22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5248 í B-deild Alþingistíðinda. (4638)

264. mál, fiskeldi að Laxalóni

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég sé nú að hv. 1. Vestf. stendur á fætur, en mér datt einmitt í hug, þegar ég hlustaði á ummæli hans hér áðan um það, að hv. þm. Stefán Valgeirsson væri með 100 ára gamlan hugsunarhátt, að ef ég færi hér upp í pontuna og lýsti skoðun minni, þá mundi ég sennilega fá þann dóm hjá hv. 1. þm. Vestf., að minn hugsunarháttur í þessu máli væri trúlega 200 ára gamall. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar, að þessi till. sé alveg fráleit. Ég er reyndar ekki neinn sérstakur áhugamaður um þetta mál og hafði ekki hugsað mér að fara að blanda mér mikið í þær umræður sem hér hafa orðið — tel það ekki stórmál til eða frá á neinn veg, — en fyrst hér eru orðnar tangar og að sumu leyti skemmtilegar umr. vil ég samt leggja hér líka orð í belg til að andmæla ýmsu því sem sagt hefur verið.

Það segir í upphafi þessarar till.: „Alþingi ályktar: Að skipuð verði þriggja manna nefnd sem verði falið að vinna að eftirfarandi verkefnum.“ Það kemur ekkert fram um það, hver á að skipa þessa nefnd. Trúlega er átt við að það sé Alþ., en ljóst er það ekki. Því síður kemur nokkuð fram um það, hvers konar menn á að velja í þessa nefnd. Á að velja þá út frá því, að þeir hafi einhverja sérstaka þekkingu til að meta það sem síðar segir í till., eða með tilliti til hvaða sjónarmiða er ætlunin að velja þennan þriggja manna hóp? Allt er þetta mjög óljóst. Síðan segir áfram í till. um verkefnið: „Að meta það brautryðjandastarf, sem Skúli Pálsson hefur unnið við eldi á regnbogasilungi hér á landi.“ Meta brautryðjandastarfið, á hvaða hátt? Er um það að ræða að meta það til fjár? Það skyldi maður telja líklegt, miðað við það sem kemur síðar í till. Þó er það alls ekki ljóst. Eða á að meta það til orðstírs? Eða hver er tilgangurinn með þessu? Þetta er allt þannig úr garði gert hjá hv. tillögumönnum, með allri virðingu fyrir þeim, að það kemur á engan hátt fram, hvað þessum þrem mönnum er í rauninni ætlað að gera.

Þegar kemur að næsta lið, þá er það út af fyrir sig nokkuð ljóst, að matsmennirnir eiga, eins og hér segir, að meta tjón það sem kann að verða vegna niðurskurðar á regnbogasilungsstofni Skúla Pálssonar þar til nýr stofn er orðinn kynþroska og arðbær. Það er út af fyrir sig ákaflega nýstárlegt, en þarf ekki að vera ómögulegt þess vegna, ef Alþ. á að fara að taka sig fram um það að úrskurða um hugsanlegar skaðabætur í viðskiptum milli einstaklinga eða milli einstaklinga og opinberra stofnana. Ég held að við værum með slíkri samþykkt að opna braut sem býsna margir kynnu að vilja ráðast inn á. Við höfum aðra aðila í því stjórnkerfi sem við búum við sem ætlað er að annast slík verkefni. Við höfum í fyrsta lagi dómstólana, og það er að sjálfsögðu ekkert óeðlilegt, ef einn maður telur sig verða fyrir tjóni, kannske af völdum misviturra embættismanna, að hann leiti réttar síns hjá dómstólum. Ef maðurinn er illa settur fjárhagslega, — ekki þekki ég það í þessu tilviki, — teldi ég ósköp eðlilegt að honum yrði veitt gjafsókn í slíku máli af hálfu ríkisins. En auðvitað eiga það að vera sérstaklega til þess bærir menn sem um þetta fjalla, dómarar eða tilkvaddir matsmenn með hæfileika sem slíkir og kunnáttu, en ekki einhver og einhver einstaklingur sem hefur ekki neinar sérstakar forsendur til að fjalla um það. En þann háttinn á að hafa á, að þingkjörin nefnd meti þetta, hvað á þá síðan að gerast? Það kemur ekki heldur fram þarna. Á úrskurður þessarar nefndar að gilda? Við skulum segja að hún meti tjónið á 10 millj. — Á þá ríkissjóður bara að borga þessar 10 millj.? Það kemur alls ekki fram hvort gert er ráð fyrir því. Á þetta bara að prentast í einhverri blárri bók sem álit þessara þriggja manna og ekkert meir? Eða er kannske hugmyndin sú, að hópurinn — nú vitum við ekkert, hvort gert er ráð fyrir að það séu alþm. eða einhverjir aðrir, en hverjir sem það eru — geri þá till. til. Alþ. um það, að á fjárlögum verði veitt upphæð sem svarar þeim bótum sem þriggja manna hópurinn kynni að komast að niðurstöðu um að væru réttmætar? Allt er þetta í einum graut í till. og ekkert skýrt hver meiningin er. Þess vegna er till. fráleit.

