22.05.1979
Neðri deild: 97. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5270 í B-deild Alþingistíðinda. (4672)

291. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Á þskj. 857 hafa ásamt mér lagt hér fram brtt. við bráðabirgðaákvæði þessa frv. Lúðvík Jósepsson, Þórarinn Sigurjónsson og Finnur Torfi Stefánsson. Brtt. hljóðar svo:

„Við ákvæði til bráðabirgða. Aftan við ákvæðið bætist ný mgr.:

Ríkisstj. er heimilt að ábyrgjast lán allt að 3 milljörðum kr. er Framleiðsluráð landbúnaðarins tekur til framkvæmda á tillögum nefndarinnar. Það skilyrði verði á ábyrgð ríkisins að ráðstöfun lánsins gangi fyrst og fremst til að tryggja hag efnaminni bænda og þeirra sem hafa meðalbú eða minna.“

Það hefur komið fram í umr. um þetta mál hér í hv. d., að ef slík ábyrgð verður ekki heimiluð af hv. Alþ. neyðist Framleiðsluráð til að leggja á verðjöfnunargjald nú næstu daga sem mun nema 200 kr. á hvert kg og um 18 kr. á hvern mjólkurlítra. Það er óþarfi að ræða þetta mál frekar því að það hefur verið mikið rætt hér í hv. deild.