18.10.1978
Neðri deild: 5. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

4. mál, stjórnarskipunarlög

FIm. (Gunnlaugur Stefánsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er á þskj. 4 og er til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands frá 17. júní 1944. Frv. hljóðar þannig, að 33. gr. stjórnarskrárinnar orðist svo:

„Kosningarrétt við kosningar til Alþingis hafa allir, karlar og konur, sem verða 18 ára á því ári, sem kosning fer fram, eða eldri, hafa íslenskan ríkisborgararétt og eiga lögheimili hér á landi. Þó getur enginn átt kosningarrétt nema hann hafi óflekkað mannorð og sé eigi sviptur lögræði.

Kosningalög setja að öðru leyti nánari reglur um alþingiskosningar.“

Sú breyting, sem þetta frv. felur í sér á gildandi stjórnskipunarlögum, er að kosningaaldur miðist við 18 ár í stað 20 og þeir fái kosningarrétt sem verði 18 ára á því ári sem kosning fer fram, í stað núgildandi viðmiðunar við afmælisdag.

Kosningarréttur tilheyrir grundvallarmannréttindum. Þegar Alþingi var endurreist árið 1885 höfðu aðeins karlmenn, sem áttu jarðir, kosningarrétt. Allt fram yfir aldamót urðu karlmenn að greiða lágmarksútsvar til að fá kosningarrétt og konur fengu ekki kosningarrétt fyrr en árið 1915. Ísland var raunar í hópi fyrstu ríkja til að veita konum kosningarrétt, en fyrst var kosningarréttur kvenna miðaður við 40 ára aldur, en skyldi lækka í áföngum niður í 25 ár. Í áratugi voru í gildi ákvæði þess efnis, að menn misstu kosningarrétt sinn ef þeir stóðu í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk. Í þá tíð var fátæktin mikið þjóðarböl og þannig var einstaklingum refsað fyrir fátækt sína.

Barátta fyrir lækkun kosningaaldursins úr 25 árum í 21 hófst ekki fyrr en Alþfl. var stofnaður árið 1916. Árin upp úr 1920 bar Jón Baldvinsson málið upp á Alþingi og flutti það ár eftir ár.

Áfangasigur náðist árið 1934, þegar Alþfl. knúði málið fram með stjórnarskrárbreytingu. Kosningaaldurinn var þá færður úr 25 árum í 21 ár og skilyrði um sveitarstyrk voru afnumin.

Árið 1965 kemur hugmyndin um 18 ára kosningaaldur fyrst fram á Alþ. Það voru þm. Alþfl. sem fluttu málið. Þar með hóf Alþfl. enn nýja baráttu fyrir lækkun kosningaaldurs, en það fór eins og svo oft áður, að þm. Alþfl. virtust einir á báti um að koma mikilvægum lýðréttindamálum alþýðufólks fram á Alþingi. Þó náðist í framhaldi af þessum frumvarpsflutningi samkomulag um að nefnd yrði sett í kosningaaldursmálið og það kannað. Niðurstaða nefndarstarfsins varð sú, að samkomulag náðist um að færa kosningaaldurinn niður um eitt ár eða úr 21 ári í 20. Þessi breyting tók gildi árið 1968.

Þm. Alþfl. tóku málið upp aftur árið 1974 og lögðu enn til við Alþ. að 18 ára kosningaaldur skyldi lögleiddur. Málið var svæft í n. og hefur jafnan verið gert síðan þegar till. um sama efni hafa komið fram á Alþingi.

Árið 1965, þegar hugmyndin um 18 ára kosningarrétt kom fyrst fram á Alþ., átti málið ekki miklum stuðningi að fagna hjá þm. annarra stjórnmálaflokka en Alþfl. En á þeim 13 árum, sem liðin eru, hefur ýmislegt breyst og afstaða stjórnmálasamtaka, sem áður vildu ekkert með málið hafa að gera, jafnvel orðin jákvæð gagnvart þeirri nauðsyn að lögfesta þessi réttindi. Hv. þm. Alþb. bar t.d. fram tillögu í fyrsta sinn á síðasta þingi um þetta mál. Það tók Alþb. 12 ár að uppgötva málið og taka raunverulega undir með Alþfl. í baráttu flokksins fyrir framgangi málsins.

