22.05.1979
Neðri deild: 98. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5274 í B-deild Alþingistíðinda. (4686)

298. mál, ríkisreikningurinn 1977

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Hér fór fram s. l. nótt umr. um þetta dagskrármál, sem er ríkisreikningur. Það hafa áður farið fram umr. um það og verið bornar fram spurningar, m. a. til hæstv. iðnrh., vegna þess að verið var að fjalla um og spyrja ákveðinna spurninga um Kröfluvirkjun, um viðskipti hennar. Þetta eru mál sem nú eru á könnu hæstv. iðnrh. Hæstv. iðnrh. er einn af baráttumönnum þess að þing hætti störfum á morgun, en er jafnframt samverkamaður manna í ríkisstj. sem eru að tala um það opinskátt í fjölmiðlum að fara að setja lög í launamálum og öðru, sem ég fæ raunar ekki séð að komi heim og saman við þingræðisvenjur og þingræðishugsjónir. Hæstv. iðnrh. hafði verið spurður spurninga, en sýndi deildinni, þinginu og þessari stofnun þá virðingu að læðast út úr salnum um leið og umr. hófust og vera víðs fjarri þegar umr. um þetta fóru fram og spurningar til hans voru ítrekaðar. Þar sem hér fer fram 3. umr. um þetta mál, og ef samþykkt verður fer það út úr þessari hv. d., þá sé ég ekki annað tækifæri en þetta til þess — ég veit ekki hvort það er mögulegt að ítreka spurningar til mannsins sem hann augljóslega vill ekki svara — en alla vega undirstrika það sem mér þykir vera dæmalaus vinnubrögð af hans hálfu.

Ég nefni þetta í samhengi við þær þinglausnir sem standa fyrir dyrum, vegna þess að þær eru auðvitað forsenda og undirstaða þeirra óðagotsvinnubragða sem hafa verið ástunduð nú s. l. daga og nætur hér á hinu háa Alþingi. Úr því að þessu hefur ekki verið svarað, þá get ég víst varla vænst svara nú, en þykir þó bæði rétt og skylt að benda á að þetta eru ótilhlýðileg vinnubrögð af ráðherra.