22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5245 í B-deild Alþingistíðinda. (4635)

264. mál, fiskeldi að Laxalóni

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil minna hv. síðasta ræðumann á það, að mál þetta barst inn á Alþ. sem erindi frá einstaklingi sem telur sig — og hefur talið í langan tíma — vera misrétti beittan af embættismönnum ríkisins í skjóli þeirra laga sem Alþ. hefur sett, þannig að ég tel ekki óeðlilegt að einstakir þm. taki upp mál sem berast lestrarsal Alþingis eða Alþingi, ef þeim líst þannig á að málefnið sé þess virði.

Nú hefur það átt sér stað, að margir þm., heil þingnefnd hefur talið þetta erindi, sem borist hefur frá Skúla á Laxalóni, Skúli Pálssyni, þess virði að n. sem heild sameinist um að málið verði afgreitt á Alþ. Og ég vil segja það sem mína skoðun, að sú hugmynd, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. varpaði hér fram, að vísa málinu frá og til dómstóla, sé mjög slæm og að Alþ. bregðist því trausti sem einstaklingur í þjóðfélaginu sýnir Alþ. með því að senda erindi hingað inn þegar hann telur sig misrétti beittan, þannig að ég harma það að hv. 5. þm. Norðurl. e. skuli láta í ljós skoðanir sem þessar í málinu. En ég vil beina máli mínu til hæstv. forseta með sérstakri ósk um að þetta mál verði ekki tekið út af dagskrá, þetta mál hljóti afgreiðslu áður en þingi verður slitið á morgun.

Hér er till. til þál. um aðgerðir vegna fiskeldis að Laxalóni, og ég held að fiskeldið á Laxalóni — og öll þau mörgu ár, hið mikla brautryðjandastarf sem Skúli Pálsson hefur unnið í fiskeldismálum á Íslandi — sé þess virði, að málið og ævistarf hans sé kannað. Það getur vel verið, að þá komi í ljós að reynslan, sem hann hefur flutt til landsins, sé þess virði að eitthvað sé fyrir hana borgað. Alla vega þarf að kanna það, og hv. allshn. Nd. leggur til að skipuð verði þriggja manna nefnd og henni falið að gera þessa könnun, sem sagt að meta það brautryðjandastarf sem Skúli Pálsson hefur unnið við eldi á regnbogasilungi hér á landi. Það getur ekki verið ósanngjarnt að Alþ. kanni og komist þá að niðurstöðu um það, hvort ævistarf og brautryðjandastarf Skúla Pálssonar sé þess virði að fjárfest sé í því frekar, að þekkingunni sé viðhaldið, að það sé þjóðnýtt til góðs í framtíðinni. Þá þarf að meta það tjón sem kann að verða vegna niðurskurðar á regnbogasilungsstofni Skúla Pálssonar þar til nýr stofn er orðinn kynþroska og arðbær. Það er ekki heldur óeðlilegt, þar sem það er á vegum embættismanns sem þessi niðurskurður á að eiga sér stað, dr. Sigurðar Helgasonar fisksjúkdómafræðings. Það er sem sagt á vegum hins opinbera sem niðurskurðurinn á að eiga sér stað. Það er ekki heldur óeðlilegt að meta verðmæti stöðvarinnar á Laxalóni með það fyrir augum að Alþ. samþykki að ríkið festi kaup á henni, vegna þess að þar eru talsverð mannvirki og má segja að afrakstur af ævistarfi Skúla Pálssonar liggi þar í. Stöðin hefur ekki orðið arðbær á eðlilegan hátt vegna aðgerða embættismanna sem hafa tekið afstöðu gegn Skúla Pálssyni og starfi hans í skjóti þeirra laga sem sett hafa verið í þessari hv. stofnun, Alþingi Íslendinga sjálfu. Þannig má rekja hverja till. á eftir annarri, hvert verkefnið á eftir öðru, sem hv. allshn. Nd. hefur gert till. um að þessari þriggja manna nefnd verði falið að vinna.

Í grg., sem fylgir þessari till., segir að allshn. Nd. hafi um nokkurra mánaða skeið að eigin frumkvæði haft málefni Skúla Pálssonar á Laxalóni og samskipti hans við opinbera aðila til athugunar. N. hefur leitað til sérfróðra manna í fiskeldismálum, og mér er óhætt að segja að sá tími, sem hefur farið annars vegar í þessar kannanir n. og svo hins vegar í að kanna deilumál Skúla Pálssonar við embættismannakerfið, er það langur að hann er líklega 3–4 sinnum háskólanám í hvaða grein sem kennd er í Háskóla Íslands. Þar með held ég að búið sé að kanna þetta mál nokkuð vel, því að þeir aðilar, sem allshn. Nd. hefur leitað til, hafa allir verið við þetta mál riðnir í lengri eða skemmri tíma.

