22.05.1979
Neðri deild: 97. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5273 í B-deild Alþingistíðinda. (4680)

291. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Mér er ekki nokkur leið að skilja hvernig á því stendur, að þrátt fyrir það að spurningar eru ítrekað lagðar fyrir hæstv. landbrh. um það, hvernig það lán, sem hér er verið að samþykkja að taka skuli, eigi að endurgreiðast, fást engin svör. Ég tel það vera lítilsvirðingu við þingheim og þm. þegar ráðherrar skjóta sér undan að svara spurningum, og ég óska eftir því nú við þessa atkvgr., ef hæstv. ráðh. hefur ekki þegar greitt atkv., að hann geri þingheimi grein fyrir því, hvernig á að endurgreiða þetta 3 milljarða kr. lán. Ég hef það á tilfinningunni, að það sé ekki önnur leið en að bæta þessu á vöruverð, og því segi ég nei.