Og enn hefur Alþb. sýnt nýjan lit í málinu. Hv. þm. Alþb. í Ed. hefur tekið að sér að endurflytja þetta frv. nær óbreytt á þessu þingi, en það kom ekki fram fyrr en nær viku eftir að frv. okkar Alþfl.manna í Nd. um 18 ára kosningaaldur var dreift. Ég fagna því, að stuðningsmönnum við málið úr öðrum flokki fjölgi, enda ekki seinna vænna áður en Ísland verður eina landið í Evrópu sem hefur ekki 18 ára kosningaaldur. 18 ára kosningaaldur er nú í eftirtöldum löndum: Svíþjóð, Finnlandi, Stóra — Bretlandi, Írlandi, Portúgal, Frakklandi, Hollandi, Austur — Þýskalandi, Vestur — Þýskalandi, Ítalíu, Júgóslavíu, Albaníu, Búlgaríu, Rúmeníu, Ungverjalandi, Tékkóslóvakíu, Póllandi, Sovétríkjunum, Danmörku og Luxemburg.

Það má segja, að 18 ára kosningaaldur njóti aukins skilnings og viðurkenningar hér á landi. Benda má á að í prófkjörum stjórnmálaflokkanna var yfirleitt miðað við 18 ára lágmarksaldur til þátttöku, og það gilti einnig um lágmarksaldur í atkvgr. um kaupstaðarréttindi fyrir Selfoss. Þá hafa ýmis félagssamtök gefið þessu máli nánari gaum undanfarið og tekið undir kröfuna um 18 ára kosningarrétt, og er skemmst að minnast niðurstaðna þinga Sambands ungra framsóknarmanna og Sambands ungra sjálfstæðismanna um þetta efni.

Eitt nýmæli er að finna í þessu frv., sem flm. er ekki kunnugt um að lagt hafi verið fyrir Alþ. áður. Það er að kosningarréttaraldur skuli miða við þá sem verða 18 ára á því ári sem kosning fer fram. Í núgildandi stjórnarskipunarlögum er kveðið á um að kosningarréttaraldurinn skuli miðaður við þá sem eru orðnir 20 ára þegar kosning fer fram. Þetta frv. inniheldur aftur á móti þá breytingu, að viðmiðunin verði ekki afmælisdagur, heldur áramót, fyrir þá sem verða 18 ára á því ári sem kosning fer fram. Þetta þýðir, ef frv. þetta verður að lögum, að þeir, sem verða 18 ára á kosningaári, fái kosningarrétt, þótt sumir þeirra nái ekki 18 ára aldri fyrr en að loknum kosningum síðar á árinu. Áramótaviðmiðunin er þegar orðin algeng í þjóðfélaginu, þar sem lög hindra ekki, og má þar nefna að skólakerfið byggir á áramótaviðmiðuninni við flokkun nemenda í árganga. Ég tel að það sé ekki óeðlilegt, heldur þvert á móti séu ríkar ástæður til þess, að kosningarréttaraldur taki einnig mið af áramótum í stað afmælisdags.

Herra forseti. Ekki er nokkur vafi á því, að kosningarréttarmál af ýmsu tagi eigi eftir að koma til kasta nýkjörins Alþingis. Almennur kosningarréttur er grundvallarmannréttindi sem stjórnarskráin verður jafnan að tryggja þegnum sínum. Hér hefur verið vikið að máli um að kosningaaldur verði lækkaður úr 20 árum í 18 ár og fái þeir fyrst kosningarrétt, sem verða 18 ára á kosningaári. Þetta er mannréttindamál. Það er ekki ástæða til annars en að sýna íslensku æskufólki sama traust og æskufólk erlendis nýtur. Ungt fólk á Íslandi er yfirleitt virkari þátttakendur í atvinnulífi og félagslífi þjóðar sinnar og því er iðulega gert að axla meiri ábyrgð og skyldur en tíðkast á meðal erlendra þjóða. Með tilliti til jákvæðrar reynslu margra nágrannaþjóða okkar verður að álíta skynsamlegt og nauðsynlegt að færa kosningaaldur niður í 18 ár.

Við Íslendingar erum að verða eftirbátar annarra þjóða um að veita íslensku æskufólki þessi réttindi. Ég vona að Alþingi Íslendinga beri gæfu til þess að veita máli þessu brautargengi á þessu kjörtímabili og sýna ungu fólki í landinu það traust og þá virðingu sem það á skilið.

Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.