, er að mínu mati furðuleg, og auðvitað er tilgangurinn augljós og þarf ekkert að fara í grafgötur um hann.

Ég vil segja þá skoðun mína, að ég lít á þetta mál fyrst og fremst sem réttlætismál þar sem einstaklingur og kerfið hafa tekist á. Annars vegar er athafnasemi og framtakssemi einstaklings sem hefur reynt að berjast áfram að ákveðnu og tilteknu marki, hins vegar er embættisvaldið, sem kannske oft á tíðum á vafasaman hátt hefur komið í veg fyrir að þessi framkvæmdavilji gengi fram. Ég vil einfaldlega segja það um þetta mál, að það liggur afskaplega ljóst fyrir í mínum huga að hér er þingið að leysa hnút sem embætti umboðsmanns Alþingis hefði að öllu eðlilegu leyst. En hann er ekki til, það embætti er ekki til. Einstaklingur í þjóðfélagi, sem telur sig órétti beittan af embættismannavaldinu, hefur ekkert að snúa sér, hann getur ekkert farið, hann getur ekki leitað réttar síns nema fyrir dómstólum. Dómstólaleiðin er dýr og hún er oft ófær vegna þess hve mál tefjast þar oft á tíðum. Það þarf ekki að segja mönnum margar sögur af því, hvernig það gengur fyrir sig, því að mjög margir hafa reynt það og þekkja það.

Ég vil nú segja það í fullri sátt og raunar sem eins konar málamiðlun gagnvart hv. þm. Þórarni Sigurjónssyni, að hér er á ferðinni mál, — þ. e. lax- og silungseldi sem Skúli Pálsson í Laxalóni hefur ástundað um áratuga skeið, hér er á ferðinni mál sem einmitt hans flokkur framar öllum öðrum flokkum í landinu ætti að taka upp á sína arma, styðja við og styrkja og reyna að efla. Hér er á ferðinni ein af framtíðarbúgreinum, hliðarbúgreinum í íslenskum landbúnaði, Ég vil álykta sem svo, að einmitt til þess að styðja við bakið á þeim mönnum, sem hafa frumkvæði í sér, sem hafa löngun og dug til þess að ganga fram í málum af þessu tagi, til þess að afla reynslu sem getur komið öðrum að gagni, ættu þeir menn, sem í orði — og ég vil kannske segja líka á borði, ekki vil ég draga það í efa — vilja styðja íslenskan landbúnað og þróun hans, að beita sér. Þetta er mjög einfalt í mínum huga — mjög einfalt, og ég veit að hv. framsóknarmenn, sem hafa talað í þessu máli, eru á sömu skoðun og ég um þetta. En hvað kann að ráða ferðinni, veit ég ekki. Hvað kann að ráða því, að þeir vilja reyna að tefja þetta mál, koma því fyrir kattarnef, það er ofvaxið mínum skilningi gersamlega. Ég hefði talið að það væri einmitt hlutverk þeirra að styðja við bakið á fiskrækt á Íslandi almennt. Hún er mjög vanþróuð grein hér og það hefur allt of lítil rækt verið við hana lögð. Þetta er búgrein sem í nágrannalöndum okkar gefur tugi og hundruð millj. kr. í aðra hönd á hverju einasta ári.

Ég mótmæli því algerlega, að þessu máli verði vísað til n., og vil raunar óska eftir því við þann hv. þm., sem gerði það að till. sinni, að hann dragi þessa till. til baka.