Í grg. segir að það hafi komið í ljós, að hér sé um að ræða deilumál sem erfitt sé að leggja á tölulegt mat, málið sé öðrum þræði af tilfinningalegum toga spunnið og hafi tekist á framkvæmdavilji annars vegar og verndunarsjónarmið hins vegar. Hér vil ég segja það eitt, að embættismenn, — kerfiskarlarnir sem oft hafa verið nefndir hér á hv. Alþ., — hafa ekki leyfi til að láta tilfinningarnar ráða í deilumálum sem þessum. Þetta mál er búið að standa — ég held að ég hafi lesið það í grg. einhvers staðar — í 25 ár — og það er ábyrgðarhluti að láta þessa deilu halda áfram, því að það er staðreynd að þessi atvinnugrein er arðbær í öðrum löndum, því verður ekki á móti mælt. Hvað hefur þá tapast í verðmætum vegna afstöðu embættismanna sem um málið hafa fjallað? Eins og hér stendur í grg.: „Málið er að öðrum þræði af tilfinningalegum toga spunnið.“ Hér segir líka að Skúli Pálsson hafi hafið eldi á regnbogasilungi árið 1951 eftir að hafa flutt regnbogasilungshrogn til landsins. Þó að þekking á fisksjúkdómum hafi þá ekki verið mikil hefur henni fleygt fram síðan. Þá kemur fram í grg., að komið hafi fram í viðræðum við þá sérfróðu menn, sem taldir eru upp og nafngreindir í grg. frá allshn. Nd., að ekki hafi í röskan aldarfjórðung fundist neinn kvilli í regnbogasilungsstofninum. Af hverju hefur þá þessi tregða verið í embættismannakerfinu? Hefur hugarfarið verið meira sýkt heldur en fiskurinn, sem þeir voru að vernda, eða lífríkið, eins og kemur fram í grg.?

Hv. allshn. Nd. segir líka í grg. sinni, að þessa afstöðu hafi sumir nefnt óeðlilega tregðu embættismanna og stjórnvalda, og þetta er altalað á meðal fólks. Það er altalað að hér hafi lítilmagninn, einstaklingurinn í þjóðfélaginu, verið fótum troðinn í langan tíma. Og þegar hann leitar þá til þess, sem hann í augnablikinu grípur til sem hálmstrás í sínum málum eftir aldarfjórðungsbaráttu við kerfið, æðstu stofnunar þjóðarinnar, Alþingis Íslendinga, þá á að sparka honum út. Því vil ég mótmæla. Ég verð að segja það alveg eins og er, að ég tel það þessum einstaklingi til hróss, að hann skuli ekki fyrir löngu, eins og svo mýmargir aðrir, hafa gefist upp fyrir kerfinu. Það er miklu algengara, að fólk hreinlega leggi árar í bát og bölvi svo og ragni þessu kerfi sem það ræður ekkert við og kemst ekkert áfram með. Ég verð að segja, að ég dáist að þessum manni að hann skyldi ekki missa þolinmæðina í slag sínum við kerfið fyrir löngu, löngu.

Í niðurstöðum n. segir að ekki teiki vafi á því, að Skúli Pálsson hafi orðið fyrir og eigi eftir að verða fyrir fjárhagslegu tjóni vegna þróunar mála. Ég held að við verðum að vera sammála um það, að úr því sem komið er gerum við okkar besta til þess að hann verði ekki fyrir frekara tjóni. Og hvers vegna? Af hverju hefur maðurinn orðið fyrir tjóni og af hverju tek ég þannig til orða, að við eigum að koma í veg fyrir að hann verði fyrir frekara tjóni? Það er m. a. vegna þess, að afstaða embættismanna hefur mótast í skjóli laga sem þeir beita að mínu mati á annan hátt en löggjafinn ætlaðist til við lagasetninguna. Þess vegna vil ég biðja okkar virðulega forseta að beita sér fyrir því, að hv. Sþ. afgreiði þetta mál á þessu þingi, svo að það rísi undir því trausti sem viðkomandi þjóðfélagsþegn ber til þess. Það gæti kannske orðið til þess að bæta eitthvað úr því áliti sem fólk er farið að hafa á þessari æðstu og virðulegustu stofnun þjóðarinnar.