22.05.1979
Neðri deild: 97. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5270 í B-deild Alþingistíðinda. (4671)

291. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal virða þau tilmæli að vera stuttorður. Mig langar til þess að minnast hér á mál, þ. e. brtt., sem kemur fram á þskj. 863, var sýnd og skriflega flutt við 2. umr., dregin til baka, en liggur núna fyrir, og vekja athygli á þessu máli. Þar er um að ræða orðalag minni hl. framleiðsluráðslaganefndar og jafnframt um að ræða yfirlýsta stefnu miðstjórnar Alþýðusambands Íslands og stefnu sem hefur fengið viðurkenningu vinnuveitenda um það, hvernig hentugast er að standa að verðákvörðunum í landbúnaði, þannig að að þessu leyti virðist vera óþarfi að efna til beinna samninga milli framleiðenda í landbúnaði annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar, þótt það kunni að vera á öðrum sviðum. Með þessu er jafnframt ljóst að þær forsendur, sem liggja til breytingar á þessum ákvæðum, eru úr gildi fallnar.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál, en vildi fá tækifæri til þess að lýsa þessum sjónarmiðum.