22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5245 í B-deild Alþingistíðinda. (4634)

264. mál, fiskeldi að Laxalóni

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það sem ég sagði hér áðan hefur kveikt heldur betur í hv. þm. Það var þó ekki annað en það, að ég benti á að þetta væri óvenjuleg málsmeðferð, og ég fer ekki ofan af því. Það e: ekki n. í Sþ. sem hefur flutt þessa till., og ég sagði aðeins að ekki hefði komið fyrir á mínum þingferli að slík málsmeðferð hafi átt sér stað.

Í raun og veru er það blekking, sem kom fram hjá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, að þessi till, fjalli um fiskrækt. Það er allt annað málefni í raun og veru sem hún fjallar um. Hún fjallar fyrst og fremst um skaðabætur til Skúla á Laxalóni, þó að till. sé svona upp sett, — ég vil benda á það. Og það hefði einhvern tíma þótt ástæða til þess að vísa slíkri till. til fjvn. að fjalla um, því að þarna gæti vissulega orðið um það að ræða að n. eða dómstóll, hvort sem heldur væri, kæmist að þeirri niðurstöðu, að honum bæri bætur. Það kann að vera að þeir hv. þm. sem hafa athugað þetta mál, hafi það á tilfinningunni að honum beri bætur, og það var það sem ég sagði, að það er ekki n. í raun og veru sem getur úrskurðað það beint, ég álít að það séu dómstólarnir, þó að ég sé ekki lögfræðingur. Hitt væri betra, ef hv. þm., sem hér talaði á undan mér, Árni Gunnarsson, hefði alltaf jafnmikla réttlætistilfinningu hér á hv. Alþ. eins og virtist koma fram í máli hans áðan.