22.05.1979
Efri deild: 117. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5277 í B-deild Alþingistíðinda. (4713)

298. mál, ríkisreikningurinn 1977

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Frv til l. um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1977 liggur hér fyrir hv. d. á þskj. 645. Frv. þetta er samið eftir ríkisreikningi, A-hluta, fyrir árið 1977, sem yfirskoðunarmenn hafa fjallað um og undirritað till. sínar við hinn 3. maí s. l. Ríkisreikningurinn, A-hluti, var afhentur yfirskoðunarmönnum til meðferðar og lagður óendurskoðaður fyrir Alþ. í aprílmánuði 1978 og B-hluti reikningsins í nóvembermánuði s. l. Nú er reikningurinn í heild lagður fyrir Alþ. endurskoðaður með aths. yfirskoðunarmanna, svörum ráðh. við þeim og till. yfirskoðunarmanna.

Yfirskoðunarmenn gerðu fsp. eða aths. í átta liðum og birtu auk þeirra yfirlit um viðskipti innheimtuembætta við ríkissjóð samkv. bókhaldi ríkisbókhaldsins fyrir árið 1977 með svipuðum hætti og áður hefur tíðkast. Í till. sínum telja yfirskoðunarmenn að fullnægjandi skýringar hafi fengist við aths., en nokkur atriði verði til athugunar framvegis. Ég leyfi mér að vísa í ríkisreikninginn þm. til nánari skoðunar varðandi þennan þátt í afgreiðslu hans.

Hér á hv. Alþ. hefur áður verið gerð grein fyrir afkomu ríkissjóðs á árinu 1977. Ég sé ekki ástæðu til þess að geta helstu gjaldaliða. Þeir koma fram í frv. á þskj. 645. Ég sé að öðru leyti ekki ástæðu til þess að hafa um þetta frv. fleiri orð og legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.