22.05.1979
Neðri deild: 97. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5271 í B-deild Alþingistíðinda. (4673)

291. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Ég hef orðið þess var, að sú ákvörðun, sem tekin var hér við atkvgr. í hv. Nd. í gær, þegar gengið var til atkv. um ákvæði til bráðabirgða sem till. hafði komið um frá hv. landbn., hefur orðið til þess, að menn fóru þegar í stað á stúfana til þess að reyna að breyta efnisinntaki þeirra ákvarðana sem hv. d. tók í gær í atkvgr. Mér finnst ekki rétt að láta atkvgr. ganga aðeins um það eina afmarkaða atriði, hvort rétt sé að komið verði með einhverjum hætti til móts við vanda landbúnaðarins vegna offramleiðslu, sem öllum er ljóst að orðið hefur af ýmsum ástæðum. Ég vil gjarnan, að fram geti komið afstaða til málsins í heild, og hef því flutt á þskj. 864 svo hljóðandi brtt., með leyfi hæstv. forseta:

„Framleiðsluráð landbúnaðarins skal eins fljótt og við verður komið láta Sexmannanefnd í té sem nákvæmastar upplýsingar um vanda þann, sem skapast hefur sökum þess að framleiðsla landbúnaðarafurða hefur orðið meiri en svo að verðábyrgð ríkissjóðs sökum útflutnings á framleiðslu umfram innanlandsþarfir nægi. Í upplýsingum þessum komi m. a. fram hvert verða muni líklegt tekjutap bænda, verði ekkert að gert, svo og hvaða kostnað þurfi að greiða sökum umframframleiðslunnar öðrum en framleiðendum sjálfum, svo sem vinnslu-, sölu- og geymslukostnað.

Sexmannanefnd skal gera till. til ríkisstj. um hvernig bregðast megi við þessum vanda þannig að takist að draga úr áhrifum tekjutapsins hjá framleiðendum, einkum þeim tekjulægstu, m. a. með þátttöku vinnslu- og sölusamtaka landbúnaðarins í þeirri lausn.

Till. þessar verði lagðar fyrir ríkisstj. svo tímanlega að færi gefist á að taka afstöðu til hugsanlegrar fjárhagslegrar fyrirgreiðslu í þessu skyni við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjáráætlunar á næsta reglulegu Alþingi.“

Ég vil sem sagt gjarnan að atkv. geti gengið um þá afstöðu sem í þessari tillgr. kemur fram, en till. er sem sé sú, að ákvæði til bráðabirgða verði orðað upp með þessum hætti. Þarna kemur fram í fyrsta lagi vilji til þess að fá úr því skorið, hvaða tekjutap sé fyrirsjáanlegt hjá framleiðendum landbúnaðarafurða, ef þeir þurfa í einu vetfangi að taka á sig afleiðingarnar af þeirri miklu umframframleiðslu sem orðið hefur í landbúnaði að undanförnu.

Í öðru tagi er í till. lýst þeirri afstöðu, að það þurfi einnig að afla upplýsinga um hvaða kostnaður sé á þessa umframframleiðslu fallinn og hverjir það séu sem muni fá þennan kostnað að fullu eða mestu greiddan, úr ríkissjóði væntanlega, ef sá háttur yrði á hafður við afgreiðslu þessa vanda sem hefur verið á hafður til þessa, þ. e. að ríkissjóður borgi brúsann.

Í þriðja lagi finnst mér eðlilegt, sem flyt þessa till., að þegar um það er að ræða að þarna er talsverður vandi sem við blasir í landbúnaðarmálunum, þá sé hann ekki alfarið færður á reikning framleiðendanna, eins og gert hefur verið í öllum umr. um málið, þar sem ávallt hefur verið látið í það skína að hér sé aðeins um að ræða vanda bænda, á sama tíma og aðrir, sem hafa hag af þessari umframframleiðslu með einum eða öðrum hætti, hafa ávallt sitt á þurru. Ég tel eðlilegt að allir þessir aðilar taki þátt í lausn vandans, bændur og ekki síður sölusamtök þeirra og vinnslustöðvar.

Í fjórða lagi finnst mér svo sjálfsagt að till. verði lagðar fyrir ríkisstj. svo tímanlega að henni gefist færi á að taka afstöðu til hugsanlegrar fjárhagslegrar fyrirgreiðslu, sem að sjálfsögðu getur verið með mörgu móti. Ég tel mjög óeðlilegt að Alþ. sé að veita lánsfjárheimild núna, eða heimild til ábyrgðar ríkissjóðs, án þess að hafa hugmynd um hvers konar fyrirgreiðsla er höfð í huga eða hvernig menn hyggist greiða það lán sem e. t. v. yrði tekið. Ég vil að þetta sé fyrst ljóst, áður en ákvörðunin er tekin, en ákvörðunin sé ekki tekin fyrst og síðan séu allar gáttir opnar til framkvæmda á eftir. Ég vil einnig minna á að hæstv. ríkisstj. náði samkomulagi um ramma lánsfjáröflunar á yfirstandandi ári, og og tel mjög varhugavert og raunar hreint ábyrgðarleysi að ætla að sprengja þann ramma um svo miklar fjárhæðir sem hér um ræðir.