Þriggja manna hópurinn á einnig að meta verðmæti stöðvarinnar á Laxalóni með það fyrir augum að Alþ. samþykki að ríkið festi kaup á henni. Þarna virðist því vera slegið föstu fyrirfram, að matið, sem gert er ráð fyrir, fari fram með það fyrir augum að Alþ. samþykki að ríkið festi kaup á henni. Þetta er sérstök ákvörðun út af fyrir sig, býsna stór. Ég er ekki tilbúinn til að standa að því hér að samþykkja að Alþ. kaupi þessa stöð. Það er enginn rökstuðningur færður fram í grg. fyrir því — ekki nokkur. Hins vegar segir í grg.: „Málið er öðrum þræði af tilfinningalegum toga spunnið.“ Það mætti ætla að hugmyndin væri sú, að í þessum þriggja manna hópi yrðu kannske fyrst og fremst sálfræðingar og prestar. Og hér segir áfram í grg.: „Málið er öðrum þræði af tilfinningalegum toga spunnið, og hafa tekist á framkvæmdavilji annars vegar og verndunarsjónarmið hins vegar.“ Og áfram: „Stjórnvöld og embættismenn verða ekki áfelld fyrir að taka tillit til verndunarsjónarmiða gagnvart viðkvæmu lífríki landsins. Því síður er unnt að áfellast athafnamenn, sem vilja efla og auka rekstur sinn.“ Ja, þvílík viska! Hvar er þá sökin að dómi tillögumanna? Hún er ekki hjá stjórnvöldum. Auðvitað vernda þau lífríkið, segir hér, það er sjálfsagt mál. En athafnamennirnir auka rekstur sinn og eiga að gera það, ekki er hægt að áfellast þá, segir hér. En sökudólgurinn, hvorugur af þessum, hver er hann? Ófinnanlegur? En ríkið á bara að borga eftir slumpareikningi.

Ég þarf ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. Mér þykir leitt að þurfa að dæma till. svona hart vegna þeirra mætu manna sem sæti eiga í hv. allshn. Nd. og flytja tillöguna. Ég held að þarna hafi þeir, sjálfsagt af góðum vilja, ætlað sér að vinna einhvers konar miskunnarverk á þessum ákveðna þjóðfélagsþegni, Skúla Pálssyni, en ég held að allur grundvöllur till. sé á algerum misskilningi byggður.

Varðandi það, hvort eigi að vísa þessari till. til n. eða ekki, þá tek ég það fram, að ég hef ekkert við úrskurð hæstv. forseta í þeim efnum að athuga. Það hefði að sjálfsögðu verið eðlilegra að till. um nefnd sem flutt var í kvöld um nefnd, hefði komið fram við fyrri umr., og það er galli á þeirri till., hvað hún er seint fram komin. Að öðru leyti tek ég það fram, að enda þótt ein ákveðin þingnefnd flytji mál, þá geri ég ekki mikinn mun á því eða hinu, að málið væri flutt af þeim sömu sjö einstaklingum, sem í n. eiga sæti. Og þá er ekkert óeðlilegt að aðrir, sem kynnu að eiga sæti hér í allshn. Sþ., vildu líka fjalla um málið í n. Ég segi fyrir mig, að ef hér væri ekki komið að þinglokum og ef ég hefði átt sæti í allshn. Sþ., þá býst ég við að ég hefði gert kröfu um að fá málið til umfjöllunar í þeirri n. enda þótt það væri flutt af allshn. Nd.